Verkfall sjúkraliða

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 16:59:23 (3052)


[16:59]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er hörmulegt satt best að segja til þess að vita að ein af láglaunastéttum og kvennastéttum þessa lands skuli nú hafa staðið í verkfalli í sex vikur um réttmæta leiðréttingu á sínum kjörum án þess að ríkisstjórnin hafi svo mikið sem sýnt lit til þess að leysa deiluna.
    Ég held í öðru lagi að hæstv. ríkisstjórn ætti að hafa það í huga að eftir fáeina daga verða allir kjarasamningar í landinu lausir. Er það virkilega þannig að ríkisstjórnin vilji við þær aðstæður standa í harðvítugu verkfalli við eina af láglaunastéttum landsins og kvennastéttum? Það læðist óneitanlega að manni sá grunur að ríkisstjórnin hafi ákveðið að brjóta sjúkraliða á bak aftur til að gefa það fordæmi í aðdraganda heildarkjarasamninga. En það mun ekki takast. Það er orðið ljóst, hæstv. fjmrh., að það mun ekki takast að brjóta sjúkraliða á bak aftur. Baráttuþrek þeirra er alveg óbugað og samstaðan meiri en nokkru sinni fyrr. Þess vegna held ég að hæstv. ríkisstjórn ætti að endurskoða áform sín í þessum efnum. Það er ekki nóg fyrir hæstv. heilbrrh. að blaðra um það úti í bæ að hann vilji leysa þessa deilu. Hvað segir hæstv. heilbrrh. við ríkisstjórnarborðið? Það er ekki nóg fyrir Alþfl. að ætla kaupa sér vinsældir með þeim hætti sem bæði hæstv. núv. heilbrrh. og einnig reyndar hæstv. fyrrv. heilbrrh. hafa gert, að segja að það eigi ekki að vera mikið mál að leysa þessa deilu. Það eru verkin sem sýna merkin. Ríkisstjórnin hefur fengið tilboð frá sjúkraliðum sem er á þeim nótum að í því fælist launajöfnun og sérstakar hækkanir til þeirra sem lægst hafa launin. Með því að semja á þeim nótum væri að mínu mati gefið mjög gott fordæmi gagnvart þeim kjarasamningaviðræðum sem í hönd fara. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn, hæstv. forsrh. og hæstv. heilbrrh., ef hæstv. fjmrh. er algerlega frosinn fastur í þessu máli, að láta nú verkin tala á næstu dögum og leysa þessa deilu fyrir áramót áður en allir aðrir samningar í landinu verða lausir.