Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 17:58:35 (3057)


[17:58]
     Frsm. minni hluta fjárln. (Guðmundur Bjarnason) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér þykir ánægjulegt að heyra hv. 1. þm. Vesturl. lýsa því yfir að hann hafi nokkrar áhyggjur af 50 millj. kr. sparnaðinum í sjúkraþjálfun þó það sé ekki stóra málið í fjárlagagerðinni. En það er kannski vísbending um það sem ég óttast að hafi einkennt oftar en ekki sparnaðartillögur hæstv. núv. ríkisstjórnar og hæstv. heilbr.- og trmrh. þessarar ríkisstjórnar að heildaryfirsýn hafi vantað. Þegar gerðar hafi verið tillögur um sparnað á einstökum liðum hafi menn í raun vísað vandanum til en ekki tekist á við hann og ekki verið að leysa hann.
    Varðandi það að hækka skatta held ég að engum blandist hugur um að sumir efh.- og viðskiptanefndarmenn og a.m.k. fulltrúar Framsfl. í þeirri nefnd hafa verið þeirrar skoðunar, og ég hygg að svo sé nú reyndar um fleiri hv. alþm., að það eigi að taka upp fjármagnstekjuskatt og reyndar er að finna áform um það í yfirlýsingum hæstv. ríkisstjórnar. Mögulegt er að stíga fyrstu skref í því sambandi með því að breikka eignarskattsstofninn og ná þar inn umtalsverðum tekjum á þessum tíma þegar þarf virkilega að takast á við margvíslegan rekstrarvanda í ríkisfjármálunum. Þá er tímabært að lækka svokallaðan ekknaskatt þegar nýjar tekjur koma inn frá þessum álagningarstofnum en ekki að gera það fyrir fram.
    Um samkomulag við stóru spítalana vil ég aðeins segja að það er að sjálfsögðu ánægjulegt ef hægt er að gera samkomulag um raunhæfar sparnaðaraðgerðir og ná samstöðu um það hvernig fjárveitingar til þessara stofnana eiga að vera en það þarf þá að vera raunhæft. Tölurnar, sem byggt er á, þurfa að vera réttar og að menn fái ekki viðbótarsparnaðartillögur í bakið sem útilokað verður að standa við í viðbót við það sem áður hafði verið áætlað.