Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 14:17:43 (3023)


[14:17]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ekki er nú meiri virðingin borin fyrir Agli Jónssyni en svo að þessi hv. þm. þarf að kasta að honum kögglum kaplataðs niðurbeygðum og illa leiknum eftir gærdaginn þar sem ekkert af hans rökum náðu fram. Ég er auðvitað fús til þess að fóstra Egil Jónsson og verða honum að liði ef ég má. Ég hef reynt það. Ég held að hann sé hinn mætasta maður, hv. þm. Egill Jónsson, þó að hann búi við þá sorg að vera í húsi Sjafstfl. þar sem stuttbuxnadeildin hefur yfirtekið flokkinn.
    Hv. þm. Árni Johnsen og Sturla Böðvarsson hafa rætt hér um litlu hitaveiturnar. Árni Johnsen hefur hvað eftir annað lýst því yfir á fundum með sveitarstjórnum í kjördæminu, sem þessi mál hafa varðað, að málefni hitaveitnanna yrðu leyst og leyst með þeim hætti sem gerðist í Hvalfirði og í Varmahlíð. Það hefur staðið á þessu, þessi bardagi hefur staðið í á þriðja ár að ná þessum réttindum fram. Það er allt sem liggur fyrir í þessu máli hv. þm. Það er misskilningur hjá hv. þm. að svo sé ekki því Ríkisendurskoðun hefur farið yfir málið það hefur iðnrn. einnig gert þannig að það er ljóst hverslags skuldir þetta eru og það er hreinn útúrsnúningur að halda því fram að þetta liggi ekki fyrir. Og ég vænti þess ef það er rétt sem hv. þm. Sturla Böðvarsson fullyrti að það mætti nota 6. gr. enn í þessu máli frá síðasta þingi. Ég styð auðvitað skuldbreytingu en við skulum fara yfir þetta mál og ég er tilbúinn ef hægt er að ná samstöðu við meiri hluta fjárln., hæstv. forseti, að við munum þá skoða það að draga brtt. til baka.