Aukatekjur ríkissjóðs og gjaldtaka ríkisstofnana

55. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 15:46:44 (2553)


[15:46]
     Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) :
    Hæstv. forseti. Ég ber fram fsp. til hæstv. fjmrh. um aukatekjur ríkissjóðs og gjaldtöku ríkisstofnana. Fyrirspurnin er í tveimur liðum og fyrri liðurinn er svohljóðandi:
    ,,Hverjar hafa aðgerðir ráðuneytisins verið til að framkvæma þann vilja Alþingis sem lýst var í þingsályktun um aukatekjur ríkissjóðs og gjaldtöku ríkisstofnana frá 8. maí 1993?``
    Seinni liðurinn hljóðar svo: ,,Hefur gjaldtöku ríkisstofnana verið breytt til samræmis við samþykkt Alþingis? Ef svo er ekki, hvenær verður þá af því?``
    Eins og öllum er kunnugt hefur hæstv. ríkisstjórn þjónustugjaldanna tekið upp þann sið að innheimta mikið af þjónustugjöldum. Það er mjög mikilvægt að gerð sé grein fyrir þeim þjónustugjöldum, sem innheimt eru, á reikningum til þeirra sem borga. Það felst í þeirri samþykkt Alþingis, sem hér var nefnd, að gera eigi skýran greinarmun á sköttum og þjónustugjöldum og að þjónustugjöld skulu ævinlega miðast við framlagða þjónustu en ekki vera hærri í neinum tilfellum. Því miður hefur verið þannig hjá ríkinu í mörgum tilvikum að slumpað hefur verið á gjaldskrár og óeðlilega há gjöld verið innheimt fyrir þjónustu frá hendi ríkisins. Þá eru líka dulbúnar skattgreiðslur sem eru settar óeðlilega fram frá ríkinu --- það er ekki rétt að kalla þær dulbúnar, það eru skattgreiðslur, t.d. að taka stimpilgjöld af lánum og annað slíkt sem er í andstöðu við þá reglu að skattar eigi að koma almennt niður á þegnum landsins. Allt þetta er í raun og veru hluti af þeirri stefnumörkun sem kom fram í þeirri þáltill. sem ég bar fram á 116. löggjafarþingi og var samþykkt. Mér er auðvitað kunnugt um að hluti af því sem var innifalið í þáltill. komst í

framkvæmd á síðasta vetri þegar breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs voru samþykktar en mér sýnist að lítið hafi gengið með síðari hluta þeirrar samþykktar sem ég er að tala um, þ.e. þingsályktunar Alþingis og þess vegna er fyrirspurnin borin fram.