Aðgerðir til að sporna við ofbeldi í Reykjavík

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 17:44:50 (2961)


[17:44]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur fyrir að taka þetta mál fyrir. Við ræddum það hérna fyrir nokkru í fyrirspurnatíma og ég held að það sé full þörf á því að ræða það hér enn frekar vegna þess að það er tvennt sem hefur færst í vöxt. Annars vegar er um að ræða það sem kalla má hrottlegt götuofbeldi sem við höfum ekki kynnst í verulegum mæli í þessu landi áður. Hins vegar er það vaxandi ofbeldi sem fréttist af á heimilum. Þetta tvennt er veruleiki sem við þekkjum núna í seinni tíð í landinu og það er rétt hjá hæstv. dómsmrh. að rannsóknir á ástæðum þessa hafa ekki farið fram. Þær þurfa að fara fram og ég hvet hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því að rannsóknir fari fram á því af hverju ofbeldi hefur færst í vöxt.
    Er það vegna þess hvernig fíkniefnaeftirliti hefur verið fylgt eftir? Er það vegna þess að menn hafi ekki rekið markvissa og skynsamlega stefnu af hálfu hins opinbera í áfengismálum? Er það vegna þess að menn hafa skorið niður þjónustu velferðarkerfisins? Er það vegna þess að menn hafa sparað of mikið í löggæslukerfinu? Er það vegna þess að við stöndum núna frammi fyrir atvinnuleysi og fátækt í stórum stíl? Er það vegna þess að ofbeldismyndir af ýmsu tagi hafa vaxandi áhrif á unga fólkið í okkar landi?
    Þetta er nauðsynlegt að skoða kerfisbundið og skipulega. Og ég hvet hæstv. ráðherra til að taka á því máli og segi um leið: Að því er Reykjavík varðar þá held ég að það skipti langmestu máli að það verði efnt til samstarfs við íbúana. Það hefur tekist mjög vel í Breiðholtshverfi og ástæðan fyrir hinum jákvæðu tölum sem hæstv. ráðherra las upp úr Breiðholtshverfi eru ekki aðeins þær að þar hefur verið komið upp hverfisstöð heldur líka þær að hverfislögreglan í Breiðholti hefur efnt til samstarfs við íbúana. Og það held ég að sé aðalatriðið og besta leiðin til að draga úr þessari vá sem hér blasir annars við.