Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 16:28:09 (3588)


[16:28]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hér fór ekkert á milli mála. Ég var ekkert að hafa það af ráðherra að honum bæri að leggja þessa áætlun fyrir og ráðherrann, eins og hér kom fram, er sammála mér um að það er ekkert sem skyldar þingið til þess að afgreiða þessa vegáætlun sem hér liggur fyrir, ekkert sem skyldar þetta þing til þess enda líða ekki nema fáeinar vikur þar til nýtt þing kemur saman, nýr meiri hluti skapast á Alþingi um stjórn landsins sem er að sjálfsögðu eðlilegt að marki stefnu í þessu máli og taki til við mótun langtímaáætlunar í vegamálum í samræmi við sinn vilja en ekki sé verið að reyna að mundanga hlutunum hér í gegn með þeim hætti sem hugmyndin virðist vera. Ég treysti því satt að segja að nógu margir þingmennir landsbyggðarinnar verði til þess að leggjast á sveif með okkur sem gagnrýnum þessi vinnubrögð til þess að tryggja að ekki verði farið eftir vilja ráðherrans í þessu efni. Hér er verið að flytja fjármagn af mörkuðum tekjum Vegasjóðs í ríkum mæli til höfuðborgarsvæðisins þannig að á fjögurra ára tímabili verða það um 40% af framkvæmdafé til vegamála sem á að koma í lóg hér á þessu eina svæði, þessum eina bletti á landinu á meðan önnur verkefni eru látin bíða, einhver brýnustu verkefnin sem varða byggðaþróun í landinu.