Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 15:55:48 (3375)

[15:55]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Í aðdraganda umræðu um þetta mál var rætt allnokkuð um formlega hlið þessa frv. og ég vil við upphaf míns máls undirstrika það að hér er mjög óeðlilega að staðið varðandi einstaka þætti í uppsetningu málsins af hálfu stjórnvalda og verið að flytja hér inn undir heitinu frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1995 ýmis ákvæði sem taka til miklu lengri tíma eða eru ótímabundin eins og þau eru fram sett í þessu frv. eða varða ekki ríkisfjármálin sem slík og að því leyti er meginfyrirsögn þessa máls röng. Það hefði jafnvel mátt sleppa með lítilli viðbót að vera að brjóta á þessu formlega eins og stundum hefur verið gert þegar svokallaðir bandormar hafa verið lagðir fyrir þingið að skeyta við skammstöfuninni o.fl., og fleira, en ekki teldi ég það út af fyrir sig vera til þess að bæta málið. Það er mikil þörf á því að breyta til í sambandi við framlagningu mála af þessum toga og aðgreina í sérstökum frumvörpum þá þætti sem saman eiga með eðlilegum hætti en hér er verið að sulla saman í þessu frv. Mætti t.d. styðjast við efnisþætti sem eru afmarkaðir í sérstökum köflum eða finna sem sagt annað form sem er betra og eðlilegra og gefur bæði þingheimi og almenningi til kynna hvað um er verið að fjalla og auðveldar alla málsmeðferð. Ég ætla að öðru leyti ekki að fara að ræða þann úrskurð sem var ræddur undir

öðru formi áður en umræðan hófst, en ég tel að það sé mikil þörf á því að taka þessi mál til athugunar.
    Við meðferð þingnefndar á þessu máli hafa vissulega verið lagfærð örfá atriði og það er sjálfsagt að geta þess sem er til bóta án þess að ég ætli að fara að telja það upp í einstökum atriðum. Nokkur atriði sem þar er að finna í brtt. meiri hlutans og sem minni hlutinn styður sem er til lagfæringar og bóta eins og það að hætta við áform um að leggja af fjárveitingu til listskreytingasjóðs sem ekki var í upphaflegu frv. lengur, að finna heimild fyrir og lengingu á lánum til Ferðamálasjóðs svo dæmi séu tekin um lagfæringar sem horfa til bóta að mínu mati.
    Það eru hins vegar fjölmörg atriði sem tengjast þessu frv. sem þörf er á að gagnrýna og sem fram kemur í áliti minni hluta nefndarinnar og ég ætla ekki að fara að vitna til þess með beinum hætti. Það liggur fyrir og það hefur verið mælt fyrir því af framsögumanni þó að frestað hafi verið að fylgja því úr hlaði sem snýr sérstaklega að málefnum heilbr.- og trmrh. En það eru nokkur atriði sem ég vildi benda á og koma hér að og eitt af þeim var til umræðu áðan og kom fram að nokkru í orðaskiptum við frsm. minni hluta efh.- og viðskn. og hæstv. forsrh. áðan að því er snertir málefni héraðslæknanna sérstaklega. Ég ætla ekki að gera að sérstöku umræðuefni það sem snýr að almannatryggingum og breytingu á almannatryggingalögunum. Um það verður vafalaust fjallað í umræðunni af fleirum og hv. þm. Guðrún Helgadóttir hefur þegar vakið athygli á einum þætti þess máls sem varðar afnotagjöld útvarps og sjónvarps og er hér á mælendaskrá. Það er einnig að því vikið í áliti meiri hlutans að ekki sé ætlunin að skerða rétt þeirra bótaþega sem eiga rétt á niðurfellingu á afnotagjaldi útvarps og sjónvarps, stendur þar í áliti meiri hlutans, en hins vegar segir í framhaldi af því, með leyfi forseta:
    ,,Nauðsynlegt verður að endurskoða framkvæmd þessara mála í kjölfar þess að farið verður að greiða húsaleigubætur í stað uppbótar á lífeyri til þeirra sem greiða háa húsaleigu.``
    Eitthvað virðist það málum blandið af hálfu meiri hluta nefndarinnar hvernig búið sé um framkvæmd í þessum efnum og full þörf á því að farið sé nánar yfir þau efni við skoðun málsins í þessari umræðu og í framhaldi af henni.
    Ég tek einnig undir það sem fram hefur komið varðandi flugmálaþáttinn, flugmálaáætlun í þeim kafla frv. sem lýtur að því, 8. og 9. gr. frv. Þar er verið að fara inn á stefnu sem við hljótum að gagnrýna mjög ákveðið og harðlega að ætla sér að fara að skerða markaðan tekjustofn til framkvæmda í þágu flugmála í landinu og taka þar inn í rekstur einar 70 millj. kr. sem á að fara að taka af rekstrarfé til flugmála í landinu og svo taka til rekstrar í flugvalla og annað sem lýtur að undirbúningi framkvæmda samkvæmt flugmálaáætlun. Þetta er stefnubreyting frá því sem verið hefur til skerðingar á mörkuðum tekjustofni. Þetta snertir ekki síst landsbyggðina sem notar innanlandsflug meira en höfuðborgarbúar. Hér hefur verið vakin athygli á því að ekki er kveðið á um það hvort hér sé um tímabundna aðgerð fyrir árið 1995 að ræða eða hvort hér er verið að marka stefnu til lengri tíma og liggur fyrirspurn fyrir af hálfu hv. 1. þm. Vestf. til forseta um hver sé skilningur forseta í því máli. Ég tek undir það að mikil nauðsyn er á að skýra það við þessa umræðu hvert verið sé að fara að þessu leyti.
    Það er mikil óhæfa að mínu mati að ganga þannig inn á áður markaða stefnu í sambandi við öflun fjár til framkvæmda í flugmálum, skattlagningu sem almenningur hefur unað vel, a.m.k. mjög margir, vegna þess að það hefur tekist í krafti þeirrar fjáröflunar að lagfæra margt í flugrekstri hér og koma af stað og ljúka við mannvirki sem mikil nauðsyn var á. Og það munar um minna en heilar 70 millj. í þeim efnum, um það þarf ekki að fjölyrða.
    Virðulegur forseti. Það er rétt að benda einnig á það hversu ósmekklegt það er að vera að taka inn í þetta frv. og afgreiðslu þessa máls varðandi ríkisfjármálin breytingu eins og varðar meðferð og mat á sláturafurðum, algerlega óskylt mál sem er ágætt sýnishorn af því hvernig menn ganga til verks í þessum efnum að því er formið snertir. Efnislega ætla ég ekki að ræða það mál frekar.
    Ég ætla þá, virðulegur forseti, að víkja að þeim þætti sem ég geri aðallega að umræðuefni í tengslum við þetta frv. og þykir vænt um að hæstv. forsrh. er viðstaddur í fjarveru hæstv. heilbrrh. En það er mjög sérkennilegt að hæstv. heilbrrh. sem á jafnmikið efnislega undir í þessu máli skuli ekki vera viðstaddur hér á þingfundi til þess að svara fyrir og fylgjast með í þeirri umræðu. Í sérstökum kafla í frv. er að finna breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu með síðari breytingum og það er sérstaklega ákvæði 5. gr. í sambandi við héraðslækna sem ég ætla að gera að umtalsefni.
    Við framlagningu fjárlagafrv. var sú fyrirætlan hæstv. heilbrrh. og ríkisstjórnar kynnt að spara 8 millj. kr. með því að leggja af héraðslæknisembætti í Reykjavík, borgarlæknisembættið og héraðslæknisembættið í Norðurl. e. Ég lagði af því tilefni fram fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. til að fá fram rökstuðning af hálfu ráðherrans fyrir þessari aðgerð og fyrir liggur skriflegt svar hæstv. heilbrrh. um það efni. Ég tel hins vegar að hér sé um að ræða miklu stærra og víðtækara mál en þessi aðgerð að leggja af þessi tvö héraðslæknisembætti og sá sparnaður sem þar fylgir. Það hangir þar mun meira á spýtunni og það sé mjög langt frá því að þetta mál snerti fyrst og fremst Reykjavíkurborg og starfsemi á vegum héraðslæknis þar eins og ætla mætti af því sem hefur komið fram í umræðunni. Þetta varðar einnig starfandi héraðslækni og embætti hans í Norðurl. e. en það varðar einnig almenna stefnumörkun í þessum málum sem Alþingi hefur fjallað um á undanförnum þingum og samþykkt ítrekað að leggja inn á nýja braut einmitt til þess að styrkja svæðisbundna stjórn, héraðsstjórn í sambandi við heilsugæslumálefni undir embætti héraðslækna. Þær ályktanir sem Alþingi hefur samþykkt í þessum efnum ganga sem sagt í þveröfuga átt við þá stefnu sem

hér er verið að biðja um uppáskrift fyrir og ég vil nota tækifærið til þess að vekja alveg sérstaka athygli á því.
    Ég vil, virðulegur forseti, leyfa mér að rifja upp ályktun Alþingis frá 7. febr. 1991 um skrifstofur heilbrigðismála í kjördæmum landsins. Samþykkt Alþingis samhljóða gerð er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa að komið verði á fót í kjördæmum landsins á næstu fjórum árum skrifstofum heilbrigðismála sem sinni m.a. verkefum fyrir héraðslækna, heilbrigðismálaráð og Tryggingastofnun, svo og fjárhagslegri og faglegri áætlanagerð og eftirliti með heilbrigðisþjónustu á svæðinu.``
    Þessi ályktun þingsins byggðist á tillögu sem ég var flm. að og lagði fram á tveimur þingum og á þinginu 1990--1991 var þessi tillaga afgreidd með lítils háttar breytingu og samþykkt efnislega samhljóða á Alþingi. Í aðdraganda þessa máls var umræða sem fram fór eftir breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að því er varðaði heilbrigðismál í landinu, skipan heilbrigðismála í landinu en eins og menn rekur minni til var með breyttri verkaskiptingu og lögum nr. 87/1989 farið inn á þá braut að ríkið tók við heilsugæslu í landinu sem áður var að hluta á hendi sveitarfélaganna. Þessi breyting leiddi óhjákvæmilega til þess að óbreyttu að verkefni í heilbrigðisþjónustu á vegum ríkisins fari vaxandi og flytjist í auknum mæli til Reykjavíkur, sérstaklega yfirstjórn þeirra mála. Því taldi ég og þeir sem studdu þetta mál nauðsynlegt að samræma stjórn heilbrigðismálanna í kjölfar þessarar breytingar á verkaskiptingu og styrkja svæðisbundna stjórn í læknishéruðum sem að mestu fylgja kjördæmaskipan í landinu. Um þetta efni var fjallað á tveimur þingum samtaka sveitarfélaga haustið 1989 á Austurlandi og á Vestfjörðum og samþykktur stuðningur við stefnu í þá veru sem Alþingi síðan lagði blessun sína yfir með áðurnefndri þál. Og í erindi sem Stefán Þórarinsson, héraðslæknir á Austurlandi, flutti á þingi Sambands ísl. sveitarfélaga haustið 1989 rökstuddi hann á greinargóðan hátt þörfina á því að koma á slíkri samræmdri skipan á heilbrigðisþjónustunni til þess að andæfa gegn þeirri miðstýringu sem fólst í yfirtöku ríkisins á málaflokknum að öðru leyti. Stefán Þórarinsson, héraðslæknir og heilsugæslulæknir á Egilsstöðum, sagði á nefndum fundi, með leyfi forseta, örstutt tilvitnun:
    ,,Á þeim tímamótum sem heilbrigðisþjónustan stendur nú á eru tveir valkostir. Annar að láta hlutina vera óbreytta og þá halda verkefnin áfram að færast frekar suður á bóginn eða taka upp þá stefnu að gera heilbrigðismálaráðin virk í kjördæmunum og efla þannig stjórn heilbrigðisþjónustunnar sem þar er veitt og reyna að auka þjónustu innan fjórðungsins, t.d. á sviði sérfræðiþjónustu.``
    Margt fleira lagði hann gott og gilt til málanna í þessu erindi sínu en ég læt þessa örstuttu tilvitnun nægja. Samþykktir þessara sveitarstjórna í þessum tveimur landshlutum liggja fyrir og styðja þá stefnu sem ég var hér að rifja upp.
    Ég leyfði mér á þingi 1992 að inna þáv. og reyndar núv. hæstv. heilbrrh. eftir því hvað aðhafst hefði verið í framhaldi af ályktun Alþingis frá árinu 1991 um skrifstofur heilbrigðismála í kjördæmum landsins. Og í skriflegu svari hæstv. ráðherra sagði svo, með leyfi forseta:
    ,,Heilbrrh. skipaði með bréfi, dags. 25. sept. 1991, nefnd til að endurskoða lög nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu.`` Síðan er talið upp hverjir voru skipaðir í nefndina og segir síðan: ,,Var nefndinni falið að hafa áðurnefnda þingsályktun til hliðsjónar við endurskoðunina og er ráðuneytinu kunnugt um að svo hefur verið gert. Nefndin hefur ekki lokið störfum.``
    Þetta voru svörin sem þá fengust en það liggur ekkert fyrir og hefur ekkert verið framreitt í sambandi við þá tillögu sem nú er um að leggja af störf héraðslæknanna hvað hafi komið fram hjá þessari stjórnskipuðu nefnd í þeim málum. Ég hef ekki farið yfir álit nefndarinnar en mér býður í grun að þar sé að finna allt aðra stefnumörkun en þá sem hér er fram borin.
    Ég vil einnig leyfa mér, virðulegur forseti, að vitna til samþykktar Alþingis um íslenska heilbrigðisáætlun sem gerð var fyrir þinglok 1991, 19. mars 1991 eða röskum mánuði eftir að umrædd samþykkt hafði verið gerð. Þetta var stjórnarmálefni en stutt af öllum þingflokkum á Alþingi og átti raunar upptök hjá heilbrrh. Sjálfstfl. í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar líklega 1985 eða 1986. Það var þáv. hæstv. ráðherra Ragnhildur Helgadóttir sem lét hefja vinnu að gerð slíkrar stefnumörkunar um íslenska heilbrigðisáætlun og síðan fylgdu málinu eftir fleiri ráðherrar heilbrigðismála, m.a. Guðmundur Bjarnason, hæstv. heilbrrh. í ríkisstjórn 1988--1991 og var starfandi heilbrrh. þegar þessi samþykkt var gerð. En alþingismenn og fyrrv. ráðherrar lýstu ánægju með þessa samþykkt um íslenska heilbrigðisáætlun og þar í tölulið 5 í þessari áætlun segir svo, með leyfi, virðulegi forseti:
    ,,Í samræmi við ályktun Alþingis frá 7. febr. 1991 verði á næstu fjórum árum komið á fót skrifstofum heilbrigðismála í öllum kjördæmum landsins og sinni þær m.a. verkefnum fyrir héraðslækna, heilbrigðismálaráð og Tryggingastofnun, svo og fjárhagslegri og faglegri áætlanagerð og eftirliti með heilbrigðisþjónustu á svæðinu.``
    Það var mjög mikil vinna lögð í þetta mál á vegum þáv. félmn. Alþingis sem ég var formaður fyrir á þessum tíma en vann þar í góðri samvinnu við stjórnarliða og stjórnarandstöðu að koma þessu máli í höfn, með verulegum breytingum frá upphaflegri tillögu vissulega. Meðal þeirra sem þar störfuðu vel að málum var hv. þm. Sólveig Pétursdóttir sem var þá fulltrúi í þessari nefnd og um þetta tókst prýðileg samstaða, þar á meðal um að taka þetta atriði sem Alþingi hafði áður fjallað um inn í áætlunina.
    Mér finnst alveg nauðsynlegt, virðulegi forseti, að það komi fram varðandi þetta atriði sérstaklega hvað Alþingi hefur ályktað, hvernig Alþingi hefur fjallað um þennan þátt á fyrri stigum, hvað hefur verið ályktað um og hvaða undirtektir liggja þar fyrir. Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að því að það er mjög ríkur áhugi á því að hverfa að þeirri skipan sem ég hef verið að rekja úti í umdæmunum, sem að mestu falla saman við kjördæmi landsins, m.a. með því að styrkja starfsemi héraðslæknanna og fella undir heilbrigðisskrifstofur í kjördæmunum einnig þætti sem varða Tryggingastofnun og annað fleira. Slíkt væri ótvírætt til að vega á móti þeirri miklu miðstýringu sem vissulega felst í núverandi skipan mála með heilsugæslumálin á hendi ríkisins að mestu undir einu ráðuneyti í Reykjavík og á þess vegum. Margt hefur verið sagt um embættisfærslu sem tengist heilbrigðismálunum á undanförnum mánuðum og á liðnu ári. Ég ætla ekki að rekja það en ég tel að það væri málaflokknum í heild til mikils framdráttar ef menn hyrfu að því ráði að koma upp þessari svæðisbundnu stjórn, auðvitað í náinni samvinnu við ráðuneyti þessara mála þannig að ekki vinni eitt á móti öðru heldur vinni menn saman að því að færa málin til hins besta horfs.
    Heilbrigðismálaráðin sem kosin hafa verið lögum samkvæmt úti í umdæmunum hafa verið máttlausar stofnanir vegna þess að þeim hefur ekki verið búin starfsaðstaða og þó að héraðslæknar, sem hefur verið ætlað að sinna verkefnum þó næsta lítt skilgreindum utan þeirra sem hér er sérstaklega um fjallað að leggja eigi niður, þ.e. borgarlækni í Reykjavík og héraðslækni í Norðurlandi eystra, hafi reynt að liðsinna þeim hafa þeir vissulega enga aðstöðu haft til að gera það eins og þörf væri á þannig að heilbrigðismálaráðin yrðu eitthvað meira en nafnið og gætu í rauninni komið fram með gildar og vel unnar tillögur sem snerta heilsugæslu á viðkomandi svæðum.
    Svo er þess að geta að lokum varðandi þetta efni að fyrir liggur á þskj. 189 skriflegt svar frá núv. heilbr.- og trmrh. við fyrirspurn minni um breytingar á embættum héraðslækna, þetta er 60. mál núverandi þings. Þar segir að vísu í svari hæstv. ráðherra að það eigi ekki formlega að leggja niður embætti héraðslækna. Því er svarað neitandi en ótvírætt liggur það fyrir í þeirri stefnu sem er mörkuð með þessu frv. að efnislega er verið að leggja það til þó að það sé ekki slegið af með formlegri lagabreytingu en þó felst í frv. sem vafalaust verður túlkað sem mjög ákveðið skref í þá átt þar sem segir í 5. gr.:
    ,,Ráðherra skipar einn af starfandi heilsugæslulæknum héraðsins sem héraðslækni til fjögurra ára í senn.`` Hér er náttúrlega verið að svipta héraðslæknisembættin sjálfstæði sínu sem sjálfstæðri starfsemi eins og það hefur verið í gildi fram að þessu, bæði á grundvelli laga og í reynd.
    Ég vil að endingu, virðulegi forseti, vænta þess og þá m.a. með vísan til þeirra orða sem féllu af munni hæstv. forsrh. áðan í umræðu að þessi þáttur frv. verði tekinn til efnislegrar endurskoðunar áður en frv. verður afgreitt á þinginu. Ég teldi það mjög miður fyrir heilbrigðismálin ef sú stefna gengi fram sem hér er mörkuð. Ég tel í rauninni þörf á allt öðru en það verði gert og menn þurfi af fullri alvöru að fara yfir þær samþykktir sem þingið hefur gert í góðri trú og samhljóða á undanförnum fáum árum, bæði varðandi heilbrigðisáætlun til ársins 2000 og í sérstakri samþykkt sem varðar styrkingu héraðslæknisembættanna og uppbyggingu í kringum embættin til þess að gera þeim kleift að ná tökum á þessum þýðingarmikla en kostnaðarsama málaflokki þar sem miklu varðar að fjármunum sé vel varið.