Brunatryggingar

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 12:40:48 (2851)


[12:40]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér hefur verið gerð grein fyrir þeim fyrirvara sem nokkrir hv. þm. hafa við þetta frv. Ég vil koma með eina athugasemd sem mér finnst ekki hafa komið nógu skýrt fram í umræðunum. Það er í 2. gr. frv. en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Hafi ákvörðun verið tekin um að veita undanþágu frá byggingarskyldu og telji vátryggjandi brunabótamat húseignar greinilega hærra en markaðsverð húseignar þá er vátryggjanda heimilt að miða bótafjárhæð við markaðsverð viðkomandi húseignar.``
    Þegar við erum að tala um markaðsverð viðkomandi húseignar þá hlýtur það að vera mjög misjafnt eftir því hvar á landinu húseignin er staðsett. Markaðsverð húseignar er mjög mismunandi við brunabótamat. Er þá meiningin með þessu ákvæði að ef vátryggjandi metur það svo að markaðsverð húseignar sé ekki nema helmingur af brunabótamati þá skuli ekki greiða honum nema helminginn af brunabótamatinu bara vegna þess að hann ætli sér að byggja húsið upp á einhverjum öðrum stað? Er þá verið að hegna mönnum fyrir það að þeir hafi fyrir einhverjum árum eða áratugum síðan byggt hús á viðkomandi stað en sjá síðan þegar það kemur upp á að hús þeirra brennur eða skemmist af einhverjum ástæðum að ekki sé ástæða til þess miðað við aðstæðurnar á þeim tíma að byggja húsið upp á sama stað og vill heldur byggja það á öðrum? Það kostar það sama að byggja hús hvort sem byggt er á Ísafirði, Neskaupstað, Reykjavík, Reykjanesi eða hvar sem er. En markaðsverð húseignar getur verið allt annað og á þá ekki að greiða húseigandanum nema markaðsverð húseignar t.d. á Neskaupstað, Reyðarfirði eða Þórshöfn ef hann ætlar að byggja einhvers staðar annars staðar á landinu þar sem byggingarkostnaðurinn hlýtur að vera nokkurn veginn svipaður?
    Þetta vildi ég að kæmi fram því að ég tel mjög athugavert að greiða atkvæði með 2. gr. þar sem markaðsverð húseignar er tiltekið til að miða bótafjárhæð við.
    Það segir einnig á bls. 2 í nál., rétt fyrir ofan fyrstu greinarskil:
    ,,Þá bendir nefndin á að regla 2. gr. frv. er í samræmi við meginreglur vátryggingarsamningalaga, nr. 20/1954, sem fela í sér að vátryggður fái raunvirði hlutar . . .
``

    Hvernig ætlum við að meta raunvirði hlutar? Er raunvirði hlutar markaðsverð, t.d. á landsbyggðinni? Er það raunvirði hlutanna? Ég held að það sé ekki alltaf raunvirði hlutanna. Og hvernig ætla menn að meta hvað sé raunvirði þessara hluta sem verið er að bæta? Ég vil fá skýringar á þessu, hv. formaður heilbr.- og trn.