Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 00:29:03 (2695)


[00:29]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kemur mér satt að segja algerlega á óvart að þessi sjónarmið hafi komið fram í háskólanum. Við höfum í menntmn. þingsins heyrt fulltrúa háskólans lýsa fjárhagsástandi stofnunarinnar á mjög ítarlegum fundum. Við höfum farið í gegnum margs konar pappíra um þetta mál. Menntmn. hefur mætt út í háskóla og hv. fjárln. hefur líka fengið upplýsingar frá háskólanum þannig að ég verð að segja alveg eins og er að þetta kemur mér alveg á óvart. Og ef þessi sjónarmið eru rík innan háskólans, þá segi ég alveg eins og er að ég undrast það mjög að þeir menn sem halda þeim sjónarmiðum fram skuli ekki hafa komið þeim fram innan háskólans og þannig tryggt að þau fengju málefnalega meðhöndlun.