Brunatryggingar

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 14:20:08 (3344)


[14:20]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það ákvæði sem hér er verið að lögfesta í 2. gr. er ákvæði sem nú er í reglugerð þannig að þetta ákvæði hafi ótvíræða stoð í lögum. Það var ákveðið að setja það inn í þetta lagafrv. Sú breyting sem þarna er gerð er að mínu viti að nokkru leyti réttarbót frá því sem áður var þar sem þeim sem urðu fyrir tjóni var gert skylt, ef þeir vildu fá bætur greiddar eða að það tjón sem þeir yrðu fyrir væri greitt af tryggingafélagi, þá þurfti viðkomandi að reisa íbúð aftur á sama stað og áður hafði verið og var það forsenda fyrir því að menn fengju bæturnar útgreiddar. Það sem verið er að gera með þessu ákvæði hér og setja í lög er að nú er heimilt að víkja frá þessu ákvæði og greiða þeim út sem verða fyrir tjóni, kjósi þeir af einhverjum ástæðum að koma sér upp íbúðarhúsnæði á öðrum stað. Í þessu ákvæði sem hér um ræðir felst því að mínu viti nokkur réttarbót.