Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 00:51:11 (2701)


[00:51]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Fyrst varðandi Kvikmyndasjóð örfá orð. Það er ekki nýtt að Kvikmyndasjóður hafi orðið fyrir skerðingu. Ég nefni aðeins í því samhengi að á þriggja ára tímabili fyrri ríkisstjórnar var sjóðurinn skertur meira en á fjórum árum þessarar ef tekið er tillit til þess sem ráðgert er á næsta fjárlagaári og ný verkefni sjóðsins breyta í raun engu um.
    Hv. þm. spurði hvenær úthlutað yrði úr Menningarsjóði útvarpsstöðva. Því er til að svara að það verður ekki úthlutað úr Menningarsjóði útvarpsstöðva nema peningar séu fyrir hendi og þeim hefur verið eytt fyrir fram. Skuld sjóðsins við fjmrn. nam verulegum upphæðum. Við höfum verið í viðræðum undanfarna mánuði. Niðurstaðan verður væntanlega sú að sjóðurinn þarf að greiða fjmrn. 145 millj. kr. Þeir

peningar eru fyrir hendi í sjóðnum eða verða það væntanlega um áramót og þegar þessi skuld hefur verið gerð upp verður hægt að úthluta úr sjóðnum.
    Það er mín skoðun að það hafi verið mistök hjá sjóðsstjórninni að auglýsa eftir umsóknum þegar hún mátti vita að skuldir væru meiri en eignir sjóðsins. En þessu verður sem sagt komið í lag núna um áramót og þá ætti að vera hægt að úthluta úr sjóðnum á næsta ári, hvenær þori ég ekki að segja um. Árlegar tekjur Menningarsjóðs eru um 80 millj. kr. en framlagsskylda til Sinfóníuhljómsveitarinnar má ætla að verði um það bil 50 millj. Til ráðstöfunar eru þá um 30 millj.