Ábyrgð á láni til Silfurlax hf.

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 13:13:36 (3319)



[13:13]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel mig fyllilega halda mig við þann efnisþátt sem snýr að störfum þingsins vegna þess að við stöndum hér frammi fyrir því hvort á að fara að greiða atkvæði um tillögu sem samkvæmt þeim forsendum sem kynntar voru í nótt brýtur gegn dómi Hæstaréttar frá 16. júní sl. Ef sá skilningur sem ég hef lýst á dómi Hæstaréttar er réttur, og ég hef enga ástæðu til þess að draga það í efa að hafbeitarlax sé ekki eldisfiskur heldur afli í skilningi veðlaganna og því megi eingöngu veðsetja hann til eins árs, þá er alveg ljóst að það er ekki hægt að veita þessa 50 millj. kr. ábyrgð á árinu 1995. Tillagan gengur ekki upp, hæstv. fjmrh., samkvæmt dómi Hæstaréttar. Það er í sjálfu sér fullkomlega út í hött að fara að samþykkja hér heimild til fjmrh. um sjálfskuldarábyrgð sem ekki stenst fyrr en í fyrsta lagi með lánsfjárlögum sem verða afgreidd á næsta ári fyrir árið 1996 því að það var upplýst af ábyrgum aðilum í nótt að afli ársins 1995 er að fullu veðsettur. Það er ekkert svigrúm fyrir veðtöku í afla næsta árs.
    Þess vegna tel ég, virðulegi fjmrh., sérstaklega þegar fjmrh. hefur upplýst að honum var ekki kunnugt um þennan hæstaréttardóm, að málið verði skoðað nánar áður en atkvæðagreiðslan fer fram. Umræðu er lokið og það er engin ástæða til að ætla annað en atkvæðagreiðslan fari fram annaðhvort síðar í dag eða áður en þingi lýkur, en ég vona að hæstv. fjmrh. skilji að það er nauðsynlegt að hann kynni sér þetta mál og geti upplýst það nánar í þingsalnum áður en atkvæðagreiðslan fer fram því að það er ekki sómi þingsins að samþykkja tillögu sem brýtur gegn dómi Hæstaréttar.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, spyrjast fyrir um það, sem mér var ekki ljóst þegar ég kom upp áðan, hvort það er heimilt samkvæmt þingsköpum að breyta flutningsmönnum brtt. eftir að umræðum lýkur. Hér hefur verið prentað upp þingskjalið með brtt. frá því sem það var í alla nótt þar til umræðu lauk en breytingin felur það í sér að einn af flm., hv. þm. Guðjón Guðmundsson, er ekki lengur flm. Ég vil spyrja hæstv. forseta að því: Er hægt að breyta þannig brtt. eftir að umræðu er lokið?