Aðgerðir til að sporna við ofbeldi í Reykjavík

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 17:56:31 (2966)


[17:56]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir hans svör og þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Ég las það út úr ræðu hæstv. dómsmrh. að ýmsu er ábótavant varðandi upplýsingar okkar um glæpi sem framdir eru á Íslandi og ofbeldi. Ég held að það sé fyrsta skrefið að byrja á því að greina vandann áður en menn snúa sér að því að reyna að leysa hann og að skoða það hver er rótin.
    En ég get tekið undir það sem hér hefur komið fram að hér eru bæði á ferð þjóðfélagsbreytingar sem eru í takt við það sem gerst hefur meðal annarra þjóða en jafnframt höfum við á allra síðustu árum orðið vör við ýmis þau einkenni sem annars staðar eru talin til orsakavalda aukins ofbeldis eins og atvinnuleysi, vaxandi fátækt, félagsleg vandamál, fíkniefnaneysla og ekki síst breytingar á fjölskyldumynstri. Öllum þessum þáttum þarf að gefa gaum og því hvernig við búum að börnum og unglingum. Við þurfum að snúa okkur að því að vinna gegn þessum vanda til þess einmitt að ofbeldi haldi ekki áfram að aukast.
    Ég get tekið undir það að það þarf annars vegar að bæta löggæslu og aðstöðu lögreglunnar til þess að taka á þessum málum en hins vegar líka að auka samstarf við íbúa og skóla ekki síst enda hefur það komið fram og kom fram í samtölum mínum við lögregluna að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til, eins og ákveðin herferð sem farið var með í skólana skilaði árangri. Og bætt löggæsla í miðborg Reykjavíkur hefur skilað árangri. Við sjáum dæmi þess að þegar gripið er til ráða þá skila þau árangri.
    Virðulegi forseti, við þurfum að auka rannsóknir á þessum efnum og við þurfum að grípa til aðgerða.