Brunatryggingar

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 14:17:32 (3342)


[14:17]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Eins og fleiri hafa gert grein fyrir þá tel ég að það geti engan veginn gengið að lögfesta með skýrum hætti eins og hér er lagt til mismunun af því tagi sem þarna á að innleiða. Það getur ekki staðist að menn greiði áratugum saman fjárhæðir vegna trygginga miðað við tiltekinn gjaldstofn en eigi svo ekki rétt í vissum tilvikum nema stórlega skertum bótum borið saman við aðra. Lögleiðing slíks misréttis inn í okkar löggjöf hlýtur að orka stórkostlega tvímælis gagnvart jafnréttisákvæðum stjórnarskrár og jafnræðisreglum almennt hvort sem heldur er í mannréttindaákvæðum stjórnarskrár eða annars staðar. Ég held að það sé algerlega óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, að það verði athugað mjög rækilega milli umræðna hvort þetta mál er yfir höfuð afgreiðslutækt eins og það er úr garði gert. Ég sé enga knýjandi nauðsyn á að afgreiða þetta mál á þessu þingi og segi því nei.