Stjórnarskipunarlög

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 16:21:17 (2895)



[16:21]
     Flm. (Geir H. Haarde) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil nýta mér andsvarsréttinn hér vegna þess að hv. síðasti ræðumaður nefndi nafn mitt í máli sínu, í tilefni af stuttu fréttaviðtali sem var í Morgunblaðinu í gær. Ég held að það sé alveg ástæðulaust að upp komi einhver misskilningur um þetta atriði. Ég held að allir sem hlýddu á mál mitt áðan geri sér ljóst hvert efni þessarar greinar er, 2. mgr. 12. gr. frv. Ég held að það sé enginn misskilningur milli okkar hv. síðasta ræðumanns um það efni, enda held ég að þau dæmi sem hann tók um annars vegar húsfélög og hins vegar Lögmannafélagið séu því til staðfestingar. Ég kann hins vegar ekki skýringar á því af hverju fyrirvarinn eða undantekningin réttara sagt féll brott í þessu viðtali, en auðvitað er það þannig að í frv. er gert ráð fyrir því að engan megi skylda til aðildar að félögum, þó með þeirri undantekningu sem 2. málsl. 2. mgr. gerir ráð fyrir. Þannig að um þetta þarf ekkert að deila eða búa til neinn misskilning út af.
    Ég vil síðan taka undir það sem hv. ræðumaður sagði um nauðsyn þess að málið fái kynningu í þjóðfélaginu. Það var einmitt það sem fyrir okkur vakti, okkur báðum og öðrum flutningsmönnum, með því að reyna að koma þessu máli inn í þingið fyrir jól og til nefndar. Það var einmitt að skapa svigrúm fyrir slíka kynningu í þjóðfélaginu þannig að allir sem láta sig þessi mál varða hafi svigrúm í einhverjar vikur til þess að fjalla um málið áður en það kemur hér til endanlegrar meðferðar í þinginu.