Vegáætlun 1995--1998

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 12:55:24 (5126)


[12:55]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það sætir dálitlum tíðindum að hv. 3. þm. Austurl. er að koma hér til þess að hæla sér yfir verkum og vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar sem gekk fram hjá stjórnarandstöðunni 1992 þegar allir voru sammála um að það væri ágætt mál að auka fjármagn til vegaframkvæmda og braut þær hefðir og vinnubrögð sem hafa verið í góðu gildi um árabil. Á þeim tíma varð ég ekki var við að hv. þm. væri sérstaklega stoltur yfir þeim verkum, að ganga í þau verk með ríkisstjórninni. Ég held að ég eigi ýmislegt bókað um það úr hans máli á þeim tíma. Ég held að það sé ekki skynsamlegt sem hér er verið að innleiða, að ætla að skipta þinginu upp eins og hér er verið að gera af ríkisstjórninni með þeim vinnubrögðum sem hér eru innleidd og sem hv. þm. ber ábyrgð á. Það getur vel verið að hann haldi að hann fái gott orð í eyra fyrir þetta á Austurlandi. Ég á ekki von á því. Ég held að þegar menn sjá hvað hér blasir við, hvernig hér er haldið á máli, þá verði það ekki þær kveðjur sem hv. þm. geti vænst af því fólki sem hefur trúað honum fyrir umboði á Alþingi.