Brunatryggingar

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 12:47:21 (2853)


[12:47]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Hæstv. forseti. Allar þær spurningar sem hér hafa komið fram í máli hv. þm. Kristínar Einarsdóttur og í máli hv. 6. þm. Vestf. komu fram í hugum hv. nefndarmanna heilbr.- og trn. við umfjöllun málsins. Við lögðum mikla vinnu í það að skoða þetta ákvæði sérstaklega, þessa síðustu málsgrein 2. gr., til þess að reyna að komast til botns í svörum við þeim spurningum sem vöknuðu í hugum okkar og eins og skiljanlega hafa vaknað í huga hv. þm. við umræðu um málið. Þegar málið hafði allt verið unnið héldum við sérstakan fund í hv. heilbr.- og trn. til þess að fjalla einvörðungu um síðustu málsgrein 2. gr. þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hafi ákvörðun verið tekin um að veita undanþágu frá byggingarskyldu og telji vátryggjandi brunabótamat húseignar greinilega hærra en markaðsverð húseignar þá er vátryggjanda heimilt að miða bótafjárhæð við markaðsverð viðkomandi húseignar.``
    Í fyrsta lagi eins og kom fram í máli mínu er ég mælti fyrir nál. þá er hér um undantekningarákvæði að ræða. Við spurðum tryggingafélögin um það hvað þessi tilfelli væru mörg á ári og fengum upplýsingar um að þau kynnu að vera tvö til þrjú á ári. Við fengum upplýsingar um það að grundvallarregla í tryggingarmálum er sú að trygging eigi að bæta sannanlegt tjón. Það er ekki markmið og tilgangurinn með tryggingastarfsemi að einn eða neinn eigi að hagnast, hvorki tryggingafélagið né tryggingatakinn, af tjóni ef upp kemur. Um það eru allir sammála. Þess vegna er jafnan leitast við að tjónþoli fái greitt það tjón sem hann sannanlega hefur orðið fyrir.
    Þetta ákvæði er felst í síðustu setningu 2. gr. byggist á þessum grundvelli m.a. En til þess að tryggja enn betur rétt tryggingartakans varð niðurstaðan í starfi hv. heilbr.- og trn. sú, að loknum þeim fundi sem ég vitnaði til áðan, að bæta í þá brtt. sem hér liggur fyrir ákvæðinu um gerðardóminn til þess að taka af öll tvímæli um að hér sérstaklega væri það gerðardómur sem gæti fengið málið til úrskurðar sem ég tel afar mikilvægt.
    Í sambandi við spurningu hv. þm. Kristínar Einarsdóttur varðandi iðgjaldið af brunabótamatinu þá er réttur tryggingartakans sá að biðja um endurmat á brunabótamatinu einu sinni á ári. Tryggingartakinn getur jafnan óskað eftir því að brunabótamatið sé endurskoðað og það sé í samræmi við raunvirði eignarinnar. Þar er því um rétt tryggingartakans að ræða þannig að hann greiðir iðgjald er nemur raunvirði eignarinnar. En ég vil leggja áherslu á að það sem við erum að ræða eru fyrst og fremst undantekningartilfelli þegar um það er að ræða að tjónþoli byggir ekki upp sitt hús á sama stað. Í langflestum tilfellum þegar um bruna er að ræða er hús endurbyggt á sínum stað og þá er tjón borgað að fullu er nemur þeim kostnaði að byggja húsið upp þannig að allir sitja við sama borð. Þarna er einvörðungu um undantekningarákvæði að ræða. Þegar ekki er um það að ræða að húsið verði byggt upp á sama stað þá verður tjónið metið eins og það er sannarlega samkvæmt raunvirði og það er grundvöllur tryggingastarfseminnar.
    Ég vona að þetta hafi svarað spurningunum. Ég vil aftur ítreka það að þessar spurningar komu allar upp í huga okkar og þess vegna vildum við leggja sérstaka vinnu í að skoða þetta nákvæmlega. Það var sameiginlegt mat okkar allra hv. nefndarmanna í hv. heilbr.- og trn. að hér væri eðlilega að verki staðið eftir að við höfðum skoðað málið ofan í kjölinn.