3. umr. fjárlaga

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 10:40:32 (2736)

[10:40]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það gerist ár eftir ár að samkvæmt þingsköpum á að hefja hér 3. umr. um fjárlög. Eins og segir í 25. gr. þingskapalaganna á efh.- og viðskn. að gera grein fyrir áhrifum skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs fyrir 3. umr. Nú hef ég séð að það liggja tvö skattalagafrumvörp fyrir hv. Alþingi. 1. umr. um annað þeirra er lokið en hitt skattalagafrv. var lagt fram í gær og 1. umr. um það á að fara fram í dag. Síðan er algerlega eftir að fjalla um það í efh.- og viðskn. og skila áliti til fjárln. Það er því alveg með eindæmum hvernig þessi vinnubrögð eru hér ár eftir ár og ég get tekið undir það með hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni að ég held að það hafi aldrei verið verra en nú, þar sem það er ekki einu sinni byrjuð umræðan um skattalagafrumvörpin þegar 3. umr. um fjárlög á að fara fram. Ég lýsi yfir því að mér finnst að það hafi aldrei verið staðið jafnilla að málum og er það svo sem eftir öðru í ríkisstjórnartíð þessara flokka sem nú fara með stjórn landsins.