Stjórnarskipunarlög

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 16:22:51 (2896)



[16:22]
     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að ég var ekki á nokkurn hátt að áfellast hv. þm. Geir Haarde fyrir það viðtal sem hér er um að ræða. Það væri miklu frekar að ég gæti áfellst fréttaritarann sem sló þessu máli upp í blaðinu fyrir að láta sér sjást yfir það að tillgr. er miklu lengri en þetta og það er ekki um það að ræða að það sé verið að banna skylduaðild félaga, heldur er þvert á móti gert ráð fyrir því í þessari stjórnarskrárgrein, fyrirhuguðu, að það megi kveða á um skylduaðild í félögum með nánar tilgreindum skilyrðum eins og þar kemur fram. Þannig að það er fyrst og fremst framsetningin í blaðinu sem var ekki alveg nógu nákvæm. Ég dreg þetta fram núna í umræðunni fyrst og fremst vegna þess að ég hef orðið var við það að þessi litli uppsláttur í blaðinu hefur valdið töluverðum misskilningi. Menn reka upp stór augu og segja: Getur það verið að þetta sé svona, að nú sé bara skylduaðild félaga alfarið bönnuð? En það er ekki og þess vegna hef ég rætt þetta hér, að ég vil reyna að tryggja það að ekki verði um þetta einhver verulegur misskilningur.