Ferill 46. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 46 . mál.


46. Tillaga til þingsályktunar



um fjárframlög til stjórnmálaflokka.

Flm.: Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Einarsdóttir,


Anna Ólafsdóttir Björnsson, Guðrún J. Halldórsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa níu manna nefnd til að undirbúa löggjöf um fjárframlög til stjórnmálaflokka og stjórnmálasamtaka. Jafnframt verði nefndinni falið að leggja mat á það hvort nauðsyn beri til að setja lög um starfsemi stjórnmálaflokka að öðru leyti.
     Nefndina skipi fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi, fulltrúi félags­vísindadeildar Háskóla Íslands, fulltrúi Rannsóknastofnunar í siðfræði og fulltrúi Lögfræð­ingafélags Íslands auk fulltrúa frá fjármálaráðuneyti sem jafnframt sé formaður nefndarinn­ar.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var lögð fram og rædd á 117. löggjafarþingi en var ekki formlega afgreidd. Hins vegar gaf forsætisráðherra fyrirheit um stofnun nefndar til að fjalla um og undirbúa frumvarp til laga um fjárhagslegan stuðning við stjórnmálaflokka og þá þætti sem slíkum stuðningi tengjast. Fyrirheitið var gefið við 3. umr. á Alþingi um frumvarp til laga um breyt­ingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt 20. desember 1993 en þá samþykkti meiri hluti Alþingis að framlög fyrirtækja til stjórnmálaflokka væru frádráttarbær frá skatti. Kvennalist­inn greiddi atkvæði gegn þeirri tillögu, einn þingflokka, og taldi eðlilegt að fyrst yrðu mótað­ar reglur um starfsemi stjórnmálaflokka og þar með fjárhagslegan stuðning við þá. Í febrúar á þessu ári óskaði forsætisráðuneytið eftir tilnefningum fulltrúa í fyrrgreinda nefnd og til­nefndi Kvennalistinn fulltrúa sinn í nefndina í mars. Nefndin hefur ekki enn verið kölluð saman, 5. október.
    Þegar þessi tillaga var lögð fram á 117. löggjafarþingi fylgdi henni eftirfarandi greinar­gerð, lítillega breytt:
    Nokkur umræða hefur öðru hverju verið hér á landi um það hvort setja eigi lög um stjórn­málaflokka en langt er síðan um það hefur verið flutt þingmál. Eftir því sem næst verður komist var það síðast gert af Benedikt Gröndal sem lagði fram frumvarp til laga um stjórn­málaflokka veturinn 1975–76. Í greinargerð með frumvarpinu segir að það sé fyrst og fremst ætlað til þess að vekja umræðu. Sú umræða leiddi ekki til þess að frumvarpið yrði samþykkt. Síðar á sama þingi var samþykkt tillaga um skipun milliþinganefndar til að semja frumvarp til laga um réttindi og skyldur stjórnmálaflokka. Nefndin samdi frumvarp en það var aldrei lagt fram á Alþingi. Nánar verður gerð grein fyrir því í framsögu málsins.
    Síðustu missirin hefur komið fram hörð gagnrýni á það valdakerfi sem íslenska þjóðin býr við. Stjórnmálaflokkarnir eru þar ekki undanskildir og hefur gagnrýnin ekki síst beinst að því að um þá gilda ekki nein skýr lög eða reglur, hvorki varðandi fjárreiður né annað, og má m.a. minnast á áskorun átta háskólakennara frá 15. september 1993 sem birt er sem fylgi­skjal með tillögunni. Þar sem stjórnmálaflokkar og samtök eru tæki almennings til að hafa áhrif á stjórnkerfið er nauðsynlegt að eyða allri tortryggni um óeðlileg fjárhagsleg hags
munatengsl flokkanna við fjársterk fyrirtæki eða hagsmunasamtök.
    Í lögum nr. 62/1978 er kveðið á um bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka. Lög nr. 56/1971 kveða á um sérfræðilega aðstoð við þingflokka. Ekkert er hins vegar að finna í lögum um fjárframlög íslenskra aðila til stjórnmálaflokka. Þar sem það er eðlileg krafa að bókhald og fjárreiður stjórnmálaflokka og félagasamtaka þeirra séu öllum landsmönnum opin og aðgengileg er hér lagt til að Alþingi beiti sér fyrir því að lög og reglur kveði skýrt á um það.


Fylgiskjal.

Áskorun til formanna stjórnmálaflokkanna.


(15. september 1993.)



    Undanfarin missiri hafa nokkrir stjórnmálaflokkar í nálægum löndum þegið fé af fyrir­tækjum og hagsmunasamtökum í blóra við lög og reglur sem gilda um slík fjárframlög í þess­um löndum. Fréttir af vafasömum og stundum ólöglegum fjárframlögum til stjórnmálaflokka á Ítalíu, í Japan, Frakklandi og á Spáni og nú síðast í Bretlandi hafa vakið mikla athygli um allan heim. Bresku morgunblöðin Times og Guardian hafa krafist þess nýlega að gefnu tilefni að breski ríkisstjórnarflokkurinn geri grein fyrir þeim fjárframlögum sem hann tók á móti fyrir síðustu kosningar í landinu til að eyða grunsemdum um óeðlileg fjárhags- og hagsmuna­tengsl.
    Í flestum nálægum löndum gilda skýrar reglur eða lög um fjárreiður stjórnmálaflokka. Slíkum lögum og reglum er ætlað að vernda almenning gegn afleiðingum óeðlilegra fjárhags- og hagsmunatengsla á milli fjársterkra fyrirtækja, hagsmunasamtaka og stjórnmálaflokka. Þar hefur löggjafarvaldinu þótt rétt að reisa skorður við tilraunum fyrirtækja og hagsmuna­samtaka til að kaupa sér áhrif á vettvangi stjórnmálanna. Brot gegn slíkum lögum hafa leitt til víðtækrar hreingerningar í ítölskum og japönskum stjórnmálum að undanförnu og til af­sagnar margra háttsettra stjórnmálamanna þar og í öðrum löndum.
    Hér á Íslandi virðast á hinn bóginn ekki gilda neinar skýrar reglur eða lög um fjárreiður stjórnmálaflokkanna. Hér á landi er þó síst minni þörf fyrir slíka löggjöf en í öðrum löndum. Við undirritaðir kennarar í hagfræði og stjórnmálafræðum við Háskóla Íslands beinum því þeirri áskorun til formanna stjórnmálaflokkanna að
—    þeir geri grein fyrir því fé sem flokkarnir hafa tekið við undanfarin sjö ár, þar á meðal fjárframlögum í kosningasjóði flokkanna fyrir alþingiskosningarnar 1987 og 1991 og sömuleiðis fyrir sveitarstjórnarkosningar á sama tímabili;
—    þeir hlutist síðan til um að t.d. Ríkisendurskoðun ásamt óháðum endurskoðendum utan stjórnkerfisins verði falið að kanna hvort fjárframlög til flokkanna bendi til óeðlilegra fjárhags- og hagsmunatengsla að einhverju leyti og
—    þeir beiti sér loks fyrir því að setja skýrar reglur eða lög um fjárframlög til flokkanna til samræmis við lög og reglur í öðrum löndum með niðurstöður Ríkisendurskoðunar að leiðarljósi.

Með virðingu,



     Gunnar Helgi Kristinsson dósent.      Jón Ormur Halldórsson lektor.
     Ólafur Þ. Harðarson lektor.      Ragnar Árnason prófessor.
     Svanur Kristjánsson dósent.      Tór Einarsson dósent.
     Þorvaldur Gylfason prófessor.      Þórólfur Matthíasson lektor.