Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 02:34:17 (2715)


[02:34]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þótt nú sé liðið á nótt og ég tali fyrir alveg sárafáum eyrum, þá get ég ekki látið hjá líða að segja nokkur orð um þætti sem ekki hefur verið komið inn á í kvöld nema að litlu leyti en eru mjög mikils virði. Þessir þættir varða kjaramál fatlaðra og aldraðra en hlutur þeirra í fjárlagafrv. er ótrúlega skarður. Í fyrsta lagi er áætlað að aftengja, eins og það heitir í frv., sjálfvirka hækkun bótagreiðslna frá ófyrirséðum launahækkunum og miða þess í stað við forsendur fjárlaga hverju sinni eða verðlagsforsendur í þjóðhagsáætlun, eins og stendur á öðrum stað fjárlagafrv. Þessi ákvæði valda mér nokkrum ugg vegna þess að lífeyristekjur aldraðra og fatlaðra sem og atvinnuleysisbætur eru svo lágar að ekki er á bætandi. Fyrirséð er að launahækkanir verða á næsta ári því samningar eru lausir alls staðar. Hvað af þeim launahækkunum munu vera álitnar fyrirséðar hækkanir og hvað ófyrirséðar? Þarna á greinilega að skerða hlut bótaþega, það liggur ljóst fyrir.
    Í annan stað á að afnema eingreiðslur til lífeyrisþega og atvinnuleysisbótaþega. Ég veit að hér er um að ræða allmikið fé, 600 millj. til lífeyrisþega og 430 til atvinnuleysisbótaþega. En ég veit líka að þó að þessar eingreiðslur séu lágar fyrir hvern þega fyrir sig þá eru þær tilhlökkunarefni bótaþegana og þeir treysta á þær tvisvar á ári þegar þær eru greiddar. Raunar er þessi meðferð á greiðslum til fatlaðra svo lágkúruleg að undrum sætir ef Alþingi Íslendinga lætur því ómótmælt. Á sama tíma og hæstv. ríkisstjórn er tilbúin til að lána peningafólki 200.000 kr. yfir áramótin til að kaupa hlutabréf svo að umrætt peningafólk geti fengið skattafslátt af fjármunum sínum á næsta ári, á sama ári eru eingreiðslurnar teknar af bótaþegum. Gæti ekki hv. fjárln. eða þær nefndir sem fjalla um fjárlögin að öðru leyti athugað hvort ekki er hægt að endurskoða þessar tillögur um eingreiðslurnar. Það að taka desemberuppbót af fólki er reglulega ljótt. Það er kannski ekki algengt að segja svona í ræðustól en þetta er ljótt. ( Gripið fram í: Það er ljótt að taka peninga af fólki.) Það er ljótt að taka peninga af þeim sem eiginlega ekkert eiga, skerða fyrst og fremst hjá þeim. Ég get ekki látið hjá líða að segja það að ég er nýbúin að standa fyrir framan hóp af atvinnulausu fólki og segja: Þið fáið ekki desemberuppbót. Það er ekki gaman að gera það en það er kannski gaman að sitja í einhverri nefnd uppi á fjórðu hæð í einhverju húsi og ákveða það.
    Enn eitt veldur undrun og nokkrum efa við lestur fjárlagafrv. Það virðist svo að við tilkomu húsaleigubóta eigi að skera niður 200 millj. í heimildabótum sem svo eru nefndar. Bótaþegar munu því verða einu þegnar þjóðfélagsins sem verða fyrir tekjurýrnun á móti þeirri kjarabót sem húsaleigubæturnar eiga að vera. Margir álíta að vísu að húsaleigubæturnar muni illa skila sér en ég vil benda á þessa þversögn sem kemur bótaþegum í opna skjöldu og ansi hart að alls staðar skuli vera skorið niður hjá einmitt þeim sem síst mega við því.
    Það sker í augun að ætlunin er að skerða Framkvæmdasjóð fatlaðra. Hann er áætlaður vera 330 millj. og til hans rennur það fé sem innheimtist í erfðafjárskatti en að honum er mikið sneitt. Fyrst er það til að taka að 25% eiga að ganga til viðhalds og síðan 40% til rekstrar, þjónustu og breytinga, m.a. vegna þess að verið er að leggja Kópavogshælið niður. Eftir standa 35% til framkvæmda.
    Húsakostur fyrir fatlaða úti á landsbyggðinni mun í allgóðu formi eftir því sem mér er tjáð, en á Reykjavíkursvæðinu ríkir mikil neyð og ég vona að þessi 35% bæti að nokkru úr en 35% eru aðeins 115 millj. og það er vafamál að allar þær milljónir komist á Reykjavíkursvæðið. E.t.v. er hæstv. ríkisstjórn að gera því skóna að meira fé muni berast í sjóðinn en gefið er upp. Fyrr í dag hefur a.m.k. verið á það bent að líkur eru á því að erfðafjárskattur verði í ár 60 millj. kr. hærri en gert er ráð fyrir í fjárlögum árið 1994, þ.e. 380 millj., og líka mun hærri en gert er ráð fyrir í fjárlögum fyrir 1995 svo kannski kemur þar eitthvert fé til viðbótar.
    Framkvæmdasjóður aldraðra verður samkvæmt frv. 480 millj. kr. Þar af á að taka 175 millj. til rekstrar eða 36,5% af sjóðnum. Eftir standa 305 millj. Vistheimilamál aldraðra úti á landi eru að því er talið er í allgóðu lagi en öðru máli er gegnir á Reykjavíkursvæðinu. Þar ríkir mikið neyð þó að mikið hafi að vísu verið gert. Ég vil því hvetja til þess að hæstv. ríkisstjórn forðist að leita í sjóðinn eftir rekstrarfé og að hann sé notaður til framkvæmda þar sem mest þarf á að halda, þ.e. á Reykjavíkursvæðinu. Á það hefur verið bent í dag að í slíka framkvæmdasjóði er sífellt verið að leita og taka fé úr þeim til rekstrar og það eykst ár frá ári það sem notað er á þennan átt. Þetta er óheillaþróun.
    Í dag hefur verið allmikið talað um hvort eigi að leggja niður tannlæknadeild háskólans. Ég veit ekki hvort hv. Alþingi gerir sér grein fyrir því að sú niðurlögn mundi einnig varða atvinnulausa og aðra þá sem eru mjög tekjulágir í landinu. Því er nefnilega þannig varið að í tannlæknadeild er hægt að fá tannviðgerðir fyrir lítið eða ekki neitt enda eru það nemar sem eru að æfa sig við tannlækningarnar. Þetta er því eina leiðin fyrir fátæka til að fá tannviðgerðir og má telja til sameiginlegra tekna þegnanna að fá þessa þjónustu. Það eru þar af leiðandi meiri tekjur af tannlæknadeildinni en í ýmsum öðrum deildum háskólans. Þetta gleymist enda man enginn eftir þessu fólki sem minnst fé fær og minnst fé á. Kannski heldur fólk að það geti elt þetta til útlanda.
    Ég vil að lokum taka undir tvær tillögur sem komið hafa fram í dag. Annað er sú tillaga sem hv. síðasti ræðumaður mælti fyrir. Það var tillaga til breytinga á fjárframlögum til Heyrnleysingjaskólans úr 12,5 millj. í 16,5 millj. Ég tel að þetta sé réttlætis- og nauðsynjamál og mikil þröngsýni ef þessi tillaga verður ekki samþykkt.
    Ég vil einnig taka sérstaklega undir tillögu hv. þm. Ragnars Arnalds um hækkun á dreifbýlisstyrk. Ég veit það af eigin raun af störfum mínum úti í samfélaginu hversu mikils virði þessi dreifbýlisstyrkur er, ekki bara fyrir fjölskyldur úti á landi sem þurfa að senda börnin sín eða unglinga hingað heldur líka fyrir einstök ungmenni sem eru að berjast áfram í námi á eigin spýtur og eiga heima úti á landi þar sem erfitt er að ná til nokkurs náms en sækja þar af leiðandi um langan veg í skóla. Þetta unga fólk sem er mjög virðingarvert má ekki missa þennan styrk.