Aðgerðir til að sporna við ofbeldi í Reykjavík

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 17:58:44 (2967)


[17:58]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég get tekið undir það eins og kom fram í upphafsræðu minni að það er þörf á frekari rannsóknum en ég vil minna á að það starf er nú að færast í vöxt og ekki síst innan lögreglunnar í Reykjavík. Það er líka mikilvægt að í umræðum eins og þessum að þá notfæri menn sér þær tölulegu upplýsingar sem þó eru fyrir og eins og hv. fyrirspyrjandi gerði mjög skilmerkilega hér í sinni ræðu.
    Það kom hins vegar fram í ræðu hv. 11. þm. Reykv. að menn vilja gjarnan alhæfa með því að slá fram fullyrðingunni: ofbeldisbrotum er að fjölga. Og það er vissulega rétt að líkamsmeiðingum hefur fjölgað. En hitt er staðreynd að þessum alvarlegu ofbeldisbrotum hefur sem betur fer fækkað og í umræðunni verðum við að taka mið af þeim tölulegu upplýsingum sem liggja fyrir um þetta og horfa á þær staðreyndir. Vissulega ber það vott um að starf lögreglunnar hefur skilað verulegum árangri á þessum sviðum. Og við höfum verið að þróa margs konar aðra lögreglustarfsemi sem miðar að því að koma í veg fyrir afbrot.
    Breytingar í þjóðfélaginu geta líka haft áhrif. Það er ugglaust rétt að versnandi efnahagur getur verið ein af orsökunum fyrir afbrotum. En ég vara menn við því að draga þær ályktanir að fátækt fólk sé ólöghlýðnara en annað fólk eða hafi ekki sama siðferðilega styrk til þess að fylgja lögum og reglum. Þvert á móti held ég að því sé öfugt farið.
    Að öðru leyti get ég mjög tekið undir sumt af því sem fram kom í máli hv. 14. þm. Reykv. að það skiptir mjög miklu máli hvernig við stöndum að uppeldi, ekki síst á heimilunum og auðvitað í skólunum líka. En það uppeldishlutverk sem fram fer á heimilunum ræður úrslitum um þróun þessara mála.