Lífræn landbúnaðarframleiðsla

60. fundur
Föstudaginn 16. desember 1994, kl. 13:08:24 (2818)


[13:08]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er einmitt vandinn að samkeppnin hefur ekki tryggt að kostnaður sé í lágmarki. Það hefur sannast átakanlega í halarófuhagræðingunni sem varð í eftirliti með sjávarafurðum því þar urðu fyrirtækin allt of mörg sem fóru af stað í þetta eftirlit og það hefur vitanlega orðið til þess að kostnaðurinn er margfaldur. Það er hver eftirlitsmaðurinn að keyra á eftir öðrum í halarófu í kringum landið til þess að fylgjast með á sömu stöðunum. Þetta hefur að vísu aðeins haft tilhneigingu til að lagast núna í seinni tíð en er þó þannig enn þá að það eru margar skoðunarstofur með starfsemi í sömu fiskibæjunum í kringum landið. Það tryggir vitanlega ekki lágmarkskostnað að þannig sé staðið að þessum málum. Ég er ekki að halda því fram að það eigi að snúa til baka út úr þessu, það er mjög erfitt að gera það, en það er a.m.k. ástæða til að velta því fyrir sér hvort hægt er að koma þessum málum þannig fyrir í eftirliti með landbúnaðarframleiðslunni að það spretti ekki upp allt of margir aðilar sem verði veikburða og geti illa sinnt sínu hlutverki en þurfi á að halda verulega háum gjaldskrám til að geta haldið starfseminni uppi. Það er nefnilega ekki alltaf þannig að samkeppnin tryggi lægsta verð, hæstv. ráðherra.