Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 01:00:02 (2705)


[01:00]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég ætlaði að gera lítillega grein fyrir nokkrum breytingartillögum sem ég er flm. að eða meðflm. og víkja að nokkrum öðrum þáttum í þessu fjárlagafrv. og/eða brtt. sem fram eru komnar við það. Það er fyrst ástæða til að staldra við þá staðreynd, hæstv. forseti, að í þessu frv. og þeim breytingaáformum ríkisstjórnar sem fram eru komin, eða þingmeirihluta hér, þá felst endanleg staðfesting á þeirri hrikalegu uppgjöf í ríkisfjármálum sem einkennir þetta kjörtímabil. Það er kunnara en frá þurfi að segja að í þessum efnum eins og fleirum lagði hæstv. ríkisstjórn af stað með háleit markmið og miklum fyrirgangi og gaf út frægar yfirlýsingar um hvernig vandinn yrði leystur varðandi hallarekstur ríkissjóðs, sem nokkur brögð höfðu verið að undanfarin ár eins kunnugt er, og það átti nánast að taka þennan óvin á klofbragði og dengja honum í jörðina á einum, tveimur árum. Hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson var m.a. mjög frægur fyrir það að lofa mönnum tekjuafgangi á ríkissjóði, rekstrarafgangi strax á þessu kjörtímabili. Ég hygg, ef rétt er munað, að á þessu ári sem nú er senn að líða hafi átt að reka ríkissjóð nokkurn veginn á sléttu samkvæmt þessum áætlunum og síðan ætti að verða umtalsverður tekjuafgangur á árinu 1995. Þannig voru áformin sem hæstv. fjmrh. lagði upp með.
    Nú er staðan sú að svona eftir því sem næst verður komist þá stefnir í um 8--10 milljarða halla við frágang þessa fjárlagafrv. sem hér er til umræðu og hallinn á kjörtímabilinu, sá hluti fjárlagahallans á þessu árabili sem hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson ber ábyrgð á, stefnir í 40--50 milljarða kr. og er þar með auðvitað algert Íslandsmet. Enginn einn fjmrh. hefur í sögunni skilað jafnhrikalegri niðurstöðu í þessum efnum. Svo mikið fyrir hin fögru orð um mikla ábyrgð og festu og mikinn árangur á þessu sviði.
    Þetta er auðvitað mikið umhugsunarefni og mikið alvöruefni, hæstv. forseti, ekki síst vegna þess að raunskuldir ríkissjóðs hafa verið að vaxa verulega og skuldabyrðin er náttúrlega orðin veruleg. Það er því miður allt of stutt í það að ríkissjóður nánast lokist af í skuldagildru þannig að sífellt meiri hluti tekna fari í það eitt að halda niðri skuldunum án þess að ráða við að borga þær niður og auðvitað er þar á ferðinni stórháskaleg þróun. Mönnum er tamt að mæla gjarnan hinar erlendu skuldir og síst skal lítið úr því gert að það er mikið áhyggjuefni fyrir þjóðarbúið hversu miklar þær eru, en það er líka rétt að hafa í huga að frá sjónarhóli ríkisrekstrarins og samneyslunnar þá er skuldabyrði ríkissjóðs sem slík, sem hlutfall af tekjum eða hvernig sem það nú er mælt og hvort sem heldur þær skuldir liggja innan lands eða erlendis, einnig mikið áhyggjuefni. Það hlýtur öllum a.m.k. að vera ljóst sem einhverjar áhyggjur hafa af starfrækslu velferðarkerfisins hér á Íslandi að við svo búið má náttúrlega ekki standa. Svona getur þetta ekki gengið áfram. Það verða engin töfrabrögð dregin fram úr erminni til þess að leysa þennan vanda með einhverjum öðrum aðferðum en þeim sem eru þekktar og menn verða að reyna að nota í dag, þ.e. að ná saman endum, afla tekna þannig að þær standi a.m.k. undir útgjöldum og helst betur því að auðvitað þarf að stefna að því að ná þessum skuldum eitthvað niður. Sífellt stærri hluti þessara skulda og nánast allar þessar skuldir nú á síðari árum fara í rekstur og það er ekki lengur svo, eins og var í árdaga, að langtímalántaka ríkissjóðs í formi útgáfu ríkisskuldabréfa eða annarra slíkra hluta sé öll sérstaklega merkt framkvæmdum.
    Auðvitað er það þannig, hæstv. forseti, að með þessu erum við, núverandi kynslóð í landinu, sú sem er á dögum á þessum árum, einfaldlega að taka með vissum hætti lífskjör okkar að láni hjá komandi kynslóðum. Það er ekkert annað sem hér er að gerast. Með hallarekstri af þessu tagi, sem er orðinn jafnstöðugur og viðvarandi og hann er á þessu kjörtímabili, haggast í raun og veru ekki neitt. Þetta eru svipaðar tölur öll fjögur árin sem hæstv. fjmrh. stendur hér að afgreiðslu fjárlagafrumvarpa, einhvers staðar á bilinu 6, 7 og upp í 10 milljarða kr., þó niðurstaðan sé að vísu kannski eitthvað breytileg eftir því hvernig hlutir hafa þróast og alveg ljóst til að mynda að ríkisreikningur fyrir árið 1993 stefnir í að verða harla ljótur. En svona, hæstv. forseti, getur þetta auðvitað ekki gengið.
    Þess vegna vekur það talsverða athygli að ríkisstjórn með þennan feril að baki og þessi áform stendur síðan að málum með þeim hætti sem hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar gerði hér sl. laugardag, að sprengja púðurkerlingar, standa fyrir mikilli flugeldasýningu, blekkingaleik, sem þegar betur er að gáð og grannt er skoðað er í raun og veru fyrst og fremst afar óábyrgt kosningaáróðursútspil, þar sem á ferðinni eru að vísu nokkrar ívilnandi aðgerðir en allri tekjuöflun á móti er vísað á framtíðina svo heitið geti. Þá óveru sem framlenging á útþynntum hátekjuskattinum er samkvæmt þessari samþykkt er ekki hægt að kalla í raun og veru neina tekjuöflun sem nái máli. Og það var alveg hlálegt er garpurinn hæstv. utanrrh. fór svo mikinn í fjölmiðlum, taldi þetta vera einhvern besta dag í sögu stjórnarsamstarfsins og manni verður á að spyrja: Hvernig eru þá slæmu dagarnir úr því að þetta var alveg sérstakur sæludagur hjá krötum, þessi laugardagur? (Gripið fram í.) Þeir hljóta að vera harla nöturlegir sæludagarnir á þessu stjórnarheimili, þ.e. slæmu dagarnir úr því að þetta var einhver mesta sælustund ríkisstjórnarinnar þegar hún sauð saman þessa moðsuðu og þennan blekkingavef sem yfirlýsingin á laugardaginn var.
    En hæstv. utanrrh. fór mikinn og gumaði af þeim mikla árangri sem þarna væri að nást og alveg sérstaklega hvað þetta væri allt ábyrgt, alveg einstaklega ábyrgt. Nú væri aldeilis uppi öldin önnur en áður hefði verið og í tíð fyrrv. fjmrh. þegar menn hefðu látið vaða á súðum og sýnt mikið ábyrgðarleysi í aðdraganda kosninga. Hæstv. utanrrh. nefndi að vísu ekki að hann sat í þeirri ríkisstjórn og bar auðvitað fulla ábyrgð á öllum hennar gerðum, en honum hentar að haga þessu svona í sínum rismikla málflutningi núna.

En nú ætti sem sagt aldeilis að brjóta í blað, nú skyldu reikningarnir ekki sendir framtíðinni, nei, það væri aldeilis ekki.
    En hvað er þessi yfirlýsing? Hún er í raun og veru fyrst og fremst ákvörðun um að auka hallann á ríkissjóði á næsta ári um einhverja 2 milljarða kr. a.m.k. sýnist manni fljótt á litið og velta þeim vanda á framtíðina að afla tekna þar á móti. Það er auðvitað voðalega fínt að slá um sig með því að lækka skatta, aðallega á hátekjufólki og stóreignafólki. Það er von að það sé mikill sæludagur hjá Alþfl. þegar þessi einstaki árangur næst fram, að sérstakt álag á hátekjuskatt fólks með yfir 2 milljónir í laun er fellt niður, hefur lengi verið baráttumál Sjálfstfl., vegna þess að þeir í stjórnarandstöðu gripu til þess ráðs að finna upp nafngiftina ekknaskatt á þennan skatt þó að það sé morgunljóst að sá eignarskattur sem lagður er á almennt er auðvitað miklu meiri ekknaskattur ef út í það er farið heldur en þessar álögur sem koma eingöngu á stærstu eignir og hæstu tekjur. En svona er þetta nú. Svona getur Alþfl. snúið hlutunum á haus eins og kunnugt er af mikilli kúnst, að aðgerðir í ríkisfjármálum, ef aðgerðir skyldi kalla, sem fela það í reynd í sér að auka hallann um milljarða kr. eru kallaðar alveg einstaklega ábyrgar og það er sæludagur, alveg einstakur hátíðisdagur í sögu Jafnaðarmannaflokks Íslands, sem svo skreytir sig með nafngift, að þynna út hátekjuskatt og lækka sérstaklega skatta á hátekjufólki og stóreignafólki. Ja, mikil eru þau endemi, hæstv. forseti.
    Ég hygg að þegar betur verður að gáð, hvort sem einhverjir nenna nú að skoða þá hluti ofan í kjölinn af einhverri samviskusemi hér á næstu dögum, en þegar frá líður þá mun mönnum þó a.m.k. verða ljóst að þetta útspil á laugardaginn var var einhver allra mesta púðurkerling, eitthvert mesta prump sem hér hefur lengi heyrst, hæstv. forseti, og satt best að segja harla ömurlegt hvernig menn í fyrstunni létu taka sig í bólinu gagnvart þessum blekkingaleik ríkisstjórnarinnar því að það mátti svo sem vita það hvers væri að vænta úr þeim herbúðum eftir endurteknar uppákomur af því tagi. Og samskipti hæstv. ríkisstjórnar við bæði fjölmiðla, almenning í landinu og stjórnarandstöðuna, verkalýðshreyfinguna og aðra slíka aðila eru náttúrlega alveg makalaus í þessu sambandi. Það er t.d. athyglisvert að þegar ríkisstjórnin er að kynna eitthvað af þessum áróðursupphlaupum sínum þá er tíminn til blaðamannafunda gjarnan valinn svona milli hálfsex og sjö á kvöldin þannig að það sé alveg öruggt mál að áróðursútspilið sé svo nýkomið í hendur fréttamanna og fjölmiðlamanna að þeir eigi eiginlega engan kost á því að sannreyna neitt sem í því stendur fyrir aðalfréttatíma fjölmiðlanna að kvöldi. Og mönnum verður það á, og lái svo sem mönnum hver sem vill, að taka það sem þarna er sett á blöð trúanlegt og fara með það í fréttir sem einhvern sannleik. Síðan kemur annað á daginn en þá gengur oft eins og verða vill misjafnlega að koma þeim leiðréttingum að. Auðvitað hafa allir áttað sig á því nú hversu gífurlegar blekkingar voru fólgnar í orðalagi plaggsins um t.d. skattfrelsismörkin, en ég er alveg sannfærður um að hálf þjóðin trúir því eðlilega vegna áhrifanna af fyrstu fréttunum að henni hafi verið afhent þarna alveg sérstök skattalækkun, alveg sérstök greiðasemi af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, þegar staðreyndin er sú, eins og allir sjá, að allt og sumt sem fólst í ákvörðun ríkisstjórnarinnar var í raun og veru að standa við það sem þegar hafði verið ákveðið með fjárlagafrv. að hækka ekki skattana, hækka þá ekki sérstaklega núna um áramótin. Svona er nú hægt að snúa hlutunum á haus, hæstv. forseti, kannski ekki á Austurlandi en alla vega hér í Stjórnarráðinu.
    Ég ætlaði síðan, hæstv. forseti, að gera lítillega að umtalsefni eina tvo málaflokka. Það eru annars vegar landbúnaðarmál sem ég sé ástæðu til að gera hér lítillega að umtalsefni varðandi þessa afgreiðslu fjárlagafrv. og það er af tvennu tilefni sem mér finnst óhjákvæmilegt að nefna hér við þessa umræðu. Hið fyrra er sú staðreynd sem uppi er og hefur svo sem verið bent á og ég hef áður gagnrýnt og varað við, að hæstv. ríkisstjórn væri í raun og veru með mjög grófum hætti að svíkja samninga við bændur, brjóta svonefndan búvörusamning þannig að við það verður ekki unað. Það er ljóst og um það vitnar m.a. ágætt nefndarálit landbn. sem hefur farið yfir landbúnaðarhluta fjárlagafrv. eins og vera ber samkvæmt hinu nýja skipulagi hér, að fagnefndir skoði þá málaflokka sem undir þá heyra í frv. Þar er ósköp einfaldlega fullyrt, komist að þeirri niðurstöðu eftir nokkuð vandaða að því er virðist yfirferð á því máli að það vanti mikið upp á að efndir ríkisstjórnarinnar á búvörusamningnum séu eins og ákvæði hans gefa tilefni til. Og það á við um fjölmarga þætti sem fylgdu búvörusamningnum, stuðningsákvæði samningsins og ákvæði í viðauka og það verður að segja alveg eins og er að það er óvenju bíræfið, það er óvenju ósvífið af hæstv. ríkisstjórn að svíkja svona þennan samning, sérstaklega í ljósi þess að það liggur fyrir, það er ekki um það deilt, að tilkoma þessa samnings hefur sparað ríkissjóði meiri útgjöld en nokkur önnur einstök aðgerð í ríkisfjármálum um langt, langt árabil.
    Það er nú svo merkilegt, hæstv. forseti, þegar Alþfl. er að monta sig af því að hann sé ábyrgur flokkur í ríkisfjármálum og jafnvel ýmsir aðrir flokkar, Sjálfstfl., eru að glenna sig eitthvað upp með það, þá er horft fram hjá þeirri staðreynd að sú einstaka aðgerð sem skilað hefur að þessu leytinu til langmestum árangri á undanförnum árum er gerð búvörusamningsins sem sparar ríkissjóði nú á hverju ári útgjöld sem nema líklega um 3,5--4 milljörðum kr. miðað við það sem var áður en samningurinn leit dagsins ljós. Þeim mun ósvífnara er það auðvitað, hæstv. forseti, að það skuli staðið þannig að framkvæmd samningsins að stuðningsákvæði hans, sem áttu að koma til móts við bændur og sveitirnar vegna þeirrar erfiðu aðlögunar að breyttu aðstæðum sem í búvörusamningnum felast, skuli svo vera svikin, skuli svo vera vanefnd. Þar eru ekki á ferðinni stórar upphæðir borið saman við þann gríðarlega ávinning sem ríkissjóður hefur af þessari breytingu. Og ég segi alveg eins og er að ég trúi því ekki að menn verði svo lánlausir eftir að þessar upplýsingar eru komnar fram með þeim hætti sem nú liggur fyrir að loka hér fjárlagafrv. án þess að sýna einhverja viðleitni í þá átt að efna þennan samning.
    Við þingmenn Alþb. höfum beðið um skýrslu, mjög ítarlega eða sundurliðaða skýrslu, um stöðu búvörusamningsins og framkvæmdina á honum, þar með talin öll þessi atriði og reyndar mörg fleiri sem hér er fjallað um og varða efndir á viðaukum og bókunum með samningum og auðvitað er það ámælisvert, hæstv. forseti, að svar skuli ekki vera komið við þeirri skýrslu, við þeirri beiðni, því hún var lögð fram strax í haust. Lægi það gagn fyrir þá hefði verið hægt að ræða þetta kannski út frá meiri þekkingu og í meiri smáatriðum heldur en nú er, en við því er í sjálfu sér ekkert að gera og út af fyrir sig alveg ljóst að hér liggja fyrir nægjanlega ítarleg gögn til þess að ekki þarf að deila um það að þarna eru á ferðinni stórkostlegar vanefndir t.d. varðandi fjárveitingar til Byggðastofnunar, til uppbyggingar í staðinn fyrir þann samdrátt sem þarna er á ferðinni. (Gripið fram í.) Ég verð að segja alveg eins og er --- já, þetta er ágætur félagsskapur, hv. þm, ég kvarta ekkert undan því. Einn krati og nokkrir framsóknarmenn og svo ræðumaður, það er ágætis hópur.
    Ég vil láta það koma skýrt fram, hæstv. forseti, varðandi þessi framlög til Byggðastofnunar, að það lá alveg ljóst fyrir frá byrjun og við undirritun búvörusamningsins að þar var verið að tala um framlög, enda hefði engum manni dottið í hug að fara að setja á blað einhver markmið um að Byggðastofnun ætti að veita eitthvert lítilræði að láni í þessu sambandi. Það er augljóst mál að slíkt hefði ekkert gagn gert. Nei, það var frá því gengið og ég get alveg upplýst það hér að þegar verið var að ganga frá viðaukum og stuðningsákvæðum búvörusamningsins í Rúgbrauðsgerðinni að kvöldlagi líklega sólarhring áður en skrifað var undir samninginn, leggja þar síðustu hönd á það verk, þá var það sameiginlegur skilningur okkar sem þar vorum að festa hluti á blað að auðvitað hlytu þetta að þurfa að vera framlög eins og annað sem þarna er. Þannig að ég vil að a.m.k. að minn skilningur á því, sem þáv. landbrh. sem undirritaði þennan samning, liggi fyrir, að ég taldi mig vera að ganga þarna frá því að þarna yrði um framlög að ræða.
    Reyndar verð ég svo að segja það alveg eins og er að ég spyr mig svolítið að því af hverju láta samningsaðilarnir það líðast að samningurinn sé brotinn. Af hverju höfða bændur ekki mál? Mér finnst það svolítið linkulegt, satt best að segja, af forustu bænda, sem á fyrir þeirra hönd að annast framkvæmd þessa samnings, að halda ríkinu ekki betur við efnið því á því er ekki nokkur minnsti vafi að bændur geta sótt þennan rétt sinn að lögum. Það er ekki nokkur vafi á því. Samningurinn er löggerningur eins og aðrir slíkir. Hann er skuldbindandi fyrir ríkið. Á því er ekki nokkur minnsti vafi því hann er undirritaður af tveimur ráðherrum og er gerður með lögformlegum og lögmætum og réttum hætti á grundvelli heimilda í lögum og staðfestur ítrekað eftir á af Alþingi. Þannig að samningurinn er sem slíkur algerlega skothelt plagg og ríkið er skuldbundið af þessum samningi gagnvart þessum greiðslum. Í raun og veru er það því ekkert nema bjálfagangur að láta það líðast að svona ákvæði séu vanefnd. Það hlýtur auðvitað að gerast að þau verði greidd og að mínu mati þá með vöxtum eins og um væri að ræða vangoldnar bætur eða greiðslur aðrar af slíku tagi sem eðlilegt er að beri vexti frá gjalddaga. Þannig að þessi svik ríkisstjórnarinar, þessar vanefndir á framkvæmd búvörusamningsins, á ekki að þola, hvorki hér á Alþingi og ekki heldur nein ástæða til þess að samningsaðilarnir, mótaðilarnir, bændur í landinu eða bændasamtökin geri það.
    Auðvitað er það ljóst að þarna er grundvallarmunur á annars vegar samningsákvæðunum sjálfum og viðaukum við samninginn og hins vegar bókunum. Þar er meira um svona stefnumarkandi viljayfirlýsingar að ræða, en varðandi þá viðauka sem fela í sér fjárútlát þá eru þeir undirritaðir af bæði landbrh. og fjmrh. á sinni tíð og eru þar af leiðandi alveg óumdeilanlega og óvefengjanlega skuldbindandi fyrir ríkið.
    Hitt, hæstv. forseti, sem ég ætlaði aðeins að ræða varðandi landbúnaðarmálin er þessi ótrúlega staða sem aftur er komin upp með jarðræktarframlögin, þessi ótrúlega staða. Auðvitað er voðalegur skaði að ræða þetta hér, þetta helsta hugðarefni í lífi hv. 3. þm. Austurl., skurðgröftinn, án þess að hann sé hér viðstaddur. En við vitum náttúrlega að hv. 3. þm. Austurl. er örugglega mjög önnum kafinn við önnur skyldustörf og ég ætla þá ekkert að fjargviðrast út af því að hann geti ekki verið hér viðstaddur, en ég vona að hann geri mér þá þann heiður að lesa þingtíðindin þegar þau koma á prent og fái meðtekið mín sjónarmið í þessum efnum gegnum þau.
    En staðreyndin er sú að það er ekki hægt að skiljast svo við þessa skuldasöfnun sem á nýjan leik er hafin í sambandi við jarðræktarframlög að rifja þar ekki upp pínulitla sögu. Hún er ekki löng. En þannig er, hæstv. forseti, að þegar ríkisstjórnarskipti urðu á haustinu 1988 og farið var að athuga stöðu mála á ýmsum fjárlagaliðum og ýmsum liðum sem undir landbrn. heyra, þá kom í ljós að að einu leyti til var staðan alveg afbrigðilega slæm og hroðaleg og það var varðandi liðinn jarðræktarframlög. Það var í hnotskurn þannig að skuld, sem sjálfsagt að núvirði væri vel yfir hálfan milljarð kr., sjálfsagt einhvers staðar á bilinu 500--750 millj., mig minnir að tölurnar hafi verið nálægt 500 millj. þarna á haustdögum 1988, lá bara óafgreidd í óreiðu og það sem verra var, það var enginn vafi á því að bændur áttu rétt á þessum styrkjum samkvæmt lögum. Lögin voru þannig úr garði gerð að í raun fólst í þeim sjálfkræfur réttur bænda til styrkja út á allar þær framkvæmdir sem þeir réðust í og voru teknar út. Með öðrum orðum, upphæð þeirra skuldbindinga sem ríkið gat lent í vegna þessara mála réðst eingöngu af því hversu mikið af skurðum og hversu mikið af túnum og hversu mikið af kjöllurum bændur kusu að ráðast í að framkvæma. Þannig hafði verið um nokkurt árabil að þessi sjálftökuákvæði laganna héldust óbreytt, menn voru ekki menn til þess að breyta þeim úr því að ekki var lengur lagt fé til þess gera þau upp, heldur létu lögin halda gildi sínu en

skuldirnar hlaðast upp. Það tók alveg steininn úr á síðasta eina til eina og hálfa árinu fyrir þessi stjórnarskipti. Þá komst hæstv. þáv. landbrh. Jón Helgason hvorki lönd né strönd því í fjmrn. sat hæstv. núv. utanrrh., illu heilli, Jón Baldvin Hannibalsson, og neitaði með öllu að borga nokkurn skapaðan hlut af þessum jarðræktarframlögum og styrkjum, bara algerlega. Og hæstv. þáv. landbrh., hv. núv. 2. þm. Suðurl., Jón Helgason, komst hvorki fetið fram né aftur. (Gripið fram í.) Já, það væri betur.
    Þannig var nú ástandið, hæstv. forseti. Þetta var nú ekki mjög björgulegt satt best að segja og ekki sérlega skemmtileg uppákoma að þarna lágu í óreiðu margra ára ógreiddir styrkir sem enginn vafi lék á að bændur áttu rétt á samkvæmt þeim ákvæðum sem voru í lögum. Og hvað varð þá að gera? Hvað varð að gera? Jú, það var að taka á þessum gríðarlega fortíðarvanda. Einhver varð að gera það. Það kostaði heilmikil átök og heilmikil læti og það auðvitað þýddi að m.a. varð að skera mjög harkalega niður þessa styrki á næstu árum þarna á eftir til þess að ráðast í það að borga upp þessar skuldir. Það var gert með tvennum hætti. Það var gert annars vegar með því að ég lagði fram frv. og fékk samþykkt hér á Alþingi frv. sem afnam þessa sjálftöku styrkjanna og breyttu þessu yfir á það form að menn verða nú að sækja um og fá viðurkenndar og samþykktar umsóknir áður en þeir eiga rétt á styrkjum. Þannig er hægt að stjórna því hve mikið fer út og þetta er ekki lengur sjálftaka. Að hinu leytinu náði landbrn. loks, eftir nokkuð ströng og stíf fundahöld satt best að segja, samningum við fjmrn. um að gera þessar skuldir upp á nokkrum árum. Það var m.a. gert með útgáfu skuldabréfa sem bændur fengu og komu til greiðslu á þriggja eða fjögurra ára tímabili. Það að gera upp skuld upp á 500, 600, 700 millj. kr. plús það að greiða þá þó að vísu væru miklu minni styrkir á árunum sem á eftir fóru var auðvitað gríðarlegt átak en það tókst. Það tókst að vinna upp þessar skuldir þannig að þegar núv. ríkisstjórn tók við þá var að koma til greiðslu síðasta árið af afborgunum þessara skuldabréfa. Með öðrum orðum, það var búið að hreinsa borðið. En hvað hefur gerst síðan? Sagan er að endurtaka sig. Hinir ábyrgu snillingar í núv. ríkisstjórn sem hafa talað meira en flestir aðrir um fortíðarvanda, hvað eru þeir að gera? Þeir eru að mynda aftur skuld af því tagi sem þeir skildu við sig þegar þeir fóru síðast úr Stjórnarráðinu, sjálfstæðismenn. ( Gripið fram í: Lögunum var breytt.) Lögunum var breytt. Hvað um það, hv. frammíkallandi. Þá er að myndast skuld aftur af jarðræktarframlögunum. Nei. Er það ekki það sem landbn. fullyrðir hér í sínu nefndaráliti samhljóða, þar á meðal þingmenn Sjálfstfl. í þeirri nefnd, mesti spekingur Sjálfstfl. um allar aldir í landbúnaðarmálum, hv. 3. þm. Austurl. Ekki er verið að vefengja ,,átorítet`` hans hér í landbúnaðarmálum, er það, hv. 1. þm. Vesturl. Ég trúi því ekki. Þau stórtíðindi geta ekki verið að gerast hér að það sé verið að setja hinn óopinbera varalandbrh. Sjálfstfl. af, hv. þm. Egil Jónsson, og það fjarri góðu gamni. Það bara getur ekki verið.
    Staðreyndin er sú að ég var búinn að fá af þessu nokkrar fregnir, hæstv. forseti, að þessi ótrúlegu tíðindi væru að gerast á nýjan leik, að það væri komið upp sambærilegt klúður þó tölurnar séu að vísu enn þá minni og farinn að myndast á nýjan leik hali gagnvart þessum lið. Og það er alveg ótrúlegt, það er með endemum að það skuli vera að gerast því nú er auðvitað búið að minnka þannig umfang þessa liðar og var búið að breyta þannig lögum að það átti að vera búið að ná algerlega utan um það að þarna gæti orðið um nokkra sjálftöku að ræða. Þannig var lögunum breytt í tíð fyrri ríkisstjórnar. Hér hefur því átt sér stað mikið klúður sem óhjákvæmilegt er að gagnrýna mjög harðlega og auðvitað eru þessi samskipti ekki á nokkurn hátt í skaplegu formi eins og þau hafa hér verið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og við bændurna.
    Þegar þetta tvennt er skoðað og auðvitað mætti fleira nefna, þá finnast mér nú fjaðrirnar vera farnar a.m.k. að sviðna dálítið á hæstv. landbrh. sem hefur komist í býsna mikil metorð úti í sveitum fyrir þá einföldu ástæðu að hann var svo heppinn að kratarnir fóru að hamast á honum í landbúnaðarmálum. Það gerði náttúrlega hæstv. landbrh. umsvifalaust vinsælan í sveitum landsins að Alþfl. fór að ráðast á hann. En það verður auðvitað að skoða verkin, þau sýna merkin og þarna, a.m.k. í þessum tveimur greinum, þar sem núv. ríkisstjórn tók við hreinu borði, það var búið að koma þeim málum í lag, eru menn búnir að falla algerlega á prófinu varðandi framkvæmd búvörusamningsins að öðru leyti og hins vegar þetta með jarðræktarframlögin og styrkina sem ég hef hér verið að nefna.
    Auðvitað er það þannig að þegar maður fer að hugsa um þetta þá verður þetta tal hæstv. forsrh. um fortíðarvandann þeim mun hlægilegra sem maður hugsar til þess að fyrri ríkisstjórn kom að margs konar vanda af þessu tagi, arfleifð Sjálfstfl. sem þurfti að gera upp. Það vill nú svo til að þegar stjórnarskiptin urðu haustið 1988 þá var Sjálfstfl. búinn að sitja í ríkisstjórn samfellt í fimm og hálft ár. Eða a.m.k. eitthvað á sjötta ár. Ekki rétt munað, hæstv. forseti? Að hann hafi skreiðst inn í Stjórnarráðið á vordögum 1983 þegar aumingja ræfils Framsfl. var svo ógæfusamur að mynda með honum einhverja verstu ríkisstjórn sem hér hefur setið um langt skeið, m.a. þá ríkisstjórn sem beitti sér fyrir misgenginu í húsnæðismálunum eins og frægt er, einhverri grimmustu og ljótustu kjaraskerðingu sem lengi hefur verið ráðist í, á vordögum 1983. En hvað um það, um það verður alla vega ekki deilt að Sjálfstfl. hafði þá setið í ríkisstjórn í á sjötta ár haustið 1988. En hann skildi eftir sig óráðsíu af ýmsu tagi eins og þá sem ég hef verið að nefna. Sama mætti t.d. nefna um skuldir ríkisins sem þá höfðu hlaðist upp á löngu árabili í Reykjavíkurborg vegna vegaframkvæmda. Það er ágætt fyrir þingmenn Reykv., en hér situr a.m.k. einn, að vita í hvaða horfi þau mál voru þegar ríkisstjórnin tók við 1988. Þá lá afvelta skuld ríkisins eða Vegagerðarinnar við Reykjavíkurborg upp á á annan milljarð kr. sem hinir miklu snillingar í Sjálfstfl., sem farið höfðu með samgöngumál og ríkisfjármál að hluta til, það æfðu sig ýmsir í fjmrn. í tíð ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl., 1983--1987, eins og kunnugt er með misjöfnum árangri í tengslum við stólaleik Sjálfstfl. og allt það. En afraksturinn

af því var nú sá þegar sjálfstæðismenn höfðu stjórnað öllum þremur apparötunum, fjmrn., samgrn. og Reykjavíkurborg, að þeir skildu eftir sig skuld við borgina upp á talsvert á annan milljarð kr. Það kom einmitt í hlut þessarar sömu fyrri ríkisstjórnar að gera upp þá skuld, sópa upp fortíðarvandann eftir íhaldið. Þeim málum var komið í lag með samningum við borgina áður en kosningar fóru fram árið 1991. Nú er hins vegar hafin á nýjan leik svona skuldasöfnun í vegamálum eins og kunnugt er því að stór hluti af framkvæmdum á þessu kjörtímabili eins og menn guma mjög af hafa verið teknar að láni.
    Það er þannig, hæstv. forseti, að ég ætlaði svo lítillega að nefna einnig samgöngumálin. Ég hef reyndar gert það áður og við önnur tækifæri þannig að ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þau efnislega en mér finnst óhjákvæmilegt að nefna það hér eins og reyndar er ágætlega gert í nál. minni hluta fjárln. að það er orðinn hreinn skrípaleikur hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur staðið að uppsetningu þess málaflokks og framkvæmd á kjörtímabilinu. Ég hef margsagt það hér og ég get endurtekið það einu sinni enn að ég tel að framganga hæstv. ríkisstjórnar í vegamálum með hinum sérstöku framkvæmdaátökum sem svo eru kölluð og eru fyrst og fremst aðferð til að koma talsverðum hluta vegafjárins til hliðar út úr vegáætlun, út úr vinnu Alþingis og skipta þeim að geðþótta við ráðherraborðið, að þetta sé skýlaust brot á 10. gr. vegalaga, það er það. Það sjá það allir menn sem lesa þá grein. Þar stendur á eins ágætri íslensku og nokkuð getur verið að með vegaframkvæmdir skuli farið þannig --- gleður mig stórkostlega að hv. 1. þm. Vesturl. er nú vel vaknaður hér úti í salnum og hefur beðið um orðið í andsvari. Hann ætlar vonandi að reyna að verja hendur Sjálfstfl. í þessum vegamálum. ( StB: Ég hef vakað lengi og vel.) Það er nú gott að heyra. En þannig er þetta, hæstv. forseti, að í 10. gr. vegalaganna eða a.m.k. þeirra gömlu vegalaga sem ég kunni nokkuð vel, nú er sennilega búið að breyta því númeri með nýafgreiddum lögum í fyrra. Þá stóð, og þau ákvæði eru efnislega óbreytt í nýju vegalögunum, algerlega skýrum stöfum að með vegaframkvæmdir skuli fara þannig að vegamálastjóri undirbýr tillögu til þál. um vegáætlun og leggur fyrir samgrh. sem aftur leggur hana fyrir Alþingi. Alþingi ákveður síðan í umfjöllun sinni skiptingu vegafjárins niður á einstaka framkvæmdaliði, einstök verk. Þetta stendur í lögum. Það eru algerlega skýr og afdráttarlaus fyrirmæli um það hvernig skuli ráðstafa fjármunum til vegagerðar á Íslandi: Í gegnum vegáætlun og með ákvörðunum Alþingis. Þannig að það sem hér hefur gerst í tíð þessarar ríkisstjórnar er skýlaust lögbrot. Auðvitað geta menn sagt að með því að leita heimildar eftir á þá séu þeir að reyna að bjarga sér fyrir horn. Það er að minnsta kosti alveg ljóst að þegar framkvæmdaátakið fór af stað og framkvæmdir hófust á því sumri sem ákvörðunin var tekin og við þau verk sem ríkisstjórnin ákvað við sitt borð áður en málið kom til kasta Alþingis þá átti sér stað lögbrot, á því er ekki nokkur vafi. Auðvitað er Sjálfstfl. í þvílíkri mótsögn við sjálfan sig í því máli vegna fyrri afstöðu sinnar að það skyldi nú ekki eiga að vera að einhvern tímann eigi það nú eftir að koma fram á spjöldum sögunnar.
    Þannig var nefnilega að þegar einhvern tímann átti fyrr á öldinni að fresta vegaframkvæmdum í einhverju sparnaðarkasti sem greip menn á árinu 1989 um heilar 35 millj. kr. og ég lagði tillögu fyrir ríkisstjórnina síðla árs 1989 um hvaða framkvæmdum skyldi frestað, hverjir urðu þá vitlausir aðrir en þingmenn Sjálfstfl.? Þeir stóðu grenjandi í þessum ræðustól hver á fætur öðrum, hv. þm. Pálmi Jónsson, 1. þm. Norðurl. v., og fleiri slíkir og sögðu: Lögbrot, lögbrot, lögbrot. Samgrh. og ríkisstjórn eiga ekkert með það að vera að fresta framkvæmdum sem búið er að ákveða á Alþingi og vegáætlun gerir ráð fyrir. Það er sko lögbrot, hneyksli, svívirða. Var þó ekki verið að tala um að fella þær framkvæmdir niður eða hætta við það heldur eingöngu að fresta þeim og var að sjálfsögðu alltaf ætlunin að leita heimildar Alþingis á því hausti, fyrir þeirri frestun áður en árið yrði úti. En þeir töldu þetta svo heilagt að það skyldi ráðast í framkvæmdirnar um sumarið og það væri algerlega óheimilt að bíða með að hefja þær þangað til að það hefði verið borið undir Alþingi hvort Alþingi féllist á að fresta þeim. Svona var heilagleiki Sjálfstfl. á þessum árum gagnvart því að það mætti ekki fara í hinu minnsta eða smæsta á svig við það forræði sem Alþingi með sinni vinnu og sinni skiptingu á grundvelli vegáætlunar hefði. Þetta mál stóð svo í stappi á haustmánuðum og það var alveg ljóst að það hafði ekkert lögbrot farið fram fyrr en árið væri þá liðið. Niðurstaðan varð sú að það náðist samkomulag um meðferð þessa máls hér á þingi og í samskiptum milli ríkisstjórnar, meiri hluta og minni hluta, og málinu var lokið þannig í sæmilegri sátt fyrir áramót. Það er a.m.k. alveg ljóst að það hlýtur að vera nokkuð snúið fyrir hv. þm. Sjálfstfl. sem þekkja þessa forsögu málsins og m.a. arfleifð síns eigin flokks að ætla að koma hér upp ef einhverjir þeirra skyldu ætla að gera það og halda því fram að þetta hafi verið í lagi eins og að þessu hefur verið staðið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar núna. Það er nú svo, hæstv. forseti.
    Ég vil svo að lokum varðandi þessi samgöngumál vegna þess að um vegamálin hefur áður verið ítarlega fjallað og þann skípaleik sem þar er í gangi að skerða vegatekjur í ríkissjóð og færa síðan aftur út úr ríkissjóði peninga í eitthvað sem kallað eru sérstök framkvæmdaátök. Þegar upp er staðið er í raun og veru framkvæmdagildi fjárveitingar til vegamála ekkert meira en það hefur verið um árabil. Það er allt saman pótemkin-tjöld, það er allt saman skrípaleikur, það eru svona færslur fram og til baka eins og Bör Börson og ýmsar slíkar sögupersónur kváðu hafa verið nokkuð góðar í, svona froðufærslur eins og það heitir víst á máli bókhaldara, fram og til baka. Þegar upp er staðið þá er niðurstaðan sú að framkvæmdagildi fjárveitinga í vegamálum hefur verið minna en mörg undanfarin ár vegna þess að að hluta til hafa þarna verið á ferðinni lántökur. En ráðstöfunarfé hefur verið allbærilegt, það hef ég alla tíð viðurkennt. En megingallinn er sá að því hefur að hluta til verið haldið uppi með lántökum. En þessi skrípaleikur fram og til

baka með færslurnar á þessu er neðan við allar hellur. Sennilega er það þannig að ef þeir sjálfstæðismenn koma hér upp og verja þessa tilhögun þá gætu menn freistast til að taka það gilt að hérna væri verið að innleiða nýja samskiptahætti í þessum efnum. Næsta ríkisstjórn, ef hún leggst þá svo lágt að fara í sama farið, velur væntanlega þetta verklag líka. Hún tekur stóran hluta vegafjárins til hliðar þannig að hin venjubundna umfjöllun á þingi og ákvörðun um skiptingu kemst hvergi að og ákveður það á hnjánum eða við ráðherraborðin hvernig og í hvað þetta skuli fara. Auðvitað er það öllum til bölvunar að innleiða slík vinnubrögð hér, að spilla þeirri samstöðu sem einkennt hafði um alllangt árabil meðferð þessa málaflokks. Ég segi það alveg eins og er, hæstv. forseti, í fullri einlægni að ég harma hvernig ríkisstjórnin hefur staðið að þessum málum. Það er mjög slæmt, mjög miður, og ég óttast að það geti dregið leiðindadilk á eftir sér í samskiptum manna á þessu sviði á komandi árum.
    Varðandi svo flugmálin að lokum undir þessum samgöngulið þá hef ég líka gagnrýnt það áður að þar skuli eiga að fara út á þá braut að taka til við að skerða hina mörkuðu tekjustofna flugmálaáætlunar og láta þá að hluta til standa undir rekstri á flugmálasviðinu. Ætlunin er sem sagt að taka 70 millj. kr. af hinum mörkuðu tekjum flugmálaáætlunar sem eiga samkvæmt gildandi lögum að renna eingöngu til uppbyggingar og framkvæmda og ráðstafa þeim í rekstur. Ég tel þetta sérstaklega ámælisvert vegna þess að flugreksturinn í landinu er ekki atvinnugrein sem skynsamlegt er að fara að nota sem skattstofn í þessum skilningi, það er mjög vitlaust. Flugið borgar verulegar álögur og þjónustugjöld sem renna í þann rekstur í formi lendingargjalda og ýmissa þjónustugjalda, skoðunargjalda, gjalda til loftferðaeftirlits og slíkra aðila, þannig að það eru fyrir verulegar álögur á fluginu, flugrekendum og farþegum sem auðvitað borga það að lokum. En samt sem áður létu menn sig hafa það á sínum tíma 1987 að leggja viðbótarskatta á bæði flugfarþegana og flugrekendurna í formi eldsneytisgjalds til þess að kosta uppbyggingu á þessu sviði og eingöngu uppbyggingu. Ég tel það mikið ógæfuskref að fara út í það að gera nú þessa mörkuðu tekjustofna að skattstofni fyrir ríkissjóð því það er ekkert annað sem þarna er verið að gera, 70 millj. í ár, hvað verður það næsta ár? Rekstur flugvallanna umfram tekjur kostar um 180 millj. kr. á ári. Það er hægt að hugsa sér að hækkanir á komandi árum verði réttlættar með því að það þurfi meira í reksturinn og áður en við er litið verður kannski stór hluti þessa tekjustofns búinn að sogast þarna upp í rekstur og hægir á bráðnauðsynlegri uppbyggingu á þessu sviði sem því nemur. Þetta er mjög dapurlegt og ömurlegt, hæstv. forseti. Ég verð að segja að lengi getur mann undrað og komið manni á óvart metnaðarleysi ýmissa hv. þm. stjórnarliðsins að láta svona yfir sig ganga. Það tókst hér með mjög öflugum þrýstingi og mjög harðri baráttu í fyrra að berja til baka og niður áform um að leggja virðisaukaskatt á fólksflutninga innan lands og þá auðvitað ekki síst innanlandsflugi. Sú ákvörðun sem hér á að fara að taka er síst skárri að mínu mati, síst skárri en það hefði verið að leggja virðisaukaskatt á flugfarseðlana innan lands. Vegna þess að þarna eru á ferðinni miklir peningar sem augljóslega munu festast í sessi ef menn einu sinni gefast upp fyrir þessu og enda sem hreinn skattstofn á þennan flugrekstur og á farþegana. Þar með líka fyrst og fremst landsbyggðarskattur. Ég óska þeim miklu snillingum hér, þingmönnum stjórnarliðsins á landsbyggðinni sérstaklega, til hamingju með jólagjöfina sem þeir ætla að taka með sér heim til kjósenda sinna, t.d. á Vestfjörðum og Austfjörðum, landshluta sem eru sérstaklega háðir flugi. Það hlýtur að vera gaman fyrir þá að fara heim með þessa jólagjöf eða hitt þó heldur.
    Nei, það hefur sjálfsagt ekki mikið upp á sig að vera hér um hánótt að reyna að ræða það hvort ekki sé einhver grundvöllur eða forsenda til að endurskoða þessi áform. En ég verð að segja alveg eins og er að mér finnast þetta mikil og sár vonbrigði að sjá þennan lið svona leikinn.
    Ég hef áður lýst eftir því hvernig hv. 1. þm. Vestf. líði við þessar aðstæður. Hann er nú upphafsmaður að þessari flugmálaáætlun og þeirri gjaldtöku sem hér er á ferðinni. Ég verð að segja alveg eins og er að það þykja mér harla dapurleg örlög ef það á yfir hann að ganga að greiða atkvæði með þessu á sínu síðasta þingi, það verð ég að segja alveg eins og er. En e.t.v. verður það nú ekki. E.t.v. kemur eitthvað til sem breytir þessu eða þá að hv. 1. þm. Vestf. rífur sig lausan og greiðir einfaldlega atkvæði á móti þessu sem hann væri náttúrlega fullsæmdur af því að hann á að láta sína betri vitund ráða í þessum efnum en ekki handjárn ríkisstjórnarinnar.
    Þetta er hálfgert óhæfuverk, hæstv. forseti, sem á að fara að vinna í þessum málaflokki. Það segir mér því miður svo sannarlega hugur um. Við erum einmitt sömu dagana að ræða það hvernig menn hafa á örfáum árum gengið á lagið varðandi til að mynda skerðingu á tekjum Framkvæmdasjóðs fatlaðra og Framkvæmdasjóðs aldraðra fyrir einhverjum árum síðan í einhverjum vandræðum og klúðri brugðu menn á það ráð að heimila að taka pínulítið af þeim peningum í viðhald mannvirkja. Hvað gerðist svo næst? Jú, það var ákveðið að fara með smáprósentu í rekstur. Og hvað gerist þar næst? Sú prósenta er hækkuð úr 25% í 40% þannig að áður en við er litið er kannski meiri hluti þessa tekjustofns, sem átti að ganga til uppbyggingar á þessu sviði, horfinn inn í reksturinn, orðinn skattstofn því að þessi útgjöld hafði ríkissjóður áður greitt.
    Þá, hæstv. forseti, ætlaði ég að rekja aðeins þær brtt. sem ég er flm. að. Nú stendur svo illa á að ég er ekki með þær í höndunum. Þá er spurning hvort hægt sé að hjálpast að við það í þingsalnum að fara í eitthvert samstarfsverkefni um það að koma þeim í mínar hendur. ( Gripið fram í: Átaksverkefni.) Það væri upplagt átaksverkefni, ég veit ekki í sjálfu sér ekki hvort það er sérstaklega atvinnuskapandi. Það væri til hægðarauka því þó að ég muni eitthvað af tillögunum í grófum dráttum þá er vissara upp á upphæðirnar að hafa tillögurnar í höndunum.
    Ég hafði hugsað mér í fyrsta lagi að leggja til breytingartillögur á samgöngumálasviðinu. ( Gripið fram í: ... tillögu Jóhönnu?) Nei, hv. frammíkallandi. Ég er heldur tregur til að fara út í það. Ég ætlaði að mæla sérstaklega fyrir tillögu á þskj. 367 um breytingar á nokkrum liðum sem falla undir samgrn. eða samgöngumál.
    Það fyrsta er gamall kunningi. Það er að settur verði inn nýr fjárlagaliður upp á 5 millj. kr. til undirbúnings, rannsókna og framkvæmda, við að styrkja útsker það í norðri sem Kolbeinsey heitir. Þannig er að ræðumaður hefur um nokkurt skeið verið mikill áhugamaður um það að við a.m.k. látum það ekki eftir baráttulaust að missa þann grunnlínupunkt sem Kolbeinsey er og stækkar íslensku efnahagslögsöguna um 9.600 ferkílómetra og munar um minna. Nú geta menn deilt um hversu réttarstaða okkar veikist eða versnar við það að Kolbeinsey breytist úr ey í útsker og hverfi síðan en þó er alveg ljóst hygg ég að samkvæmt ákvæðum grunnlínukafla alþjóðahafréttarsáttmálans þá veikist okkar réttarstaða til mikilla muna ef eyjan hverfur þó að ljóst sé að við eigum í ágreiningi við sumar okkar nágrannaþjóðir út af grunnlínum á þessu svæði.
    Nú kann vel að vera að máttarvöldin og náttúruöflin reynist okkur mönnunum, fáum og smáum, uppi á Íslandi yfirsterkari og því verði að lokum ekki forðað að Kolbeinsey hverfi í hafið nema þau hin sömu náttúruöfl haldi áfram smíðinni og láti gjósa myndarlega á svæðinu þannig að upp komi ný eyja sem væri jarðfræðilega hugsanlegt en kannski ekki líklegt að við verðum svo heppin í okkar tíð að það gerist því að hinn jarðsögulegi tímakvarði er dálítið annar en okkar mannanna eins og kunnugt er og þarf mjög mikla þolinmæði til að mynda til þess að bíða eftir atburðum á mælikvarða jarðsögunnar. ( Gripið fram í: Það er ólíklegt að það gerist milli 2. og 3. umr.) Já, það mundi sennilega vera nokkuð langt liðið á þessa umræðu ef við ættum að bíða eftir ýmsum atburðum sem lúta hinum jarðsögulega tímakvarða.
    Ég hef sagt að þó ekki væri nema við gætum seinkað því um 30--50 ár að Kolbeinsey hyrfi þá gæti það skipt miklu máli og verið nokkurra peninga virði. Í öllu falli finnst mér aumingjalegt að láta það stranda á fáeinum milljónum króna að unnt sé gera og ljúka þeim rannsóknum, athugunum og könnunum, bæði á staðnum sem og þjóðréttarlegs eðlis, sem að mínu mati þurfa að fara fram til að ganga úr skugga um það annars vegar hvort það er tæknilega viðráðanlegt að gera þarna eitthvað sem gæti skipt máli og hins vegar að reyna að fá eins glögga mynd af því þjóðréttarlega séð og hægt er hve miklu máli þetta kynni að skipta okkur. Því verður að vísu sjálfsagt aldrei svarað fyrr en fyrir dómi og það er einmitt mergurinn málsins, hæstv. forseti, að svo kann vel að fara að Íslendingar verði dregnir fyrir dómstóla á næstu árum vegna ágreinings um þetta mál. Danir hafa staðið í löngum og harðvítugum málaferlum fyrir hönd Grænlendinga við Norðmenn út af miðlínu milli Jan Mayen og Grænlands. Nú er dómur nýlega fallinn því máli, að vísu nokkurs konar salómonsdómur en ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum frá Danmörku að Danir hafi síðan haft í undirbúningi eða séu a.m.k. með í athugun að stefna í kjölfar á Íslendingum vegna ágreinings varðandi grunnlínupunktana Kolbeinsey og Hvalbak þegar þeir hafa lokið sínu uppgjöri við Norðmenn á þessu sviði. Þá kynni einmitt að skipta máli að við hefðum gert allt sem í okkar valdi stendur til að styrkja okkar stöðu. Það er mjög leiðinlegt ef við erum svo illa komin í þessum efnum að við getum ekki kostað einhverjum smávegis fjármunum til til að verja hugsanlega jafngríðarlega hagsmuni og þarna eru á ferðinni, jafngríðarlega hagsmuni og þarna geta verið á ferðinni, þessa 9.600 ferkílómetra af íslensku efnahagslögsögunni og ýmis framtíðarréttindi sem gætu hangið á spýtunni og við vitum ekki endilega í dag hver eru, svo sem ýmis hafsbotnsréttindi sem þarna gætu fylgt. Þetta er 1. liður brtt., hæstv. forseti, og ekki fleiri orð um það.
    Annar liður tillögunnar á þskj. 367 er um framkvæmdir þær á flugvöllum sem ég hef gert að umtalsefni. Ég legg til að 70 millj. kr. skerðing á framkvæmdafé flugmálaáætlunar verði felld niður. Yrði það samþykkt við atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. leiddi af sjálfu að menn mundu þá fella í hinum óþverralega bandormi ríkisstjórnarinnar þau lagaákvæði sem lúta að því að heimila þessa skerðingu og málið væri þar með úr sögunni. Verði einhverjar vonir til þess að þetta mál verði skoðað er ég fús að kalla þessa brtt. aftur til 3. umr. en ef ekki þá tel ég a.m.k. rétt að láta hana koma til atkvæða þannig að stjórnarliðar hafi ekkert að skýla sér á bak við í þeim efnum ef þeir ætla virkilega að axla ábyrgðina af því að standa svona að málum.
    Þriðji og síðasti töluliður á brtt., hæstv. forseti, varðar Ferðamálaráð. Ég legg þar til nokkra hækkun á almennum lið Ferðamálaráðs úr 68 millj. í 90. Þessar 68 millj. hafa staðið óbreyttar að krónutölu í þrjú eða jafnvel fjögur ár og er afar bagalegt þegar ljóst er að verkefnin eru vaxandi ár frá ári. Ég vil þess vegna meina að þarna sé á ferðinni tiltölulega hófleg krafa um lítils háttar hækkun, má eiginlega segja, og ljóst að þarna er hvergi nærri skilað eftir sem áður öllum tekjum til Ferðamálaráðs sem því ber lögum samkvæmt að fá sem eru 10% af brúttóvörusölu Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Það mun láta nærri að það væri um 180--190 millj. kr. ef Ferðamálaráð fengi allar þær tekjur. Menn geta e.t.v. haft þá skoðun að það væri fullrausnarlegt en í öllu falli er mikill munur á því að sitja uppi með sömu krónutöluna ár eftir ár eftir ár sem sníður Ferðamálaráði svo þröngan stakk að það getur rétt aðeins haldið úti sínum hefðbundna rekstri á landkynningarskrifstofunum erlendis í Frankfurt og New York og getur sáralítið annað gert.
    Í öðru lagi, hæstv. forseti, vil ég mæla fyrir brtt. á þskj. 366 sem ég flyt ásamt hv. 3. þm. Vesturl., Jóhanni Ársælssyni. Þar er á ferðinni afar einföld tillaga um að hækka lítillega, leyfi ég mér að segja,

í raun og veru afar hógvær tillaga, liðinn Styrking dreifikerfis í sveitum og á þar við dreifikerfi rafmagns. En slíkur er metnaður stjórnarliðsins í þessum efnum að þarna fundu stjórnarliðar matarholu til að skera sérstaklega niður, þ.e. að lækka um, ég hygg, einar 6 millj. kr. þennan rausnarlega fjárlagalið, styrking dreifikerfis í sveitum, sem var um 20 millj. en þeir ætla að lækka niður í 14,6 á næsta ári. Er það þó væntanlega þekkt af einhverjum fleirum en ræðumanni sem eitthvað fara um sveitir landsins endrum og sinnum, kannski gerir hv. 1. þm. Vesturl. það. Hann hlýtur a.m.k. að aka af og til í gegnum Borgarfjörðinn á leið sinni vestur í Stykkishólm og jafnvel hugsanlegt líka að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson slæðist inn á einn og einn sveitabæ á Vestfjörðum. Og það skyldi nú ekki vera að bændur hafi einmitt kvartað yfir því að eitt af því sem hái þeim mjög í nútímabúrekstri og t.d. gagnvart því að tæknivæða sinn búskap, þeir sem á annað borð eru í einhverjum færum til slíks, sé einmitt lélegt dreifikerfi og vöntun á þrífösun á rafmagni í sveitum sem háir mönnum stórkostlega miðað við nútímakröfur og aðstæður. Það til að mynda að hafa ekki þriggja fasa rafmagn er viðbótarútgjaldaliður upp á hundruð þúsunda kr. þegar verið er að kaupa inn dýr rafmagnstæki í súgþurrkunarmótora og annað því um líkt. Þetta veit ég að hv. þm. þekkja sem eitthvað vita um aðstæður í landsbyggðarkjördæmunum og þess vegna hlýtur þá að taka nokkuð sárt að leika þennan fjárlagalið upp á 14,6 millj. kr. með þessum hætti.
    Við leggjum til í fyrra lagi að þetta verði hækkað í 25 millj. en til vara, skyldi það nú vera fellt, að hækkunin verði þær 6 millj. rúmar sem ríkisstjórnin eða meiri hlutinn leggur til að þetta verði lækkað um samkvæmt fjárlagafrv. og færi þá í 19,2 millj. og væri það engin ofrausn held ég þó að þetta væri látið eftir. Sama á við um þetta að væri einhver von til þess að á þetta yrði litið milli umræðna þá væri ég fús til þess að kalla það aftur til 3. umr.
    Að lokum eitt áhugamál, hæstv. forseti, sem ég hef gjarnan minnt á við þessar umræður að vísu fyrir vægast sagt daufum eyrum svo ekki sé meira sagt og er það nokkur lífsreynsla í sjálfu sér að hafa starfað hér í 11 ár, átt sér ákveðið áhugamál af þessu tagi og reynt að koma því hér að og til einhvers framgangs á undangengnum árum og hafa ekki haft meiri uppskeru en raun ber vitni. Ég á hér við framlög okkar Íslendinga til þróunarsamvinnu, til þróunarhjálpar í heiminum. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst afar skammarlegt að Íslendingar verandi í hópi ríkustu þjóða heimsins skuli vera með þeim allra öftustu, á borð við alveg niður undir þriðja heims ríki hvað varðar framlög til þróunarsamvinnu. Við af mikilli eigingirni skerum okkur algerlega úr hvað varðar þjóðir á Vesturlöndum, svo ekki sé talað um hin Norðurlöndin sem öll gera nokkuð vel í þessum efnum hvað varðar það að við ráðstöfum miklu, miklu lægri hluta af okkar þjóðartekjum til þessara verkefna hafandi þó tekið þátt í að samþykkja það á alþjóðavettvangi að stefnt skuli að því að 1% af þjóðartekjunum eða framleiðslunni miðað við tilteknar viðmiðunarforsendur renni til svona verkefna. Var það gjarnan hugsað að kannski tveir þriðju hlutar þess kæmu frá ríki og afgangurinn frá einkaaðilum. Þennan lið þyrfti að vísu að hækka um nokkur hundruð prósent til þess að koma upp á einhvert það plan sem væri hægt að sýna og standa kinnroðalaust frammi fyrir erlendis en ég legg hér til að liðurinn verði hækkaður um liðlega 20 millj. kr. og er svo sem ekki mikið en mundi þó lyfta því svolítið og einhverjir gætu þó a.m.k. glaðst yfir því að við værum aðeins á réttri leið í þessum efnum. Það er þó sannarlega ekki svo, því miður, hæstv. forseti, að verkefnin séu eitthvað á undanhaldi úti í hinum stríðshrjáða og hungraða heimi þar sem barist er við offjölgun, sjúkdóma og önnur slík vandamál. Þvert á móti er það þannig að neyðarköllin úr ýmsum áttum hafa aldrei verið háværari en einmitt nú. Þannig að því er ekki fyrir að fara að við getum réttlætt frammistöðu okkar á þessu sviði með því að það sé batnandi ástand í þessum efnum í heiminum.
    Ég geri mér alveg grein fyrir að það er sjálfsagt afar lítill áhugi á þessu málefni hér og fáir sem nenna að hlusta á ræðuhöld um miðja nótt um þetta efni og sjálfsagt borin von að það takist að óbreyttu að ná þessu hlutfalli nokkuð upp. Þess vegna vil ég minna á gamla hugmynd sem áður hefur svo sem verið sett fram, bæði af mér og fleirum, að e.t.v. ætti með einhverjum hætti að bera það upp og jafnvel undir þjóðina hvort hún vildi taka á sig sérstaka gjaldtöku til að standa undir framlögum á þessu sviði. Það væri hægt að hugsa sér einhvern veginn þannig að það væri tekjutengt eða þannig fyrir komið að það teldist að bestu manna yfirsýn sæmilega sanngjarnt. Síðan mætti hugsa sér að það hækkaði í áföngum á einhverju árabili þannig að þessi framlög kæmust upp í það horf að við Íslendingar gætum kinnroðalaust sýnt okkar frammistöðu á alþjóðavettvangi. Ég get mjög vel hugsað mér að láta bera slíkt undir þjóðaratkvæði í tengslum við almennar kosningar og mundi ekki kosta mikið þó að í tengslum við almennar kosningar væri þjóðin jafnframt beðin að tjá hug sinn til þess hvort hún vildi til að mynda gagnvart þessu sérstaka verkefni samþykkja á sig skattheimtu af einhverju slíku tagi sem kæmi í áföngum og yrði tekjustofn helst, liggur mér við að segja, stjórnarskrárvarinn til að ganga til þessa verkefnis.
    Þá ekki fleiri orð um það, hæstv. forseti, enda finnst sjálfsagt einhverjum nóg um, en ræðumaður er nú þeirri undarlegu ástríðu haldinn að ég hef leyft mér að segja það sem ég tel mig þurfa að segja um þessi mál án tillits til þess hvað klukkan er. Það er stundum ætlast til þess að menn segi ekki það sem þeim býr í brjósti eða afsali sér málfrelsi ef klukkan er farin að ganga eitt eða tvö eða eitthvað slíkt að næturlagi en ég hef aldrei látið það hafa mikil áhrif á mig satt best að segja. Ég held að við hljótum að ræða hér mál og skiptast á skoðunum eins og við teljum okkur skylt og rétt og taka okkur í það þann tíma sem nauðsynlegur er og þó svo það megi sjá á einum og einum manni að menn eru farnir að þreytast sem skiljanlegt er, þá held ég að við verðum að láta þau alvarlegu viðfangsefni sem við erum með í höndunum ganga fyrir og taka þau til umræðu.
    Það er, hæstv. forseti, satt best að segja afar fátt til þess að gleðjast yfir við 2. umr. um fjárlög á þessum ágæta desemberdegi eða nóttu eins og nú er víst orðin og lítið tilefni til fagnaðarláta satt best að segja þegar yfir þetta plagg, fjárlagafrv., er farið og þau áform sem síðan hafa verið kynnt um meðferð þess. Auðvitað er það ekki þannig að ég efist í sjálfu sér um ágætan vilja hv. stjórnarliða í ýmsum greinum til þess að gera betur en menn telja sér sjálfsagt þröngur stakkur skorinn í þessum efnum og ég viðurkenni að það verður ekki gert allt fyrir alla, ekki í þessum efnum frekar en öðrum. Þó verð ég að segja það alveg eins og er að ég mundi una mikið skár við margt af því sem hér er á ferðinni ef hæstv. ríkisstjórn og stjórnarliðar hefðu sýnt a.m.k. einhvern umtalsverðan lit á því að afla þá ríkissjóði tekna á móti þeim verkefnum og þeim halla sem verið er að kljást við þessi árin. Þegar upp er staðið finnst mér það mesti aumingjadómurinn í þessum efnum öllum. Það á svo sem ekki bara við um þá ríkisstjórn sem nú situr, langmesti aumingjadómurinn og mesta pólitíska hugleysið sem viðgengst á Íslandi í dag er aumingjadómurinn gagnvart því að manna sig upp í að afla tekna til að standa undir þeim útgjöldum sem menn í reynd viðurkenna að þeir telja að verði að vera vegna þess að þrátt fyrir tal um niðurskurð og niðurskurð og sparnað og sparnað, þá loka menn ár eftir ár eftir ár eftir ár fjárlagafrv. með tilteknum útgjöldum, með tilteknum rekstri í velferðarþjónustunni og þá verða menn að manna sig upp í það að gera það sem því fylgir, að afla tekna til þess að endar nái saman. Það, hæstv. forseti, tel ég lakast af öllu í þessu sambandi hversu skammt mönnum miðar og í raun og veru ekki neitt í þeim efnum og ef eitthvað er jafnvel heldur aftur á bak í tíð hæstv. núv. ríkisstjórnar.