Lánsfjárlög 1995

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 22:48:49 (2973)


[22:48]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er náttúrlega afar sérkennilegt að hæstv. fjmrh. skuli æsast svona óskaplega upp yfir því að það er sagður kostur og löstur á ástandinu eins og það er í efnahagsmálum. Í þessu nál. í minni framsöguræðu gerði ég hreinskilningslega og skilmerkilega grein fyrir því hvaða teikn eru jákvæð í þjóðhagsforsendunum og hver eru neikvæð. En hæstv. fjmrh. þolir ekki að það sé farið þannig yfir málin. Um leið og það er komið að viðkvæmu blettunum og sárunum sem undirnar flaka, þ.e. hallinn á ríkissjóði, aumingjaskapurinn í ríkisfjármálunum, upplausnin á innlenda fjármagnsmarkaðnum, þá ærist hæstv. fjmrh., sakar viðmælendur sína eða andmælendur um skilningsleysi og gott ef ekki heimsku og að menn viti ekki hvað þeir eru að tala um o.s.frv. Það er alveg ljóst að Seðlabankanum hefur verið beitt til þess að halda niðri tilteknum vöxtum, hæstv. ráðherra. Reyndar er það þannig að margir af sérfræðingum Seðlabanka, Þjóðhagsstofnunar og viðskiptabankanna segja að ástandið sé ekki síst verra núna en það hefur verið um langt árabil og var m.a. á árinu 1991 vegna þess að nú er verið að reyna að fikta við skammtímamarkaðinn og eftirmarkaðinn, nú er verið að reyna að hafa áhrif þar með kaupum langt umfram getu þeirra aðila sem eru að reyna að stilla jafnvægið á þeim mörkuðum. Það ætti hæstv. fjmrh. að kynna sér. Ég hvet hann til að tala við þá menn sem eru sérfræðingar mestir í þeim viðskiptum og spyrja þá um það hversu ánægðir þeir eru með stöðu mála einmitt á þeim markaði vegna þess að þar er í raun og veru verið að reyna að þvinga eða halda niðri stigi sem er ekki raunhæft við þessar aðstæður það vita menn og um það tala menn.
    Hæstv. fjmrh. Hallinn er svo ekki bara að aukast vegna 1.200 millj. kr. í vegagerð og vegna þess að það eru froðupeningar færðir fram og til baka út og inn úr ríkissjóði í vegamálum núna sem er alveg ný speki. Það eru 350 millj. kr. færðar í hann og 275 millj. kr. teknar úr honum. Hallinn er líka að aukast vegna þess að ríkisstjórnin er að hygla sérstökum hópum, (Forseti hringir.) hæstv. forseti, ég er að ljúka, með því að létta sköttum af hátekjufólki og stóreignamönnum. Það eykur líka hallann.