Aðgerðir til að sporna við ofbeldi í Reykjavík

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 17:46:59 (2962)


[17:46]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég tel að hið vaxandi ofbeldi sem er til umræðu í þinginu núna eigi sér rætur í breyttum þjóðfélagsháttum. Það eru ekki mörg ár síðan við innleiddum bjór sem löglegan söluvarning á hverju götuhorni í Reykjavík og sífellt eru fleiri ölstofur opnaðar. Og mann furðar þegar maður ekur eða gengur um miðbæinn að sjá hversu geysilega margar ölstofur eru opnar.
    Við tilkomu ölsins átti ýmislegt að batna var okkur boðað þegar bjórinn var innleiddur en því miður hefur það ekki gengið eftir. Ég vildi gjarnan að svo hefði verið. Það hefur farið þannig að drykkjan hefur aukist meðal ungmenna enda hefur ofbeldi líka aukist meðal ungmenna.
    En þetta er alls ekki eingöngu ölinu að kenna, síður en svo, mér dettur ekki í hug að segja það. Það er líka því að kenna að ofbeldismyndir flæða yfir landið. Börnin opna ekki skjáina, þá á ég bæði við eigin skjái og líka skjáinn á sjónvarpinu, án þess að sjá ofbeldismyndir daglangt nærri því. Fyrirmyndin sem þau sjá þarna hlýtur að hafa ótrúlega áhrif á sálarlíf þeirra enda eru dæmi um það, ekki síst erlendis frá, allhrikaleg.
    En í þriðja lagi er það vansæld og áhyggjur fólksins sem veldur ofbeldinu. Það sagði mér gamall skólamaður fyrir mörgum árum þegar allt lék í lyndi hjá okkur og atvinna var á hverju strái og yfirvinna og hvað eina og fólki leið fjárhagslega nokkuð vel og bjó við öryggi að börnin í skólunum væru betri hvert við annað núna en á tímum kreppunnar. (Forseti hringir.) Forseti, ég er alveg að ljúka máli mínu. Og hann taldi að það væri vegna þess að þau hefðu haft betra öryggi og meira að bíta og brenna. Þannig er það að allt hjálpast þetta að, vitlausar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar og örbirgð.