Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 17:07:26 (3055)


[17:07]
     Frsm. minni hluta fjárln. (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegur forseti. Er þjóðarsáttin svokallaða að springa í höndunum á hæstv. ríkisstjórn eða hvað er um að vera? Það er von að spurt sé í kjölfar þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram á seinustu mínútum. Við hljótum að hafa miklar áhyggjur af því sem er að gerast í þjóðfélaginu á sama tíma og ríkisstjórnin er að reyna að lýsa því yfir með nýrri þjóðhagsspá og nýjum tekjuáætlunum í tengslum við fjárlagafrv. fyrir næsta ár að hagurinn sé mjög batnandi í þjóðfélagi voru og haft eftir hæstv. fjmrh. að hann hafi talað um einstæðan bata. Á sama tíma á ríkisvaldið í harðvítugum kjaradeilum eins og hér hefur komið fram og kjarasamningar eru lausir eftir örfáar vikur og er ljóst að það hlýtur að hafa afgerandi áhrif á þá þróun sem fram undan er og á það hvernig til tekst að spila úr þessum efnahagsbata sem þó virðist láta á sér kræla og við skulum vona að sé meira en einhver lítil tveggja eða þriggja mánaða haustbóla.
    Ég held að það sé ekki óeðlilegt að við veltum þessu fyrir okkur vegna þess að í tíð hæstv. ríkisstjórnar hefur atvinnuástandið verið með þeim hætti að atvinnuleysi hefur verið meira en um langt árabil, atvinnuleysið er að festast í sessi, fátækt er orðin staðreynd í þjóðfélaginu og hættan er þá sú að þjóðarsátt, möguleikarnir á því að semja um kjör við launastéttirnar í landinu séu ekki þeir sömu og áður var þegar aðaláhersla og meginmarkmið ríkisstjórnar á hverjum tíma var að halda fullri atvinnu. Lögð var áhersla á það að byggja þjóðfélagið þannig upp, treysta þannig undirstöður atvinnuveganna, að allar vinnufúsar hendur hefðu verk að vinna. Við þær kringumstæður er kannski von til þess að hægt sé að ná þjóðarsátt í kjaramálum, en við þær aðstæður sem nú ríkja og hafa ríkt um nokkur undanfarin missiri er minni, kannski lítil von á að það takist.
    Fjárln. hefur að undanförnu frá því að 2. umr. um fjárlagafrv. fór fram í hv. þingi fjallað um tekjuhlið frv., um B-hluta stofnanir, um 6. gr. og svo um ýmis þau önnur mál sem meiri hluti fjárln. og ríkisstjórnin ákvað að fresta afgreiðslu á til 3. umr. Það líka sýndi sig að breytingartillögur við 2. umr. voru ekki miklar, eitthvað 300--400 millj kr. en nú er um að ræða verulegan útgjaldaauka sem kemur fram í breytingartillögum sem fyrir liggja hjá meiri hluta fjárln. Það verður að segja það í þessari umræðu og láta það koma fram að í þinginu hafa að undanförnu verið nokkuð sérkennileg vinnubrögð. Við höfum því miður búið við það að frumvörp hafa komið seint fram, frumvörp sem tengjast lokaafgreiðslu fjárlagafrv., frumvörp sem nauðsynlegt er að fjalla um og helst hefði átt að afgreiða áður en fjárlagafrv. er endanlega frágengið sem lög frá Alþingi.
    Það var því miður einnig svo --- sem er óvenjulegra en það að tekjuhliðin hafi verið seint á ferðinni, það er nú reyndar því miður ekki nýtt í vinnubrögðum hv. Alþingis --- að gjaldahliðin var einnig óvenjuseint til umræðu og ýmsar brtt. stórar og smáar á ferðinni alveg fram á síðustu stundu í vinnu nefndarinnar. Það er bæði óvenjulegt og það er líka óþægilegt til þess að hafa heildaryfirsýn yfir útgjaldahliðina og átta sig á hvert stefnir ef þessi vinnubrögð eiga að vera marktæk og unnin af þeirri yfirsýn sem er bæði eðlilegt og nauðsynlegt að krefjast. Gagnrýni á þessi vinnubrögð kemur ekki bara frá fjárln. eða fjárlaganefndarmönnum eða minni hluta í fjárln., kannski hefur hún heyrst frá fleirum heldur en minnihlutafulltrúnum í fjárln., hún kemur einnig fram í nefndarálitum eða álitum frá efh.- og viðskn. sem send hafa verið fjárln. svo sem þingsköp gera ráð fyrir. Og það er meira að segja svo að í áliti minni hluta efh.- og viðskn. um tekjuhlið fjárlagafrv. er á það bent að það álit sé skrifað áður en sú nefnd hefur lokið umfjöllun sinni um tekjufrumvörpin, breytingar á skattalögum. Það má líka geta þess að það álit barst fjárln. ekki fyrr en fjárln. hafði í raun lokið sinni vinnu, lokið sínum fundarstörfum. Og þess var ekki krafist af hálfu minni hlutans að nefndarstarfið biði og lyki ekki fyrr en álitin væru komin fram þannig að hægt væri að ræða þau og taka fyrir í nefndinni sem eru hin eðlilegu vinnubrögð. Þetta sýnir auðvitað að það hefur verið fullur samstarfsvilji af hálfu stjórnarandstæðinga eða stjórnarandstöðunnar hér í hv. Alþingi að þoka málum áfram, koma þeim áleiðis í gegnum þingið og síður en svo hægt að ásaka okkur fulltrúa stjórnarandstöðunnar og minni hlutans í þingnefndum um það að tefja hér fyrir þingstörfum. Þetta vildi ég láta koma fram, virðulegi forseti, í upphafi máls míns um vinnubrögð í þingi og nefndum á undanförnum dögum, má kannski segja undanförnum vikum.
    Fjárlög ríkisins eru eitthvert mikilvægasta málið sem lagt er fyrir Alþingi hverju sinni og fjallað er um og þess vegna ekki óeðlilegt að það sé gagnrýnt ef ekki er nægjanlega vel að verki staðið við undirbúning og afgreiðslu þessa mikilvæga frv. og þessarar mikilvægu lagasetningar. Ég nefndi það áðan að það eru nokkur batamerki í þjóðfélaginu á seinustu vikum eða mánuðum þessa árs sem nú er senn að líða og vonandi að þau batamerki séu ávísun á áframhaldandi uppgang í þjóðfélaginu. Þó er það svo að í þeirri endurskoðun á þjóðhagsspá sem fyrir þingið hefur verið lögð af hálfu Þjóðhagsstofnunar eru margvíslegir fyrirvarar og það er undirstrikað að það er mikil óvissa í raun ríkjandi þó svo að nokkur uppsveifla hafi orðið síðustu vikurnar. Því er reyndar spáð að landsframleiðslan muni aukast nokkuð frá því sem áður hafði verið álitið og aukning sú eða hækkun sé m.a. af því að það er spáð meiri þjóðarútgjöldum. Aukning þjóðarútgjalda er nú áætluð 3,3% á næsta ári og skipta þar mestu hugmyndir eða áætlanir um aukna fjárfestingu. Það er sannarlega ekki vanþörf á því að fjárfesting aukist í landinu en það er samt spurning hvernig þessi áætlun er upp byggð og á hverju hún byggist í raun. Við vitum að fjárfestingin hefur verið í lágmarki og í fyrri áætlunum Þjóðhagsstofnunar var gert ráð fyrir því að atvinnulífið yki sína fjárfestingu um 5,5% en í nýrri spá er gert ráð fyrir að aukningin sé 7,4%. Þarna er um nokkra breytingu að ræða. En meginástæðan fyrir þessari spá um aukningu þjóðarútgjalda skýrist af hugmyndum um auknar opinberar framkvæmdir og það er sá þátturinn sem ég vil a.m.k. hafa fyrirvara við. Ég velti fyrir mér hvort það getur í raun haft svo mikil áhrif þar sem okkur sýnist fjárlagafrv. og þær brtt. sem hér liggja fyrir ekki ráðgera svo miklar fjárfestingar. Þjóðhagsstofnun spáir því að breytingin verði úr 8,6% minnkun fjárfestingar eða minni fjárfestingum hjá ríkinu í 1,8% aukningu. Auðvitað er hér nokkur munur ef þetta stenst en mér er raunar ekki alveg ljóst hvað er á bak við þessa spá. Ég vona að satt sé en mér finnst nokkuð erfitt að trúa eða átta mig á því sem þarna er fram sett.
    Ég sagði áðan að Þjóðhagsstofnun hefði vakið athygli á því að það eru óvenjumargir óvissuþættir í þessari spá. Hún byggist fyrst og fremst á því að bati sá sem nú örlar á haldi áfram á næsta ári. Hann er framreiknaður inn í þjóðhagsáætlun næsta árs og þá ber að skoða það hvernig stendur á þessum bata nú. Þjóðhagsstofnun segir t.d. að fiskafli gæti orðið minni en reiknað er með í þjóðhagsspánni því að það sem hefur verið að gerast í ár eru t.d. Smuguveiðar og loðnuveiðar. Nú vitum við hvernig loðnuveiðarnar hafa gengið seinni hluta ársins og vissulega hljótum við að vera uggandi yfir því hvað kunni að vera framundan á því sviði. Þjóðhagsstofnun bendir einnig á það að þó að verð á sjávarafurðum eða verðlag virðist um margt hagstætt núna þá hefur það hækkað mjög að undanförnu og spurningin er: Heldur sú hækkun áfram? Megum við reikna eð því að verðlag verði áfram svo hagstætt eða haldi áfram að batna á okkar sjávarafurðum? Þetta er óvissuþáttur. Síðan má nefna óvissuþáttinn sem ríkir í launamálunum og ég nefndi aðeins áðan og kom mjög ljóslega fram í umræðunum sem voru utan dagskrár næst á undan þessari umræðu.
    Að lokum bendir Þjóðhagsstofnun á að nauðsynlegt sé að stjórnvöld gæti sín mjög varðandi stjórn á opinberum fjármunum og nauðsynlegt sé að taka sig á. Afkoma hins opinbera þarf að batna og nú er ástæða til þess að spyrja hvort ekki sé rétt að standa við stóru orðin sem hæstv. ríkisstjórn og ráðherrar hennar sumir hverjir a.m.k. hafa á stundum haldið fram að þess hafi ekki verið gætt í tíð fyrri ríkisstjórna að nýta afkomubata til þess að treysta afkomu ríkissjóðs. Hvað er að gerast hér? Hver eru viðbrögð hæstv. núv. ríkisstjórnar við þeim afkomubata sem áætlað er að muni skila nærri þremur milljörðum kr. í auknar tekjur á næsta ári? Er hann þá ekki notaður til þess að draga úr hallanum? Nei, reyndar ekki. Útgjöldin eru aukin um meira en það. Útgjöldin frá því sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir aukast um 3,6 milljarða kr. þannig að hallinn hækkar um nær því milljarð kr.
    Nú er það svo að þessi útgjaldaauki er um margt skýranlegur og á sér orsakir í því hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur haldið á útgjaldamálunum að undanförnu og nauðsynlegt að horfast í augu við staðreyndir og lagafæra ýmsa þætti í rekstri ráðuneyta og opinberra stofnana. En það sýnir aðeins að það er ekki alltaf auðvelt að standa við stóru orðin og sýnist ekki að það sé gert hér eða að hæstv. ríkisstjórn takist að sýna að það sé jafnauðvelt að nýta þennan bata og þessar auknu ríkissjóðstekjur til að draga úr ríkissjóðshallanum eins og stundum hefur verið látið í veðri vaka.
    Þá ber að geta þess að við hljótum að velta fyrir okkur hvað er að gerast á lánsfjármarkaði. Er hætt við sprengingu í vöxtum á næstunni? Í greinargerð fjárlagafrv. er margsinnis talað um það og ítrekað að það séu forsendur til frekari vaxtalækkana á næstunni en atburðir seinustu vikna og reyndar allan tímann sem fjárlagafrv. hefur verið í vinnslu í hv. þingi hafa atburðirnir sýnt að það eru þvert á móti því miður ýmsar tilhneigingar og ýmis teikn á lofti um að vextirnir muni hækka. Þar má t.d. nefna að á næstunni, skömmu eftir áramótin, er gríðarstór innlausn spariskírteina, gæti líklega numið 9,5 milljörðum kr. ef vextir eru reiknaðir með, sem ekki er enn vitað hvaða áhrif hefur á vaxtaþróun í landinu og auðvitað afar hætt við að til þess að halda þessu fé innan lands þá kunni vextir að fara upp. Jafnframt má nefna útgáfu svokallaðra ECU-bréfa eða ríkisskuldabréfa með gengistryggingu og háum vöxtum sem einnig hafa fært vextina upp að undanförnu.
    Þetta hefur allt verið í umræðu í þinginu undanfarna daga og ítarlegri umræðu í tengslum við afgreiðslu lánsfjárlaga og vafalaust á eftir að verða í umræðunni áfram í tengslum við önnur efnahagsfrv. sem óafgreidd eru og þarf að afgreiða fyrir áramót og mun ég ekki eyða frekari tíma í þá umræðu við þessa fjárlagaafgreiðslu.
    Því miður hefur það verið svo líka á valdaferli þessarar hæstv. ríkisstjórnar sem nú situr að heildarskuldir hafa farið mjög vaxandi. Heildarskuldir verða á næsta ári um 56% af landsframleiðslu samanborið við 33--36% þegar þessi ríkisstjórn tók við og hreinar skuldir rúmlega 35% samanborið við 17% í upphafi þessa kjörtímabils. Þetta er uggvænleg þróun og verður að líta alvarlega til þess hvernig megi bregðast við til að ná tökum á efnahagsástandinu. Það hlýtur að verða verkefni næstu ríkisstjórnar og vonandi tekst að glæða hér þannig hagvöxt og bæta ástand í þjóðfélaginu að það megi berjast við að lagfæra og laga og jafna ríkissjóðshallann á einhverju árabili. Ég geri mér ekki vonir um að það takist í einni sjónhendingu að standa við þau markmið sem núv. ríkisstjórn hæstv. setti sér í upphafi valdatímabilsins að komast út úr fjárlagahallanum og afgreiða ríkisfjárlögin hallalaust. En við sjáum nú hverjar efndir eru í því efni.
    Hv. þm. sem skrifa undir þetta nál. minni hluta fjárln. munu nokkuð skipta með sér að mæla fyrir einstökum köflum í nál. og ég mun því fara nokkuð hratt yfir sögu hvað varðar einstaka kafla aðra en þann sem fjallar um almannatryggingar og heilbrigðisstofnanir sem ég ætla að gera nokkuð ítarleg skil.
    Í nál. minni hlutans við 2. umr. var það nefnt að ólíklegt væri að sá sparnaður sem ráðgerður er í frv. á sviði heilbrigðis- og tryggingamála muni nást á næsta ári. Við höfðum fyrir okkur umræður og álit minni hluta og umræður í þinginu fyrir ári síðan þegar ráðgerðar voru og boðaðar svipaðar sparnaðaraðgerðir eins og nú á að grípa til og allir vita um árangurinn af þeirri sparnaðarherferð. Hún rann nánast algerlega út í sandinn svo sem afgreiðsla fjáraukalaga fyrir árið í ár ber með sér. Nú virðist svo sem stjórnarmeirihlutinn hafi áttað sig á því að þær sparnaðartillögur sem fram eru settar í fjárlagafrv. séu meira og minna óraunhæfar og lagðar eru til ýmsar lagfæringar og breytingar í brtt. meiri hlutans sem nú liggja fyrir til umræðu.
    Ég sagði áðan að ýmislegt af því er nauðsynlegt að lagfæra og aðeins viðurkenning á þeim rekstrarvanda sem stofnanir eiga við að glíma. Annað er þess eðlis að það hefur komið í ljós í vinnu fjárln. á frv. að hugmyndirnar sem settar voru fram um ýmiss konar sparnaðaraðgerðir hafa verið óraunhæfar.
    Ég ætla fyrst að nefna breytingu sem kannski er ekki hægt að telja til sparnaðaraðgerða og tengist breytingum á húsaleigubótum. Gert er ráð fyrir að lækka húsaleigubætur um 80 millj. kr. og kom það skýrt fram í máli hv. framsögumanns meiri hlutans í ræðu hans fyrr í dag hverjar ástæður eru taldar fyrir því að slíkt sé mögulegt. Þ.e. að það hafa ekki öll sveitarfélög samþykkt eða áætlað að taka upp greiðslu húsaleigubóta. En þá er hins vegar ekki gert ráð fyrir að það hafi nein áhrif á fjárframlög til Byggingarsjóðs verkamanna sem hefði mátt reikna með af því að í greinargerð fjárlagafrv. er það rækilega rakið að það sé möguleiki að draga úr fjárveitingu til Byggingarsjóðs verkamanna, þar muni ekki verða sama eftirspurn eftir húsnæði vegna ákvarðana um greiðslu húsaleigubóta. Nú þegar húsaleigubæturnar eru lækkaðar um 80 millj. kr. hefði mátt ímynda sér að eitthvað af því gengi aftur til Byggingarsjóðs verkamanna en svo er ekki samkvæmt þessum tillögum sem hér liggja fyrir. Hins vegar er gert ráð fyrir að lagfæra nokkuð þann niðurskurð sem áætlaður var hjá lífeyristryggingum en þar átti að lækka svokallaðar heimildarbætur til þeirra skjólstæðinga Tryggingastofnunar sem verst eru settir og hafa þegið stuðning af þessum fjárlagalið en hann á nú að hækka um 30 millj. kr. Eftir sem áður sýnist mér gert ráð fyrir því að niðurskurður á þessum heimildarbótum eigi að verða nær 200 millj. kr. svo að þar er enn eftir að taka til hendi og á eftir að koma í ljós hvernig tekst að standa við þann sparnað. Og það sem verra er ég óttast að hann bitni mest og verst á þeim sem síst skyldi.
    Í sjúkratryggingunum var ráðgert að spara 420 millj. en nú er hins vegar lagt til að hækka þær fjárveitingar á ný um 260 millj. Þó er því miður ekki gert ráð fyrir neinni lagfæringu á 50 millj. kr. niðurskurði á útgjöldum til sjúkraþjálfunar. Við gerðum nokkra grein fyrir afstöðu okkar til þess máls við 2. umr. og ég sagði þá einnig og get endurtekið það að það er að sjálfsögðu gott ef hægt er að ná fram sparnaði og þá segi ég raunhæfum sparnaði á þessum fjárlagalið en ég óttast mjög að hann sé þess eðlis að við fáum aukin útgjöld á öðrum liðum tryggingakerfisins. Þá er ekki um raunhæfan sparnað að ræða heldur kannski það sem verra er að hann kalli á viðbótarútgjöld og hafi í för með sér þjáningar sjúklinga sem annars hefðu fengið rétta meðhöndlun hjá sjúkraþjálfurum en þurfa e.t.v í staðinn að liggja inni á sjúkrastofnunum og ekki útilokað að einhverjir þeirra þurfi jafnvel á bótum að halda frá almannatryggingakerfinu. Slíkt er ekki óþekkt t.d. hjá einstaklingum sem bíða eftir bæklunaraðgerðum og sjúkraþjálfarar meðhöndla gjarnan fólk sem á við slíka sjúkdóma að stríða.
    Þá langar mig aðeins að nefna en ekki eyða mörgum orðum í það að gert er ráð fyrir að taka upp tilvísunarkerfi vegna sérfræðilæknisþjónustu og spara með því 100 millj. kr. Hér hefur komið fram í umræðunni áður að alvarlegur ágreiningur er um málið innan stjórnarliðsins sjálfs svoleiðis að það hlýtur að vera alls óvíst hvernig tekst að spara 100 millj. kr. á þessum fjárlagalið.
    Nokkur lagfæring hefur orðið á fjárveitingum til sjúkrahúsa í brtt. við fjáraukalög fyrir árið í ár og fyrir fjárlög 1995. Þetta ber að sjálfsögðu að þakka því ég tel að hér hafi verið horft til ýmissa þátta sem nauðsynlegt var að leysa og horfast í augu við. En að hinu ber að gæta að enn eru umtalsverðar upphæðir sem standa út af og sjúkrahúsunum er gert að hagræða og spara enn meira á næsta ári en áður hefur verið lagt til og hefur þó nokkuð verið gengið á þeirra möguleika á undanförnum árum. Ég fullyrði að stjórnendur og starfsfólk allra sjúkra- og heilbrigðisstofnanir í landinu hafa lagt sig fram til hins ýtrasta til að ná fram sparnaði í rekstri. Fjárveitingar til Borgarspítala og St. Jósefsspítala á Landakoti eru lagfærðar og tengist sú lagfæring m.a. hugmyndum um sameiningu þessara sjúkrahúsa.
    Ég vil láta það koma fram að það eru ekki allir á einu máli um að með þessari sameiningu séu stigin framfararspor í þróun heilbrigðisþjónustu í landinu. Ég er einn af þeim sem hef miklar efasemdir um að við séum að stíga þarna rétt skref. Ég álít að til lengri tíma litið muni rekstur tveggja stórra hátæknisjúkrahúsa, sem bæði þurfa að uppfylla kröfur sem gerðar eru til háskólasjúkrahúsa, leiða til samkeppni, þó samkeppni sé sjálfsagt ágæt á ýmsum sviðum, þá muni hún í þessu tilfelli leiða til aukinna útgjalda. Það stafar af því að við munum senn sjá harða baráttu um takmarkaða fjármuni, baráttu um mannafla, baráttu um tækjakaup og baráttu um aukið húsnæði milli þessara stofnana og það mun allt saman þýða viðbótarkostnað en ekki hafa í för með sér þá hagræðingu og þann sparnað sem menn þó áætluðu að ætti að geta fylgt endurskipulagningu á rekstri þessara stóru og kostnaðarsömu sjúkrahúsa.
    Eitt vil ég nefna sem ég skil nú reyndar ekki almennilega hvernig er hugsað hér í tillögum sem ég veit nú ekki einu sinni hvort á að eigna hv. meiri hluta fjárln. Ég hygg að það sé frekar kokkað í fjmrn. og vonandi í samráði við heilbr.- og trmrn. Minnir þessi samsuða mig nokkuð á hugmyndirnar sem uppi

voru þegar átti að breyta þvottahúsi Ríkisspítalanna í hlutafélag, selja hlutaféð og nota síðan hagnaðinn af hlutabréfasölunni sem sértekjur hjá Ríkisspítölunum. Nú var horfið frá því að selja þvottahúsið og þar með komu engar sértekjur en spítalinn átti samt að spara fyrir sértekjunum sem hann ekki fékk eða samsvarandi því. Hér var ráðgert að sjúkrahúsin fengju sértekjur með innheimtu gjalds fyrir svokölluð ferliverk. Í greinargerð frá fjmrn. sem barst hv. fjárln. segir að horfið hafi verið frá þessum áformum. Hins vegar sé nú útfærður sparnaður sem nemi 80 millj. kr. á sjúkrahúsin sem skiptist þannig að Ríkisspítalar eiga að spara 50 millj. og Borgarspítali 15 millj. og St. Jósefsspítali á Landakoti 15 millj. eða hinn nýi spítali í Reykjavík 30 millj. kr. Ég sé ekki annað en að hér sé verið að fara þessa gömlu sérkennilegu leið sem átti að fara í sambandi við þvottahúsið að ef ekki er hægt að innheimta sértekjurnar eða horfið er frá því þá skulu sjúkrahúsin finna aðrar leiðir til sparnaðar og það sem meira er að mér sýnist þessar upphæðir vera utan þess ramma sem kallaður er samkomulag við sjúkrahúsin.
    Það segir að gert hafi verið samkomulag milli fjmrn. og heilbrrn. um að hækka fjárveitingu til ríkisspítala fyrir árið 1995 um 195 millj. kr. Mig langar til að fara örfáum orðum um þetta svokallaða samkomulag af því að í bréfi sem hv. fjárln. barst frá fjmrn. segir að samkomulag hafi verið gert, gengið hafi verið frá samkomulagi milli ráðuneytanna og stjórnar Ríkisspítala. Ég gerði fyrirvara, hæstv. forseti, við þetta orðalag. Samkomulag þetta er ekki gert við stjórn Ríkisspítalanna. Ég á sjálfur sæti í þeirri stjórn og þegar þetta bréf kom fyrir fjárln. þá var mér ekki kunnugt um neitt samkomulag við stjórn Ríkisspítala.
    Ég get vel hugsað mér að hinir daglegu stjórnendur Ríkisspítalanna, þ.e. forstjóri og hans nánasta samstarfsfólk, geri einhverja slíka samninga með fyrirvara um samþykki stjórnarinnar ef þetta á að heita samkomulag við Ríkisspítalana. Öðruvísi verður það ekki gert. Hitt er svo ljóst að heilbrrh. og fjmrn. geta gert með sér hvers konar samkomulag sem stjórn Ríkisspítalanna ræður engu um og getur þurft að sætta sig við þegar það er orðið að lögum með fjárlögum viðkomandi árs. Þannig hefur það verið á undanförnum árum að stjórn Ríkisspítala hefur orðið að sætta sig við þær fjárveitingar sem fjárlög á hverjum tíma hafa ákveðið og við höfum ekki getað annað, þeir sem þar sitja, en reynt að vinna af fullum heilindum að því að standa við þau markmið sem fjárlögin setja á hverjum tíma ef þess er nokkur kostur. Þetta vildi ég láta koma alveg skýrt fram hér, virðulegur forseti.
    Þrátt fyrir þetta svokallaða samkomulag um 195 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til Ríkisspítalanna er gert ráð fyrir því að fjárvöntun verði samt á milli 160 og 170 millj. kr. og er þá verið að tala um það sem menn kalla óbreyttan rekstur en er það þó reyndar ekki eins og ég kem nánar að á eftir. Auk þessa er skilinn eftir óbættur halli frá árinu í ár samkvæmt þessu samkomulagi um eða yfir 80 millj. kr.
    Ég nefndi áðan hlut Ríkisspítala í sparnaði á móti þessum áætluðum sértekjum af ferliverkum sem nú er hætt við að innheimta. Þar er um að ræða 50 millj. kr. og svo er áætlað að hjartaaðgerðum við Ríkisspítala fækki á næsta ári úr því sem er í ár, það er gert ráð fyrir að hjartaaðgerðir verði 290 samkvæmt sérstöku samkomulagi sem hæstv. heilbr.- og trmrh. beitti sér fyrir, en útlit er fyrir að hjartaaðgerðum muni fækka, því að slíkt samkomulag liggur ekki fyrir nú, niður í 250 aðgerðir. Til þess að geta staðið við óbreytta starfsemi á þessu sviði þyrfti að hækka fjárveitinguna um 50 millj. kr. Þá sýnist mér að það vanti samtals um það bil 350 millj. kr. til þess að hægt sé að tala um óbreyttan rekstur á Ríkisspítölunum. Ég ítreka það að hluti af þessu er vitað um. Það er frá því gengið í þessu svokallaða samkomulagi, en hér er vissulega um að ræða töluvert hærri tölur en þar hefur verið greint frá.
    Það er sjálfsagt að bera í bakkafullan lækinn þegar ekki er nándar nærri staðið við það að stofnanir geti staðið við óbreyttan rekstur að fara fram á að stofnanirnar fái einhverja viðbótarfjárveitingu til þess að takast á við einhverja framþróun. Til að standa undir merki sem háskólasjúkrahús hlýtur spítalanum að vera ætlað að takast á við nýjungar og búa við þau tæki og þann mannafla sem bestur er á hverjum tíma. Það hefði verið nauðsynlegt að fjölga um örfá stöðugildi til þess að svara kröfum tímans.
    Nokkrar endurbætur á húsnæði umfram það sem fjárveiting í fjárlagafrv. gerir ráð fyrir að sé hægt að standa við er nauðsynlegt að framkvæma. Ég nefni þar t.d. lagfæringar á fæðingarheimili og á kvennadeild. Svo er einnig ljóst að endurnýjun tækja hefur verið allt of lítil á undanförnum árum og fjárveiting til þess í raun allt of lág til að hægt sé að standa við eðlilega endurnýjun. Og ég tala ekki um þegar stofnanirnar standa frammi fyrir því að þurfa að endurnýja dýr eða kostnaðarsöm tæki sem kosta milljónatugi þá leyfa fjárveitingarnar í fjárlagafrv. alls ekki að tekist sé á við slíka endurnýjun en nú blasir einmitt við Ríkisspítölunum að það verður að endurnýja línuhraðal fyrir krabbameinslækningar sem áætlað er að kosti 60 millj. kr. og má vera sýnt af tölum frv. að erfitt ef ekki útilokað er að það geti náð fram að ganga miðað við óbreyttar fjárveitingar, því miður.
    Ég vil einnig minna á loforð heilbrrh. frá sl. vori um fjárveitingu til byggingar nýs barnaspítala upp á 125 millj. kr. Það sjást engin merki um að staðið verði við það fyrirheit og varla hægt að segja annað en í raun sé verið að svíkja það. Ég kem nánar að því aðeins síðar.
    Í nýlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að stuðla að aukinni atvinnu, stöðugleika og kjarajöfnun segir m.a.:
    ,,Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á stöðugt bætta heilbrigðisþjónustu með því að gera stærstu sjúkrahúsunum kleift að nýta sem best þær miklu framfarir sem átt hafa sér stað á sviði læknavísinda að undanförnu.``
    Mér finnst að ekki sé vel staðið við þessa yfirlýsingu miðað við það sem ég tel blasa við. Ég veit ekki hvort það á að kalla hana brandara en það er a.m.k. ljóst að það er ekki hátt risið á framkvæmdinni eins og hún lítur hér út.
    Svokölluð K-bygging hefur verið í byggingu mörg undanfarin ár. Þar er um að ræða stórt og dýrt mannvirki. Það skiptir milljörðum kr. heildarbyggingarkostnaður við þetta hús og þann tækjabúnað sem þar á að verða þegar húsið er að fullu risið. Það er hins vegar afar erfitt að vinna markvisst að framkvæmdum sem þessum þegar aldrei er vitað um fjárveitingu nema í besta falli til eins árs, ævinlega óljóst um framhaldið og ég tala nú ekki um þegar kastar svo tólfunum sem nú virðist vera að þær 144 millj. kr., sem fjárlagafrv. gerir þó ráð fyrir, verða ekki einu sinni eða e.t.v. ekki nýttar í þessa byggingarframkvæmd sem þó hefur verið fyrirhugað og ábyggilega allir sem að málunum standa og eru í forsvari fyrir hafa gert ráð fyrir. Nú eru því miður uppi hugmyndir um það hjá ráðuneytinu að taka einhvern hluta af þessari fjárveitingu, kannski mestalla fjárveitinguna, og verja henni til framkvæmda við barnaspítalann fyrirhugaða.
    Það hafa verið uppi hugmyndir hjá yfirstjórn mannvirkjagerðar á landspítalalóð að fá að bjóða út næsta áfanga við framkvæmdirnar sem áætlað er að kosti 250--275 millj. kr. og hafa verið send bréf til ráðuneytisins ítrekað, það fyrsta 21. mars sl., aftur í haust, 31. okt., og nú að síðustu til samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir 25. nóv. þar sem farið er fram á að það fáist að bjóða út þessar framkvæmdir svo sem fyrirhugað hefur verið. Það er hins vegar mjög erfitt að vinna að slíkum málum ef ekki fást skýr svör frá stjórnvöldum hvert stefnir í þessu sambandi. Ráðuneytið hefur ekki svarað bréfunum og nú eins og ég sagði áðan ekki vitað einu sinni hvort þessi 144 millj. kr. fjárveiting á að vera í þetta ákveðna verkefni. Það hefði verið fróðlegt að fá yfirlýsingu frá hæstv. heilbr.- og trmrh. um það hvernig hann hugsar sér að halda þessum málum áfram. Er verið að taka ákvörðun um að hætta við K-bygginguna, á að leggja hana til hliðar og setja fjárveitinguna til byggingar barnaspítalans eða eru yfirlýsingar um framkvæmdir við barnaspítalann algerlega marklausar? Mig langar í því sambandi að minna á að með nefndaráliti minni hluta fjárln. er fylgiskjal þar sem sýndur er rammasamningur um byggingu nýs spítala sem undirritaður var 26. maí 1994 og þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Fjármögnun framkvæmda verður sem hér segir:
    Heilbr.- og trn. beitir sér fyrir að á fjárlögum næstu þriggja ára verði 125 millj. kr. á ári til byggingarinnar.``
    Hvergi sést að standa eigi við þetta fyrirheit.
    Það væri hægt að fara mörgum fleiri orðum um málefni sjúkrahúsanna og ekki bara þessara tveggja eða þriggja stóru sjúkrahúsa í Reykjavík heldur sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana í landinu. Það er t.d. ljóst að það eru miklir erfiðleikar hjá mörgum hjúkrunarheimilum, það eru miklir erfiðleikar hjá nokkrum svokölluðum daggjaldastofnunum sem ekki hafa fengið leiðréttingu sinna mála og því miður ekki neitt í yfirlýsingum frá heilbr.- og trmrn. sem gefur mönnum von um að þaðan sé að vænta einhverrar lagfæringar á þeim vanda sem þar blasir við eða þar er við að glíma. Ég get nefnt tvær stofnanir af handahófi sem mér er kunnugt um að eiga við mikla erfiðleika að etja. Það er annars vegar hjúkrunarheimilið Hlíf á Akureyri og hins vegar Reykjalundur í Mosfellssveit. Báðar þessar stofnanir hafa gert fjárlaganefndarmönnum aðvart um hvernig ástandið sé en það er ekki að sjá að það séu neinar hugmyndir uppi um það að leysa þann vanda eða bregðast á einhvern hátt við og þá getur það ekki farið öðruvísi, a.m.k. varla með sjálfseignarstofnanir, við skulum segja að það sé hugsanlegt að sveitarfélög komi að einhverju leyti að rekstri hjúkrunar- eða dvalarheimilanna og bæti það með sérstökum fjárframlögum sem er þó ekki í þeirra verkahring samkvæmt verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.
En varðandi sjálfseignarstofnanir eins og t.d. Reykjalund, þá er ekki sýnt að það sé hægt að leysa slíka fjárvöntun með öðrum hætti en að draga úr rekstri þeirra stofnana, draga reksturinn svo saman að hann leiði til þess að hægt sé að greiða niður þennan uppsafnaða halla eða vanda. Og e.t.v. er það það sem núverandi stjórnvöld ætlast til að verði gert.
    Þá vil ég árétta það sem oftar hefur komið upp í umræðu hér í þinginu, m.a. við 2. umr. um fjárlögin, þær hugmyndir sem uppi eru í fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir að leggja niður embætti héraðslækna í Reykjavík og Norðurl. e. Ég lýsi mig algerlega ósammála þeim hugmyndum og hef allt til þessa vonast til að horfið yrði frá því og reynt yrði að halda áfram á þeirri braut að efla starfsemi þessara embætta með því fyrst og fremst að færa verkefni frá ráðuneyti og landlæknisembætti út í héruðin. Það ætti ekki endilega allt að þurfa að þýða kostnaðarauka ef hægt væri að mæta því með sparnaði í ráðuneyti en ætla að leggja embættin niður án þess að gera ráð fyrir því að heilbrrn.- eða landlæknisembætti sem hljóta að vera þær stofnanir sem taka við verkefnum, ætla að leggja embættið niður án þess að gera ráð fyrir fjárveitingum til þeirra aðila sem eiga að taka við verkefnunum, það get ég bara ekki séð að gangi upp af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og stuðningsmanna hennar.
    Héraðslæknarnir sinna fjölmörgum verkefnum í heilbrigðisþjónustunni, svo sem vegna geðsjúkra, vegna drykkjusjúkra og fíkniefnaneytenda og vegna sóttvarna. Héraðslæknarnir annast t.d. rannsóknir á dauðsföllum utan sjúkrahúsa og skyldum málum auk þess sem þeir veita upplýsingar, umsagnir og skera úr um ýmis málefni sem ekki er fyrirséð hverjir munu sinna framvegis. Ekki veit ég hvernig á að leysa það í heilbrrn. miðað við þann mannafla og þær fjárveitingar sem þar blasa við.
    Virðulegur forseti. Það er fjölmargt fleira sem mætti nefna og er fyrst og fremst tínt til af minni hálfu sem áréttingar og til þess að sýna fram á það að enn er við mikinn og margvíslegan vanda að glíma þó svo að útgjöld til margra þessara málaflokka hafi verið lagfærð og fjárveitingar hækkaðar.
    Við minnihlutafulltrúarnir sem skrifum undir þetta nefndarálit teljum að það þurfi að huga vel að því að í 6. gr. fjárlaga séu ekki heimildarákvæði handa ríkisstjórn um ýmis framkvæmdaatriði sem þingið þarf að fjalla nánar og ítarlegar um heldur en að jafnaði er gert í 6. gr. Ég vil nefna þrjú dæmi í því sambandi, að í lið 3.51 í 6. gr. eins og hún liggur núna fyrir ásamt þeim breytingartillögum sem hér eru til umræðu, er gert ráð fyrir að selja hlutabréf ríkissjóðs í Lyfjaverslun Íslands hf. En svo vill til að frv., meira að segja umdeilt frv., er fyrir þinginu sama efnis og það hefur þegar verið rætt ítarlega í þingsölum og er það nú til umfjöllunar í efh.- og viðskn. Þess vegna verður að teljast með ólíkindum að nú eigi að lauma heimild til þessarar sölu í gegnum 6. gr. án nokkurrar frekari umræðu eða umfjöllunar. Það finnst mér vera afar sérkennileg vinnubrögð og sama á reyndar við í sambandi við ákvæði í lið nr. 5.6 þar sem

er að finna heimild til þess að breyta eignarhlut ríkisins í Skýrsluvélum ríkisins og Reykjavíkurborgar í hlutafé. Um þetta hefur ekki verið fjallað að áliti okkar minnihlutafulltrúanna nægilega vel t.d. í fjárln. og teljum við eðlilegra að það hefði fengið ítarlegri umræðu og umfjöllun í þinginu og þá trúlega í efh.- og viðskn. eins og önnur mál af þessu tagi. Því er algerlega óeðlilegt að samþykkja þetta ákvæði við afgreiðslu fjárlaga.
    Að lokum langar mig svo til að benda á lið nr. 5.17 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Að lækka heildargjöld stofnana samgrn. í A- og B-hluta fjárlaga 1995 um allt að 0,4% hjá hverri stofnun, þó að hámarki 30 millj. kr. samtals, að fengnum tillögum samgrh. Andvirði þessa verði lagt til markaðsátaks erlendis til þess að lengja ferðamannatíma á Íslandi.``
    Við minnihlutafulltrúarnir teljum þetta málefni að sjálfsögðu þarft og höfum ekki á móti því að reynt sé að leggja fjárveitingar til markaðsátaks á sviði ferðamála. En það sem við teljum óeðlilegt er að veita ráðherra heimild á 6. gr. fjárlaga að skerða rekstur og stofnkostnaðarfjárveitingar einstakra stofnana sem heyra undir ráðuneytið, fjárveitingar sem fjárln. hefur fjallað ítarlega um að undanförnu og Alþingi væntanlega staðfest með samþykki frv. sem lög frá Alþingi og síðan sé ráðherra heimilað að hræra í þeim fjárveitingum aftur að eigin geðþótta. Auðvitað eru það eðlileg vinnubrögð í þessu sambandi að ákveða hvernig þessara 30 millj. kr. er aflað eða hver svo sem upphæðin kann að vera á hverjum tíma og hvar niðurskurðurinn á að lenda ef þeirra á að afla með niðurskurði á stofnunum ráðuneytisins eða hvar annars staðar. Þetta finnst mér algerlega óeðlileg vinnubrögð þó svo að e.t.v. sé nauðsynlegt og eðlilegt að veita aukið fjármagn til markaðsátaks á sviði ferðamála og er það alveg óskylt athugasemdum mínum við þessi vinnubrögð.
    Virðulegur forseti. Ég sagði áðan að aðrir hv. nefndarmenn minni hlutans, sem skrifa undir nefndarálitið, geri grein fyrir einstökum þáttum eða köflum álitsins og ætla þess vegna ekki að fara um það fleiri orðum. Mig langar aðeins í lokin að taka undir orð hv. formanns fjárln. og þakka öllum samstarfsmönnum mínum í nefndinni, bæði minnihluta- og meirihlutamönnum öllum fyrir samstarfið. Það er alltaf erfitt að vinna að málum í fjárln. Þar eru ýmis átakamál uppi sem taka sannarlega á samstarfið svo ekki sé meira sagt og býst ég þó við að hv. meirihlutamenn verði á hverjum tíma enn meira varir við það en við sem skipum minnihlutann. Því miður er það nú svo að minnihlutamennirnir koma e.t.v. of lítið að ákvörðun, að afgreiðslu og að vinnu við það að ákveða brtt. eða útgjaldaliðina sem gerðar eru tillögur um að breyta. Ég held að það væru betri vinnubrögð að nefndin ynni þetta meira saman og fjallaði um málin í sameiningu þó svo mér sé alveg ljóst að um hina stóru þætti, um útgjaldalínurnar í heild sinni og einstaka stóra útgjaldamálaflokka, hljóti meiri hluti fjárln. á hverjum tíma að verða að taka ákvarðanir í samráði við ríkisstjórn.
    Ég tel ýmsar breytingartillögur meiri hlutans vera til bóta eins og ég hef áður lýst í máli mínu og vera nauðsynlegar lagfæringar á ýmsum málum sem hafa verið til umfjöllunar í nefndinni og minni hlutinn mun því fylgja ýmsum þessum tillögum og lagfæringum. Auk þess vil ég geta þess, virðulegur forseti, að við nokkrir þingmenn Framsfl. munum flytja breytingartillögur bæði við tekjuhlið og gjaldahlið frv. en nánar verður gerð grein fyrir þeim breytingartillögum af öðrum hv. þm. síðar í umræðunni.
    Ég vil svo að lokum lýsa því yfir að minni hlutinn treystir sér ekki til þess að taka neina ábyrgð á þeirri efnahagsstefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar, sem kemur fram í fjárlagafrv. og þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir, og minni hlutinn mun því sitja hjá við afgreiðslu frv. en einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja breytingartillögum sem fram kunna að koma.