Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 23:18:10 (2679)


[23:18]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég ætlaði ekki að fara mörgum orðum um þetta fjárlagafrv. Hv. 6. þm. Vestf., Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, hefur gert grein fyrir frv. fyrir hönd Kvennalistans og mælt m.a. fyrir einni brtt. sem við kvennalistakonur flytjum á þskj. 364. Við flytjum aðeins örfáar brtt. við þetta frv. þó að svo sannarlega vildum við að þetta frv. væri í veigamiklum atriðum allt öðruvísi en hérna kemur fram.
    Vegna þeirra umræðna sem fóru fram rétt á undan um sjúkrahúsin langar mig til að minnast á eitt atriði. Það sem vekur athygli þegar verið er að skoða brtt. og þetta fjárlagafrv. sem við höfum nú fyrir framan okkur er staða stóru spítalanna. Það kom fram í máli hv. formanns fjárln. að það ætti að skoða málefni sjúkrahúsanna m.a. í Reykjavík milli 2. og 3. umr. Ég vil leggja verulega áherslu á það að hér hefur aðeins verið talað um sjúkrahús og heilsugæslustöðvar úti á landi. Það hefur lítið verið fjallað um spítalana hér í Reykjavík. Þetta þykir mér ófullnægjandi. Það er mjög erfitt að gera sér grein fyrir stöðunni í Reykjavík, sem er vægast sagt mjög slæm, þegar eingöngu eru tekin fyrir núna við þessa umræðu minni sjúkrahúsin og landsbyggðin.
    Það eru ekki margar vikur liðnar síðan ég fór ásamt fleiri þingmönnum Reykjavíkur í heimsókn á Borgarspítalann. Þar er verulega mikill rekstrarvandi. Ég geri ráð fyrir að fjárln. hafi fengið heimsókn frá forsvarsmönnum spítala og m.a. Borgarspítala og sjálfsagt annarra spítala á Reykjavíkursvæðinu þar sem rekstrarvandinn er gífurlega mikill og horfir til stórvandræða. Ég vil leggja verulega áherslu á það og vil raunar fá það staðfest að það verði tekið á rekstrarvanda spítalanna hér í Reykjavík þannig að ekki horfi í stórkostleg vandræði. Ég hef ekki fyrir framan mig tölur varðandi Borgarspítalann en ég hef þær í næsta húsi en ætla ekki að þreyta þingið á því að vera að lesa þær allar upp en það verður svo sannarlega gert við 3. umr. ef ekki verður tekið þarna verulega á. Vil ég inna hv. formann fjárln., hv. 7. þm. Norðurl. e., hvort ekki er ætlunin að taka á sama hátt á sjúkrahúsum í Reykjavík.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um sjúkrahúsin þar sem ég vildi bara leggja áherslu á þetta og leggja áherslu á að í Reykjavík fer fram gífurlega mikilvæg þjónusta fyrir allt landið. Það er ekki bara fyrir Reykjavík heldur fyrir allt landið. Við erum því ekki bara að tala um Reykvíkinga eða höfuðborgarsvæðið í þessu sambandi og ég vona að þarna verði tekið verulega á.
    Í meirihlutaáliti fjárln. kemur fram álit umhvn. á bls. 39. Ég ætla ekki að gera annað en að vísa til þessa álits en vil þó benda á atriði sem ég vona að verði litið á milli 2. og 3. umr. Í álitinu er sérstaklega tekið fram varðandi Hollustuvernd ríkisins að hún eigi að afla ákveðinna sértekna. Það kom fram í máli þeirra sem komu á fund nefndarinnar að það væri útilokað fyrir Hollustuverndin að auka sértekjur sínar með þeim hætti sem þarna væri gert ráð fyrir því þá þyrfti að leggja álögur sérstaklega á sveitarfélögin sem nota þjónustu Hollustuverndar. Það mundi frekar verða til þess að sveitarfélög leituðu síður til Hollustuverndar um þjónustu. Ég tel að sú þjónusta sem Hollustuvernd ríkisins veitir sveitarfélögum sé svo mikilvæg að það verði að líta sérstaklega til þess að ekki verði þannig farið að að Hollustuvernd ríkisins geti ekki veitt þá þjónustu sem ég tel mjög nauðsynlega.
    Ég bendi einnig á að álögur á Hollustuvernd ríkisins hafa verið auknar verulega m.a. vegna EES-samningsins og annarra verkefna og þess vegna tel ég rétt að fjárln. líti til þessa þáttar milli umræðna. Það er kannski ekki síst fyrir okkur í umhvn. Við erum í fyrsta skipti að fjalla um Hollustuvernd ríkisins vegna þess að hún var flutt frá heilbr.- og trmrn. til umhvrn. á síðasta vetri. Við teljum því að það verði að gæta þess að þessi stofnun falli ekki á milli.
    Ég vil minnast á DMA-kortagerð en í fyrra veitti Alþingi fjármuni í þá kortagerð Landmælinga Íslands. Þetta er samvinnuverkefni við landmælingastofnun varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna sem hefur gert kort hér á landi og það er mjög mikilvægt að við stöndum þannig að málum að kortin verði íslenskuð og gerð þannig að við getum notað þau hér á landi. Ég vil minna á þetta því að ég tel að við verðum að veita

fé til þessa verkefnis þannig að það geti haldið áfram. Það má alls ekki láta þetta detta á milli. Mér er kunnugt um að Bandaríkjamenn hafa óskað eftir því að hraða þessum málum og það væri mjög mikill skaði ef við gætum ekki staðið við okkar hlut í þessu verkefni.
    Ég vildi gjarnan fjalla um bæði Náttúruverndarráð, Náttúrannsóknastöðina við Mývatn og fleiri þætti sem við minnumst á í okkar áliti. Ég ætla bara að vísa til þess. Við í minni hluta umhvn. bendum á það í okkar áliti að það þurfi að auka fjárveitingar til allra þessara þátta og bendum raunar á mikilvægi þess að fjárveitingar til umhverfismála verði auknar en þeim verði ekki haldið í því lágmarki sem þær hafa verið í bæði nú og undanfarin ár, því miður. Það er mikil hætta á því að þetta fari að bitna á náttúru landsins og getur haft óbætanlegt tjón í för með sér.
    Það er einn þáttur sem ég vil spyrja sérstaklega um og þá beini ég aftur máli mínu til hv. formanns fjárln. Það er varðandi Veðurstofu Íslands. Eins og kunnugt er urðu miklar kjaradeilur á Veðurstofunni fyrir nokkuð mörgum mánuðum sem eru landsmönnum í fersku minni. Það kom fram í máli fulltrúa Veðurstofunnar sem kom á fund umhvn., ég býst við að það komi einnig fram í gögnum sem fjárln. hefur undir höndum, að rekstrarvandi stofnunarinnar er verulegur og byggist fyrst og fremst á þessum kjarasamningi. Því vil ég spyrja: Hvers vegna er ekki tekið tillit til þessa kjarasamnings í tillögum fjárln. nú? Það var ekki tekið tillit til þess varðandi fjárlagatillögurnar og það virðist ekki vera svo að fjárln. hafi heldur tekið tillit til þess að um aukningu á útgjöldum Veðurstofunnar væri að ræða vegna þessa kjarasamnings. En ég tek hins vegar eftir að það er gert annars staðar. Það er t.d. tekið til þess varðandi Sinfóníuhljómsveit Íslands og það er líka tekið tillit til þess varðandi sjúkrahúsin og kannski víðar. Ég hef ekki kembt þetta svo vel að ég geti sagt til um það. En það er greinilegt að í sumum tilvikum hefur fjárln. tekið tillit til kjarasamninga. Því spyr ég aftur: Hvers vegna er ekki tekið tillit til þess varðandi Veðurstofu Íslands?
    Ég bendi einnig á það sem kom fram hjá forsvarsmönnum Veðurstofunnar að Veðurstofunni er ætlað að afla nokkurra sértekna sem fulltrúar hennar töldu mjög vafasamt að væri hægt og mundi það koma niður á stofnununni. Þetta bið ég einnig hv. fjárln. að athuga hvort ekki sé hægt að veita einhverja úrlausn.
    Þá kem ég að einu atriði enn sem ég vildi spyrja um. Það er varðandi atriði sem kom fram í máli hv. formanns fjárln. þegar hann gerði grein fyrir áliti meiri hlutans. Það er varðandi 69. tölul. tillagna meiri hluta fjárln. sem heitir Veiðistjóri. Það er við 4. gr. 14-210 101 þar sem segir: Fyrir 39.600 kemur 41.100, þ.e. hækkun um 1,5 millj. kr. Í skýringum hv. formanns nefndarinnar er þessi hækkun vegna þess að stofna á kennslu- og rannsóknarstöð við Háskóla Íslands varðandi villt spendýr á Íslandi og væri talið eðlilegt, ef ég man rétt, að þessi staða væri greidd af lið veiðistjóra.
    Það kom mér á óvart að sjá í fyrsta lagi að það væri eðlilegt að þetta væri á þessum lið og ekki síst kom mér á óvart að þarna skyldi einungis vera um 1,5 millj. kr. hækkun að ræða. Þetta virðist vera staða í hálft ár því að það kom fram einnig að það væri miðað við við að þessi staða væri veitt frá 1. júlí að telja. Ég á ákaflega erfitt með að sjá það að ný staða við Háskóla Íslands skuli ekki kosta meira en 1,5 millj. kr. vegna þess að það hlýtur að vera um að ræða laun fyrir prófessor auk þess sem hverri prófessorsstöðu fylgir heilmikill kostnaður, bæði stofnkostnaður sem og kostnaður fyrir mannskap. Ég vil því spyrja hvernig þessi tala er tilkomin.
    Að lokum, frú forseti, vildi ég gera örstutta grein fyrir þeim tveim brtt. í viðbót sem við kvennalistakonur hugsum okkur að flytja við þessa umræðu fjárlaga. Þær eru á þskj. 374 og 375. Það er annars vegar um nýjan lið um Háskóla Íslands, kvennarannsóknir, 10 millj. kr. Kvennarannsóknastofnun háskólans hefur verið starfandi um nokkurt skeið og hefur starfað mjög vel og hefur vakið mikla athygli, bæði hér á landi og reyndar erlendis líka. Nú hafa þær óskað eftir því að sett yrði á stofn prófessorsstaða í kvennarannsóknum. Þetta fyrirkomulag er víða erlendis, þ.e. sérstakar rannsóknastöður í kvennarannsóknum og hefur gefist mjög vel og tel ég mjög mikilvægt að við styðjum þá starfsemi sem þarna hefur farið fram og setjum nýjan lið, 10 millj. kr., um kvennarannsóknir.
    Hin brtt. er líka um nýjan lið sem heitir styrkir til kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking, 5 millj. kr. Eins og fram hefur komið tekur ríkisstjórn Íslands undir forustu utanrrn. þátt í kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking en ýmis félagasamtök, bæði Kvenfélagasambandið, Kvennréttindafélagið og fleiri hafa hug á að sækja þessa ráðstefnu en jafnframt ríkisstjórnarráðstefnunni er einnig ráðstefna almannasamtaka og það tel ég mjög mikilvægt og Kvennalistinn að það verði tekin frá ákveðin fjárveiting á fjárlögum til þess að hægt sé að styrkja almannasamtök til að senda fulltrúa á ráðstefnuna þannig að íslenskar konur geti þar átt fulltrúa á ráðstefnunni fyrir almannasamtök í Peking.
    Ég læt þetta duga, virðulegi forseti, þó að vissulega væri hægt að fara mjög mörgum fleiri orðum um þetta fjárlagafrv. og þær breytingartillögur sem hér eru og vænti þess að ég fái einhver svör við þeim spurningum sem ég hef borið fram.