Ferill 44. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 44 . mál.


44. Frumvarp til laga



um lánskjör og ávöxtun sparifjár.

Flm.: Eggert Haukdal, Matthías Bjarnason, Páll Pétursson,


Kristín Ástgeirsdóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Guðrún Helgadóttir,


Jón Kristjánsson, Árni R. Árnason, Ingi Björn Albertsson.



1. gr.


    Frá og með 1. janúar 1995 er óheimilt að verðtryggja fjárskuldbindingar, þar með talin inn- og útlán í bankakerfinu, skuldabréf, verðbréf o.fl., enda verði lánskjaravísitalan lögð niður.

2. gr.


    Við gildistöku þessara laga falla úr gildi ákvæði VII. kafla, 34.–47. gr., laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., svo og önnur lagaákvæði er kunna að stríða gegn lögum þessum.

3. gr.


    Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd laga þessara.

4. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1995.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er hér flutt í áttunda sinn. Síðast var það flutt á 117. löggjafarþingi.
    Verðtrygging fjárskuldbindinga samkvæmt lánskjaravísitölu hefur þegar gengið sér til húðar, enda komið á daginn að atvinnuvegirnir bera hana ekki. Greiðslustöðvanir og gjaldþrot fyrirtækja, raunar einnig heimila, hafa farið hraðvaxandi. Áframhaldandi hrun og atvinnuleysi er fram undan ef ekki er gripið í taumana.
    Fyrirheit, sem gefin voru með verðtryggingu fjárskuldbindinga, um samdrátt útlána, minni erlendar lántökur og aukinn sparnað, hafa öll brugðist eins og hagskýrslur bera með sér.
    Lánskjaravísitalan er meiri verðbólguvaldur en aðrar vísitölur þar sem byggingarkostnaður er innifalinn, en hann er háður mestum sveiflum í hagkerfinu. Vinnulaun eru og reiknuð í vísitölunni en ein afleiðing þess er sú að sérhver kjarabót launþega er jafnharðan af þeim tekin með sjálfkrafa hækkun skulda af íbúðalánum. Kaupgjaldsvísitalan hefur þegar verið afnumin með lögum og því ekki siðferðilega stætt á því að halda lánskjaravísitölunni.



Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Þegar lög þessi öðlast gildi er gert ráð fyrir að viðskiptabankar, sparisjóðir og aðrar innlánsstofnanir, sem veita viðtöku fé til ávöxtunar, taki upp þá reglu, sem viðgengst í öðrum vestrænum ríkjum, að greiða vaxtaauka á bundin spariinnlán til eins árs eða lengur ef gildandi vextir eru lægri en nemur verðbólgu. Útgjöld vegna vaxtaaukans eru þá fjármögnuð með fé sem inn kemur við vaxtalækkun á hlaupareikningum, ávísanareikningum og almennum sparisjóðsbókum er notast sem viðskiptareikningar. Talið er af sérfræðingum í banka- og peningamálum að 90–95% rekstrarkostnaður í viðskiptabanka fari í að þjónusta þessa reikninga og fyrir þá þjónustu ber eigendum þeirra að greiða með lágum vöxtum af slíkum innlánum.
    Langtímaútlán verða hins vegar samkvæmt viðtekinni reglu erlendis háð breytilegum vöxtum. Er þá ýmist heimilt að breyta vaxtaprósentunni innan ákveðinna marka (t.d. 2–4%) eða binda hana í t.d. þrjú ár og láta hana síðan fylgja gildandi vöxtum á hverjum tíma.
    Verðtrygging fjárskuldbindinga er ekki lengur við lýði í viðskiptalöndum okkar sem við erum að aðlagast. Þau ríki, sem reyndu verðtryggingu (Finnland, Ísrael og að takmörkuðu leyti Bretland og Svíþjóð), hafa hætt henni. Enginn grundvöllur er því lengur fyrir verðtryggingu hér. Við getum ekki varið það að verðtryggja skuldir en ekki kaupgjald láglaunafólksins sem á að borga skuldirnar.
    Ísland hefur ekki efni á að raska því jafnvægi í kjaramálum og verðlagi sem náðist með þjóðarsátt. Atvinnuvegirnir þola ekki nýja vaxtaskrúfu af völdum lánskjaravísitölu eins og þá er varð 1982–90 þegar skuldauppsöfnunin náði 100 milljörðum kr. hjá útgerð og fiskvinnslu. Það er grunnorsök vandans í dag, ekki aflasamdráttur sem oft hefur verið meiri án þess að valda sambærilegum erfiðleikum.
    Það er út í hött að gera verðtryggingu frjálsa að vali lánveitenda og lántakenda. Hinir fyrrnefndu ráða ferðinni þannig að verðtryggingin yrði í reynd áfram lögþvinguð.
    Það knýr á um afnám verðtryggingar að samkomulag er um að skattleggja fjármagnstekjur eins og aðrar tekjur. Er þá hendi næst að bankar og sparisjóðir innheimti skattinn fyrir ríkissjóð eins og gert er í öðrum löndum. Hann reiknast á nafnvexti enda ógerningur að greina í hverju einstöku tilfelli á milli verðbótaþáttar og raunvaxta. (Ef verðbólga er umtalsverð má hins vegar til mótvægis lækka skattprósentuna.)

..........



    Þegar málið var til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis á síðasta þingi barst nefndinni skýrsla Seðlabankans, dags. 21. mars 1994, þar sem reynt er að andæfa einstökum atriðum frumvarpsins.
    Í skýrslunni er fyrst vikið að annarri skýrslu, Vaxtamyndun á fjármagnsmarkaði, sem gefin var út af viðskiptaráðherra í október 1993. Sú skýrsla kvað verðtryggingu enn gegna mikilvægu hlutverki og taldi það sjónarmið túlka stefnu stjórnvalda. Þetta er ekki rétt, enda er viðskiptaráðherrann annar nú, og þess utan eru flutningsmenn frumvarpsins að þessu sinni bæði úr stjórnar- og stjórnarandstöðuflokkum. Viðurkennt er og í seðlabankaskýrslunni að draga beri úr notkun verðtryggingar við skuldbindingar til skamms tíma. Það er vissulega spor í rétta átt.
    Hitt er alrangt að fjármagnsmarkaðurinn eigi sjálfur að þróa kjör sín og skilmála. Heilbrigður efnahagur og stöðugleiki verður aðeins tryggður með náinni samvinnu peningastjórnar og ríkisfjármála. Einnig er rangt að víðtækari verðtrygging hér en með öðrum þjóðum helgist af langvarandi verðbólguþróun og fullkomnara verðtryggingarkerfi. Önnur Evrópuríki hafa lengi búið og búa enn við verðbólgu og þau þeirra sem verðtryggðu fjárskuldbindingar um tíma (Finnland, Ísrael o.fl.) tryggðu kaupgjald samhliða. Það er ekki gert hér og af þeim sökum er okkar kerfi með öllu ótækt. Þar eiga við orðin „löglegt en siðlaust“.
    Sú fjarstæða kemur fram í Seðlabankaskýrslunni að afnám verðtryggingar hérlendis muni leiða til fjárflótta. Hvert eiga menn að flýja með fé sitt þegar verðtrygging er hvergi við lýði nema í vanþróuðum ríkjum Suður-Ameríku? Staðreyndin er þvert á móti sú að sömu lánskjör verða að gilda hér og í viðskiptalöndum okkar ef fjármagnsstreymi á að haldast frjálst til frambúðar. Slagorð peningahyggjunnar um markaðslögmálin og jafnvægisvexti eru ekki svaraverð.
    Þá er á bls. 2 í skýrslunni hneykslast á eftirfarandi setningu í 1. gr. frumvarpsins: „enda verði lánskjaravísitalan lögð niður“. Verið sé að setja fram bann í aukasetningu! Langt er seilst í rökræðunni þegar málstaðurinn er veikur. Í 1. gr. frumvarpsins er verðtrygging fjárskuldbindinga gerð óheimil, svo sem sjá má hér að framan. Af því leiðir eðlilega að lánskjaravísitalan verði lögð niður. Enginn grundvöllur er lengur fyrir henni. Skýrsluhöfundar telja lánskjaravísitöluna verndaða af stjórnarskránni. Þeir virðast gleyma því að henni hefur verið breytt til stórtjóns fyrir launþega. Kaupgjaldsbreytingar voru færðar inn í vísitöluna og það er þá líka stjórnarskrárbrot. Einnig hækka húsnæðisskuldir við hverja kjarabót launþega og væri rétt að launþegarnir könnuðu skaðabótarétt sinn.
    Skýrsluhöfundar virðast ekki skilja að aukin vaxtabyrði valdi atvinnuvegunum erfiðleikum. Vextir eru verð peninga sem fengnir eru að láni — allt verðið, raunvextir að viðbættum verðbótaþættinum. Taka verður mið af nafnvöxtunum sem að fullu leggjast við rekstrarkostnað fyrirtækja. Þeim kostnaði er ekki unnt að mæta með hækkun afurðaverðs þegar selt er á erlendum mörkuðum. Þá er gripið til gengislækkana. Þær ónýttu ávinning sem sjávarútvegurinn reyndi að tryggja sér með því að breyta innlendum lánum í erlend. Nafnvextir jukust um tugi prósentna á 9. áratugnum og náðu hámarki árið 1983 er þeir urðu 77%. Sama ár tvöfölduðust skuldir heimilanna og er lánskjaravísitalan fullnægjandi skýring á því sem og á síðari hækkunum.
    Í seðlabankaskýrslu Jóns Sigurðssonar er sú fáránlega staðhæfing að notkun lánskjaravísitölu hafi dregið úr verðbólgu. Verðbólga jókst til muna með tilkomu hennar. Ólafslög komu ekki að fullu til framkvæmda fyrr en frá og með 1983. Þá tók verðbólgan heljarstökk er vísitala framfærslukostnaðar, árleg meðaltalshækkun, varð 84,28% og hélst hún há út allan 9. áratuginn. Skuldabyrðin olli greiðsluerfiðleikum bæði hjá fyrirtækjum og heimilum, svo og áður óþekktum fjártöpum banka. Allt þetta leiddi til hruns sem reynt var að leysa með þjóðarsátt 1990 að frumkvæði launþegasamtakanna.
    Íslenskir bankar verða að kynnast starfsháttum erlendra banka í viðskiptalöndum okkar og temja sér þá eins og bent er stuttlega á í greinargerðinni hér að framan. Að öðrum kosti mun okkur ekki takast að viðhalda fjármagnsfrelsi og efnahagsjafnvægi.
    Skattlagning fjármagnstekna er með öllu óframkvæmanleg ef hún á að ná til raunvaxta aðeins. Vinnan við það yrði dýrari en tekjunum næmi. Bankastjórar í Reykjavík hafa þegar gert grein fyrir þessu.
    Í heild er umrædd seðlabankaskýrsla tilraun til réttlætingar á alvarlegum pólitískum mistökum sem verðtrygging fjárskuldbindinga var.