Aðgerðir til að sporna við ofbeldi í Reykjavík

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 17:42:23 (2960)


[17:42]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. fyrir að taka þetta mál upp en það kom fram í máli hæstv. dómsmrh. að alvarlegu ofbeldi, þjófnuðum og líkamsmeiðingum, hefði mjög fjölgað í miðborg Reykjavíkur að undanförnu. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar hefur þessi fjölgun orðið hlutfallslega langmest hjá aldurshópnum 19--24 ára. Það er auðvitað áhyggjuefni en það sem er kannski aðaláhyggjuefni lögreglunnar í þessu sambandi er það að alvarlegum líkamsmeiðingum hefur á sl. tveimur árum fjölgað allverulega. Og aldurinn á því unga fólki sem er að brjóta af sér er sífellt að færast neðar. Á ári hverju eru handteknir um þúsund einstaklingar fyrir ölvun, minni háttar skemmdarverk, slagsmál og ýmiss konar líkamsmeiðingar. Á undanförnum árum hefur þetta verið að gerast með þeim hætti að aldurinn er kominn niður í 16--24 ár. Og þá spyrja menn sig: Hvaða ástæður liggja þarna að baki?
    Og það er eins og hæstv. dómsmrh. sagði að þær ástæður hafa ekki verið fullkomlega rannsakaðar. En menn spyrja sig þeirra spurninga og þegar menn velta fyrir sér hvaða aðgerða þarf að grípa til þá þurfa menn að gera sér grein fyrir hver sé rót vandans.
    Í mínum huga er það þetta ástand sem núna er í þjóðfélaginu. Það eru heilu kynslóðirnar að koma og eftir kannski áratug þá verða til kynslóðir sem aldrei hafa kynnst því hvað atvinna er, kunna í raun og veru alls ekki að vinna. Þetta er ástand sem er algjörlega þekkt í löndunum í kringum okkur, hjá þeim þjóðum þar sem atvinnuleysið hefur haldið innreið sína. Og atvinnuleysið er kannski það böl sem menn berjast einna helst við í þessu sambandi. Og því þarf ríkisstjórnin að huga að því hvaða ástand hún er að skapa hjá þessum kynslóðum með þeirri stjórnarstefnu sem hún rekur í efnahags- og atvinnumálum.