Aukatekjur ríkissjóðs og gjaldtaka ríkisstofnana

55. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 15:50:03 (2554)


[15:50]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hv. þm. spyr þessara fyrirspurna og má reyndar vísa til svara sem komu fram á síðasta þingi, nánar tiltekið 11. október 1993. Hlutir hafa þó breyst frá þeim tíma sem hér skal rakið: Fyrst vil ég þó segja frá því að auðvitað er munur á þjónustugjöldum og sköttum. Við höfum tekið þá umræðu áður. Það hafa verið gerðar athugasemdir við sum þjónustugjöld þegar talið er að gjaldið svari ekki til þeirrar þjónustu sem menn fá. Athugasemdir hafa m.a. komið fram, ég man eftir einni frá umboðsmanni Alþingis varðandi sölu á tollskýrslum og frá því var fallið af hálfu ráðneytisins. Þegar ég kom í fjmrn. voru aukatekjur ríkissjóðs heimtar inn án lagaheimildar. Það byggðist á reglugerð og eitt af mínum fyrstu verkum var að flytja frv. til laga þannig að tryggt yrði að aukatekjurnar væru heimtar inn á grundvelli laga enda er óheimilt að fara öðruvísi að.
    Stimpilgjöld eru að sjálfsögðu skattar en ekki þjónustugjöld og viðurkennd sem skattar. Það liggur fyrir þó að hluti þeirra geti verið eins konar þjónustugjöld því að auðvitað er umsýslukostnaður þegar verið að stimpla skjöl.
    Ég vík nú að merg málsins. Ríkisreikningsnefnd hefur nýlega skilað skýrslu sinni um fjárreiður ríkisins og í henni er sett fram mótuð stefna um hvernig haga skuli bókhaldi ríkisins, uppsetningu ríkisreiknings og fjárlaga í framtíðinni. Í skýrslunni er beinlínis gert ráð fyrir að í bókhaldi ríkisins verði gerður greinarmunur á þjónustutekjum annars vegar og sköttum hins vegar. Að gera greinarmun á þessu tvennu getur verið erfitt þar sem ekki er sjálfgefið hvernig meta eigi til verðs ýmsa þjónustu sem hið opinbera veitir. Það verður ekki gert nema með samræmdum hætti og því var ákveðið að bíða afraksturs starfs ríkisreikningsnefndar áður en farið yrði í umfangsmikla vinnu í þessu efni. Á næstu mánuðum verður unnið úr tillögum ríkisreikningsnefndar og er gert ráð fyrir að frv., sem byggt verður á hugmyndum nefndarinnar, verði lagt fram til kynningar á Alþingi áður en þingstörfum lýkur í vor. Þar verður væntanlega lagður grunnur undir þá vinnu sem nauðsynlegt er að leggja í til að hrinda í framkvæmd hugmyndum um sundurgreiningu þjónustutekna og skatta. Ég er með þessa þykku skýrslu, unnin í mörg ár um fjárreiður ríkisins. Þetta er atriði sem fulltrúar hinna ýmsu stofnana, þar á meðal fjmrn. og ríkisstofnana, hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu um. Þar er fjallað um brúttó- og nettófærslur og um þjónustutekjur og sértekjur og hvernig hugmyndin er að setja upp tekjur ríkisins með nokkuð breyttum hætti og enn fremur um gjöld sem verða líka sett upp nokkuð breytt. Í þessum tilvikum er gert ráð fyrir að minna verði um nettófærslur en hingað til hefur verið, bæði gjalda- og tekjuhlið.
    Þrátt fyrir þá biðstöðu, sem hefur orðið vegna þessa máls hér sem heldur þó áfram, og hér hefur vissulega mikilvægur áfangi náðst, hefur gjaldtöku ríkisins á afmörkuðu sviði verið breytt til lækkunar og er þá skemmst að minnast breytinga sem hv. þm. minntist á í sinni ræðu og kom fram í frv. sem samþykkt var á síðasta þingi. Þegar á heildina er litið tel ég því að skipulega sé unnið og vel að því að fylgja eftir þeirri þingsályktun sem Alþingi samþykkti á sínum tíma og málið sé í eðlilegum farvegi.