Ferill 17. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 17 . mál.


17. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og lögum nr. 9/1984, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri, með síðari breytingum.

Flm.: Árni R. Árnason, Einar K. Guðfinnsson.



Breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt,


með síðari breytingum.


1. gr.


    Á eftir orðunum „sem við á“ í 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I, sbr. 23. gr. laga nr. 111/1992, um breytingar í skattamálum, (frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri), kemur: svo og stofnfjárbréf í stofnfjársjóðum sparisjóða samkvæmt lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði.

Breyting á lögum nr. 9/1984, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna


fjárfestingar manna í atvinnurekstri, með síðari breytingum.


2. gr.


    Við B-lið 2. mgr. 2. gr. bætast orðin: enn fremur kaup á stofnfjárbréfum í stofnfjársjóðum sparisjóða samkvæmt lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði.

Gildistaka.


3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda á gjaldaárinu 1995 vegna fjárfestinga á árinu 1994.

Greinargerð.


    Með lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, er samþykkt voru á 116. löggjafarþingi, var kveðið á um að allir sparisjóðir verði stofnfjársjóðir með takmarkaðri ábyrgð. Stofnfé verði lagt fram af stofnendum sem verði eigendur stofnfjárhluta og verði ábyrgð hvers og eins takmörkuð við inngreidda stofnfjáreign hvers þeirra um sig. Starfandi sparisjóðum veittist þriggja ára frestur til að breyta samþykktum, þannig að stofnfé komi í stað ábyrgða samkvæmt eldri lögum, og fá stofnfjárframlög frá ábyrgðarmönnum og/eða öðrum í þeirra stað ellegar til viðbótar þeim. Með þeim lögum er stefnt að eigin fjármögnun sparisjóða með sambærilegum hætti og eigin fjármögnun hlutafélagabanka, þ.e. með sama hætti hjá almenningshlutafélögum.
    Í lögunum er m.a. kveðið á um rétt og takmörkun á rétti stofnfjárhluta, eða stofnfjárhlutabréfa og stofnfjáreigenda. Er hann þar markaður með sambærilegum hætti og er um hlutabréf og hluthafa í hlutafélögum, í lögum um hlutafélög og í lögum um tekjuskatt og eignarskatt um skattalega meðferð hlutafjár, arðs og endurmats. Á það við um takmörkun ábyrgðar við inngreidda stofnfjáreign sem fyrr er nefnd, arð af innborguðu stofnfé, skattalega meðferð stofnfjár og arðs, endurmat og skattalega meðferð endurmats.
    Í gildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt er hins vegar ekki ráðgert að stofnendur og aðrir er leggja fram stofnfé í sparisjóði fái heimild til að draga frá tekjum sínum vegna þeirrar fjárfestingar með sama hætti og heimilt er þeim sem leggja fram hlutafé í samvinnufélögum og hlutafélögum, þar á meðal viðskiptabönkum sem eru hlutafélög, þ.e. hlutafélagabönkum.
    Réttmætt virðist að sparisjóðum verði veitt sömu réttindi til að stofnfjáreigendur fái frádregna frá skattskyldum tekjum fjárfestingu í sparisjóðum eins og í hlutafélögum og samvinnufélögum og þannig opnaðir möguleikar til að afla eigin fjár með sölu stofnfjárbréfa er standist samkeppni við hlutabréf og samvinnuhlutabréf sem fjárfestingarvalkostur.
    Liðlega þrjátíu sparisjóðir starfa hérlendis. Þeir undirbúa nú allir útgáfu og sölu stofnfjárbréfa til að afla eigin fjár í samræmi við ákvæði laganna nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði. Við þann undirbúning hefur komið í ljós að með því ganga sparisjóðirnir til samkeppni við hlutafélög, þar á meðal hlutafélagabanka, um ávöxtun fjárfestingar þeirra sem bréfin kaupa og skattaleg réttindi þeirra vegna hennar. Við núgildandi ákvæði standast stofnfjárbréf sparisjóðanna ekki þann samanburð. Til að tryggja áframhaldandi starfsgrundvöll sparisjóðanna og jafnræði við viðskiptabankana er brýnt að gera bragarbót á skattalegum réttindum þeirra er kaupa stofnfjárbréf sparisjóðanna.
    Í ákvæðum gildandi laga um frádrátt frá tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri með kaupum á hlutabréfum eða samvinnuhlutabréfum er gerð sú krafa að engar hömlur verði lagðar á frjáls viðskipti með bréfin. Við athugun á því hvort réttmætt muni að gera sömu kröfu til sparisjóðanna er nauðsynlegt að gæta samræmis hvað varðar kvaðir eða skyldur og réttindi. Sparisjóðirnir starfa nær allir samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 15. gr. laganna nr. 43/1993, þ.e. innan afmarkaðs landsvæðis eða héraðs, og skulu því eigendur stofnfjárbréfa vera búsettir eða reka atvinnu eða aðra starfsemi á því svæði. Er því ekki unnt að gera þá kröfu að engar hömlur verði lagðar á frjáls viðskipti með stofnfjárbréf þeirra, né heldur getur það samrýmst hagsmunum þeirra.