Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 21:40:05 (3081)


[21:40]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla satt að segja ekki að fara sérstaklega út í umræður um þá undarlegu, með leyfi forseta, ,,hundalógík`` sem hæstv. iðnrh. tíðkar þegar kemur að umræðum um raforkuverð í landinu ( Gripið fram í: Og Sovétríkin.) og það má segja honum til hróss að yfirleitt tekst honum alveg ótrúlega vel að klóra sig fram úr vonlausri stöðu. Hann gerir það fyrst með því að kenna Alþb. um allt sem misfarist hefur í stjórn landsins næstu ár á undan og þegar hann er endanlega orðinn alveg rökþrota og það dugir ekki til þá skreppur hann yfirleitt til Sovétríkjanna og ég sá á honum, hæstv. ráðherra, að honum var heldur farið að förlast áðan þannig að ég hjálpaði honum pínulítið og sá að að lokum fann hann sjálfan sig. Þann gamla, með leyfi að segja, góða Sighvat Björgvinsson sem ævinlega var á Volgubökkum þegar var þröngt í rökþrotabúinu hjá honum eins og stundum gerist á þessum árstíma.
    Það sem ég ætlaði hér að ræða, hæstv. forseti, voru nokkur atriði varðandi fjárlagafrv. almennt og síðan einstakar brtt. sem ég flyt. Mér þætti vænt um ef hæstv. fjmrh. gæti verið viðstaddur umræðuna. Ég ætla fyrst að víkja máli að hæstv. iðnrh.
    Þannig háttar til að á þessu ári hefur verið um að ræða svokallaða jöfnunaraðstoð í skipasmíðaiðnaði. Þessi jöfnunaraðstoð hefur skilað mjög miklum árangri, hún hefur að vísu kostað dálitla peninga, sennilega um 60 millj. kr. ef ég man rétt í tveimur áföngum en það er ekki nokkur vafi á því að þessi jöfnunaraðstoð var mjög skynsamleg aðgerð af ríkisstjórninni til þess að tryggja það að skipasmíðaiðnaðurinn tórði, svo ég segi nú ekki meira. Niðurstaðan hefur orðið sú að menn hafa getað haldið hér inni í landinu verkefnum fyrir skipasmíðaiðnaðinn sem annars hefðu lent annars staðar. Þetta þekkja t.d. þingmenn Vesturl. ágætlega að því er varðar skipasmíðastöðina á Akranesi og þetta þekkja þingmenn Norðurl. e. ágætlega að því er varðar skipasmíðastöðina á Akureyri.
    Nú háttar hins vegar svo til að í frv. til fjárlaga sé ég ekki að það sé gert ráð fyrir þessu með þeim hætti sem menn höfðu búist við. Þess vegna flyt ég hér tillögu um það að það verði veittir fjármunir í skipasmíðar á næsta ári með þessum hætti, þ.e. jöfnunaraðstoð í skipasmíðum með tilliti til þess að Evrópusambandið hefur ákveðið að framlengja styrkjapólitík sína í skipasmíðum á næsta ári. Það er þess vegna nauðsynlegt fyrir okkur að undirbúa okkur sérstaklega undir þennan veruleika, þá staðreynd að á næsta ári má gera ráð fyrir því að samkeppnin verði einnig hörð við niðurgreiddan skipasmíðaiðnað í grannlöndum okkar. Þess vegna flyt ég þessa tillögu og ég rökstyð hana nákvæmlega eins og hæstv. iðnrh. gerði fyrr á þessu ári þegar hann sagði: Framlag þetta skilar sér í margföldum tekjum til ríkissjóðs, margföldum, beinum og óbeinum tekjum. Bæði í beinum og óbeinum sköttum.
    Ég fullyrði það, hæstv. forseti, að möguleikar af þessu tagi af hálfu iðnrn. geta ráðið úrslitum um það hvort við höfum skipasmíðaiðnað á Íslandi í lok niðurgreiðslutímabils Evrópusambandsins í skipasmíðum á næsta ári eða ekki. Þannig að ég vil spyrja hæstv. iðnrh. hvað hann hyggst gera í þessum málum, hvernig hann sér það fyrir sér að á þessum málum verði tekið og hvort það er samstaða með honum og hæstv. fjmrh. um það hvernig verður tekið á þessum málum.
    Í öðru lagi, hæstv. forseti, ætla ég síðan að víkja almennt að fjárlagafrv. og leggja fyrir hæstv. fjmrh. spurningu. Hún er þessi: Hvað heldur hæstv. fjmrh. að íslenska ríkið hafi skuldað mikið, þ.e. A-hluti ríkissjóðs, í lok síðasta árs? Og hvað telur hann líklegt að hafi bæst við í ríkisreikningi þegar hann verður settur saman fyrir árið 1994? Hvað telur hann líklegt að komi upp sem hallatala og þar með viðbótarskuld fyrir ríkissjóð fyrir árið 1995 samkvæmt því fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir?
    Ég held að menn þurfi að gera sér grein fyrir því að í þessum efnum er ekki allt sem sýnist því þó að hallatala fjárlagafrv. eins og hún lítur út núna sé sögð vera tiltekin upphæð þá er alveg ljóst að þegar þessi halli verður kominn inn í ríkisreikninginn fyrir 1995 verður hann miklu meiri. Ég ætla að nefna tvær tölur til sannindamerkis um það.
    Ég nefni í fyrsta lagi liðinn 09-381 sem heitir Uppbætur á lífeyri og er 890 millj. kr. sem eru uppbætur ríkissjóðs á lífeyri opinberra starfsmanna á árinu 1995. Þegar þessi tala verður komin í ríkisreikninginn 1995 verður hún ekki 890 millj. heldur verður hún sennilega 2,5--3 milljarðar kr. Og af hverju er

það? Það er vegna þess að í ríkisreikningnum er búið að færa upp allar lífeyrisskuldbindingar ríkisins þannig að þessi tala hækkar mjög verulega, sennilega um 1,5 milljarða kr. frá fjárlögum til ríkisreiknings fyrir árið 1995. Þetta er veruleikinn, þetta er svona.
    Til að sanna þetta dæmi ætla ég að nefna hv. þingmönnum það að í ríkisreikningnum fyrir árið 1993 er þessi tala um 2,5--3 milljarðar kr. þó hún sé aðeins um 900 millj. í fjárlögunum sjálfum. Þetta er vegna þess að fjárlög og ríkisreikningur eru færð upp á mismunandi grunni sem menn eru að taka á í ríkisreikningsnefnd sem hefur núna nýlega skilað áliti og er það vel. En þetta sýnir það að þessar hallatölur eins og þær koma fram í fjárlagafrv. hjá hæstv. fjmrh. eru algjörlega marklausar vegna þess að ríkisreikningurinn mun skrifa þessar tölur upp á fleiri milljarða kr. til viðbótar við það sem stendur hér inni.
    Ég ætla að nefna annað dæmi. Ég nefni liðinn 09-801 sem heitir Ýmis lán ríkissjóðs, vextir. Þar er tala upp á 12 milljarða kr. Þar er auðvitað um að ræða það sem menn gera ráð fyrir að komi til greiðslu af vöxtum og afborgunum á árinu 1995. En þessi tala er ekki öll þar sem hún er séð heldur vegna þess að þegar hún kemur í ríkisreikning þá verður búið að færa upp allar skuldir ríkisins þannig að hún mun væntanlega, ef ég miða við árið 1993, ekki vera 12 milljarðar kr. heldur giska ég á að hún verði milli 15 og 16 milljarðar kr.
    Með öðrum orðum, hæstv. forseti, þessar tvær tölur sem ég hef hér nefnt munu hækka halla ríkissjóðs frá fjárlögum til reiknings upp á 4--5 þús. millj. kr. af því að annað er gert upp á rekstrargrunni og hitt er gert upp á greiðslugrunni. Þessi veruleiki, hæstv. forseti, er hins vegar þannig að ég efast um að þingmenn hafi hann yfirleitt í huga þegar þeir eru að afgreiða þessi gögn sem þeir þyrftu þó að hafa.
    Af þessum ástæðum er það, hæstv. forseti, sem ég giska á að heildarskuld A-hluta ríkissjóðs í lok ársins 1993 sé 175 milljarðar kr. og að í lok þessa árs sé þessi tala að sjálfsögðu allmiklu hærri. Ég þori ekki að giska á neina ákveðna tölu í þeim efnum en mér sýnist líklegt að á þeim tíma sem hv. þm. Friðrik Sophusson hefur gegnt embætti fjmrh. hafi skuldir A-hluta ríkissjóðs aukist um u.þ.b. 45--50 þús. millj. kr.
    Nú geta menn í þessu sambandi haft hlutina í flimtingum eins og stundum er gert úr þessum ræðustól og sagt sem svo að þessi hæstv. ráðherra setti sér það mark að ná þessu niður í núll á kjörtímabilinu. Það er auðvitað eins og hvert annað háðsmerki á bakinu á honum en það er alveg fáránlegt að fara að rifja þá sögu upp út af fyrir sig. Veruleikinn er þessi og staðreyndin er náttúrlega sú að menn hafa ekki fylgt neinni stefnu í ríkisfjármálum í raun og veru. Það hefur ekki verið fylgt neinni heildarstefnu í ríkisfjármálum fyrst og fremst vegna þess að mínu mati að í staðinn fyrir að halda utan um hlutina á einum stað, án þess að ég sé að hvetja til meiri miðstýringar en nú er um að ræða, þá hefur einstökum ráðherrum verið ætlað að framkvæma fjárlögin á rammagrundvelli sem hefur verið ákveðinn á hverju sumri og það hefur orðið til þess að hver ráðherra hefur lent í því að bera ábyrgð á sínu ráðuneyti og fjmrn. hefur ekki haldið mjög mikið utan um þau mál eða ekki á sama hátt og áður. Niðurstaðan hefur orðið sú að tvö ráðuneyti hafa skilað sparnaði í sögu núv. ríkisstjórnar, raunsparnaði. Það er annars vegar menntmrn. sem hefur skilað raunsparnaði, aðallega á Lánasjóði ísl. námsmanna og hins vegar landbrn., aðallega vegna búvörusamningsins eins og hann var gerður á sínum tíma. En þegar kemur hins vegar að því að menn velti fyrir sér í þessu sambandi heilbrrn. þá kemur það athyglisverða út að þó svo að gjöld á einstaklinga hafi hækkað eins og allir vita, t.d. fyrir lyf, þá hefur raunkostnaður í heilbrigðisþjónustunni, t.d. á spítölunum, breyst ótrúlega lítið frá 1991 til ársins 1994 eða fjárlagafrv. 1995. Ótrúlega lítið. Ég fékk tölur yfir þetta frá Ríkisendurskoðun sl. sumar og þá sýnist mér að raunsparnaður á spítalarekstrinum í landinu, sem ég man nú satt að segja ekki í bili hvað er hár, ég man ekki þá tölu nákvæmlega, en mér sýndist að raunsparnaður á spítölunum í landinu væri um 800 millj. kr. frá reikningi 1991 til fjárlaga 1994 og frv. 1995, en þá lágu úti hallatölur og rekstrarvandamál stóru spítalanna upp á svipaða tölu. Þannig að þegar ég skoðaði þessa tölu þá sýndist mér að ekki væri hægt að tala um neinn raunsparnað í spítalarekstrinum, þvert á móti, því að til viðbótar við þessi útgjöld ríkisins hafa sjúklingarnir verið látnir borga meira en áður.
    Það sem ég er að segja með þessu er það, hæstv. forseti, að fjmrn. hefur ekki haft yfirsýn yfir þá hluti sem snúa að heilbrrn. Heilbrrn. hefur komist upp með það allt kjörtímabilið að plata fjmrn. upp á milljarð á ári að meðaltali í hverju fjárlagafrv. og það gæti ég rakið hér nákvæmlega ef menn vildu. Og það er auðvitað dálítið umhugsunarefni, hæstv. forseti, þegar upp er staðið fyrir hæstv. fjmrh., sem skilar þannig búi að hann hefur aukið skuldir ríkisins um 40--50 þús. millj. kr. Það er dálítið mikið, hæstv. forseti, þegar þess er gætt hver okkar staða er að öðru leyti.
    Þetta vildi ég láta koma hér fram vegna þess að ég tel að það afhjúpi það að þær aðferðir sem notaðar hafa verið í ríkisfjármálum á þessu kjörtímabili hafa mistekist. Þær hafa engum árangri í raun og veru skilað í því að halda betur utan um ríkisfjármálin. Og sparnaðarköstin sem menn hafa fengið hafa farið allt of seint af stað og menn hafa oft verið að spara eyrinn og kasta krónunni. Gott dæmi um það er t.d. Háskóli Íslands. Þar eru menn að spara eyrinn og kasta krónunni. Það er alveg ljóst að niðurskurður hjá Háskóla Íslands, eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., þýðir verri afkomu ríkissjóðs --- ekki á næsta ári, heldur eftir nokkur ár, kannski 5 ár eða 10 ár eða 15 ár. Það er líka augljóst mál að það að láta skipasmíðaiðnaðinn hrynja þýðir verri afkomu ríkissjóðs þegar fram í sækir. Þannig að það verða auðvitað að vera tengsl á milli virkrar atvinnustefnu annars vegar og stefnunnar í ríkisfjármálum hins vegar.
    Virðulegi forseti. Þetta vildi ég láta koma hér fram og bæta þá í þriðja lagi við nokkrum þáttum varðandi einstök atriði sem hér hafa komið til umræðu og segja það að ég tel að það væri skynsamlegt miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið frá hæstv. fjmrh. og starfsmönnum hans, að hv. 12. þm. Reykv. drægi til baka tillögu sína, sem eru að vísu flutt við fjáraukalagafrv., um 85 millj. úr Erfðafjársjóði í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Ég teldi að það væri slæmt fyrir málaflokkinn ef þessi tillaga kæmi hér til afgreiðslu og yrði felld, en reyndar líka ef hún yrði samþykkt, vegna þess fyrst og fremst, hæstv. forseti, að þá væru

menn að festa þá tölu, gefa sér og festa þá tölu sem ætti að koma inn í Framkvæmdasjóð af erfðafjárskatti. Þess vegna mundi ég beina því til hv. 12. þm. Reykv. ef hún væri hér að hún dragi þessa tillögu til baka. Ég tel óskynsamlegt að láta hana koma til atkvæða. Ég ætla ekkert að segja til um það hvort mér finnst óskynsamlegt að tillagan hafi verið flutt út af fyrir sig, en ég tel óskynsamlegt að láta hana koma til atkvæða.
    En úr því að ég nefni þennan málaflokk þá verð ég segja það að ég er afar sáttur við afgreiðslu fjárln. að því er varðar þjónustu við fatlaða hér í Reykjavík og ég tel ástæðu til að þakka fyrir það. Ég sagði reyndar við sjálfan mig þegar ég sá þessar tillögur að það væri skynsamlegt að hafa kannski bara fjórar eða fimm umræður um þetta frv. því að að hefur heldur batnað ef eitthvað er, hægt og bítandi og gæti út af fyrir sig, ef svigrúm væri til þess í þingsköpum, lagt til að það færi til 4. umr. eftir þá sem hér fer fram, en ég reikna nú ekki með að menn samþykki það. En ég tel í alvöru og einlægni sagt að þetta sé mikilvægt sem fjárln. hefur afgreitt og ég tel fulla ástæðu til þess að nefna það hér. Þó að ég viti að lofið hittir meirihlutamenn fyrir líka þá blygðast ég mín ekkert fyrir það, svo skrýtið sem það kann nú að virðast.
    Ég vil einnig segja það að ég er afar sáttur við það að sjá hér listskreytingasjóð aftur. Ég get ekki neitað því, mér þótti heldur vænt um það. Og þó að þetta séu bara 4 milljónir þá þótti mér það eiginlega miklu betra. Þannig að það eru að sjálfsögðu ýmsir ljósir punktar í þessu öllu saman. Hins vegar verð ég að játa það að ég harma það að menn skuli ekki hafa litið á þessi mál með línuhraðalinn á Ríkisspítölunum og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. og hv. fjárlaganefndarmenn að því hvort þeir hafi eitthvað skoðað þessi mál á milli umræðnanna sem snerta línuhraðalinn. Kóbalttækið er ónýtt, það er hættulegt. Menn eru hættir að framleiða í það varahluti. Það er stórhættulegt tæki. Línuhraðallinn er gamall líka og það að endurnýja þetta tæki kostar 50--60 millj. kr. Ríkisspítalarnir eru tilbúnir til þess að standa þannig að þessu verki að útborgun í þessum tækjum yrði á þessu ári 25--30 millj. kr. og á næsta ári eitthvað svipuð tala, þ.e. á árinu 1996. Ég vil eindregið fara fram á það við hv. fjárlaganefndarmenn að þeir fjalli aðeins um þetta í máli sínu núna eða einhvern tíma á eftir, hvernig þeir sá það fyrir sér að Landspítalinn taki á þessu máli. Ég er ekki út af fyrir sig að gera kröfur til þess að Landspítalinn fái alla þessa peninga til viðbótar við þá miklu fjárlagatölu sem Landspítalinn hefur. Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki einfalt mál, sérstaklega eftir að þetta svokallaða samkomulag var gert, sem er náttúrlega ekkert samkomulag. Þannig að ég geri mér grein fyrir því að málið er ekki alveg einfalt. En ég fer fram á það að hv. fjárlaganefndarmenn og hæstv. fjmrh. fari nokkrum orðum um það hvernig þeir sjá það fyrir sér að Landspítalinn endurnýjaði þetta tæki því að hann verður að gera það. Það vita það allir og ekki síst hæstv. fjmrh. sem var um fjögurra ára skeið formaður stjórnarnefndar Ríkisspítalanna.
    Auðvitað er það alveg greinilegt, hæstv. forseti, að afgreiðslan á Ríkisspítölunum er alveg svakaleg. Ég verð að játa það að ég hef miklar áhyggjur af þeirri stöðu. Mér sýnist að það sé verið að taka Ríkisspítalana niður í rekstri um 250--300 millj. kr. Það er verið að fækka hjartaaðgerðum úr 290 í 250 sýnist mér á þessum tölum og heyrðist mér í ræðum hér í dag. Þannig að það er greinilegt að það verður nokkuð snúið að eiga við þetta. Forráðamenn Ríkisspítalanna hljóta að velta því fyrir sér, ef þeir eiga að ná rekstrinum niður um 300 millj. kr., þá hljóta þeir að velta því fyrir sér að segja upp fólki í stórum stíl. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því: Reiknar hann með því að Ríkisspítalarnir segi hér upp 200--300 manns frá og með áramótum eða þannig að uppsagnirnar fari að telja frá og með áramótum, því ef uppsagnir eiga að skila einhverjum sparnaði í rekstri þá þarf að taka ákvarðanir um það strax. Eða hvað það eru heilbrrh. og fjmrh. gera ráð fyrir í sambandi við Ríkisspítalana. Eru það 200--300 manns sem menn eru að tala um að fækka um á Ríkisspítölunum á næsta ári með þessum tölum sem þarna eru inni? Ég held að þær séu alveg óskaplega lágar og hættulegar eins og þær þarna líta út.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta frekar, en ég sé, hæstv. forseti, mér til mikillar ánægju þskj. 490, en það eru tillögur þeirra þingmanna Framsfl. Hv. þingmenn Framsfl. hafa ákveðið að flytja hér tillögu og ég gat þess í vissum fjölmiðli hér á dögunum, sem vakti alveg brjálæðislega hrifningu í Framsfl., að ekki sé meira sagt, ( Gripið fram í: Söguleg stund.) söguleg stund, þá gat ég þess að Framsókn hefði ekki flutt neinar tillögur og ekki heldur stutt neinar tillögur. Nú hefur Framsókn lagt af stað og flutt hér ýmsar tillögur, m.a. tillögur sem voru að einhverju leyti felldar við 2. umr., en það er ágætt. Þannig að ég vil taka það fram að ég fagna því alveg sérstaklega að jafnvel Framsfl. er á réttri leið og þá er nú ástæða til þess að horfa með björtum huga og jákvæðum til framtíðarinnar.
    Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu og beindi nokkrum spurningum til hæstv. ráðherra og hv. þingmanna í fjárln., ef þeir vildu vera svo vinsamlegir að svara þeim.