Ferill 47. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 47 . mál.


47. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson,


Guðrún J. Halldórsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Einarsdóttir.



1. gr.


    Við A-lið 1. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr töluliður er verði 1. tölul. og orðist svo:
    Iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga til viðurkenndra lífeyrissjóða.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er nú flutt í þriðja sinn af þingkonum Kvennalistans.
    Árið 1987 var tekin upp staðgreiðsla skatta. Frá þeirri lagabreytingu hafa landsmenn búið við tvísköttun á lífeyrissjóðsgjöld. Framlag launþega í lífeyrissjóði er skattlagt þegar hann myndar réttindi sín með inngreiðslum og lífeyrisgreiðslur til hans eru einnig skattlagðar þegar launastarfi lýkur.
    Þetta fyrirkomulag hefur í för með sér mikið óréttlæti. Álagning tekjuskatts, bæði við myndun sjóðsins og úttekt úr honum, er óeðlileg. Fólk leggur fyrir í lífeyrissjóði til þess að búa í haginn fyrir elliárin. Einstaklingur getur hins vegar lagt fyrir sparifé eða keypt ríkisskuldabréf og myndað þannig eigin lífeyrissjóð eins og segir í auglýsingu frá ríkissjóði. Tekjuskattur er greiddur við myndun eigin sparnaðar en ekki þegar peningarnir eru teknir út. Að þessu leyti er ólík skattaleg meðferð á frjálsum sparnaði og skyldusparnaði í lífeyrissjóði. Í þessu frumvarpi er lagt til að tekjuskattur verði aðeins greiddur einu sinni af sömu tekjunum.
    Ástæður þess að fremur er valið að hafa skattfrelsi við myndun sjóðsins en úttekt úr honum eru nokkrar:
     a. Ekki munu allir þeir sem greiða í lífeyrissjóð fá greiðslur úr honum. Hluti þeirra sem greiða í lífeyrissjóði lifa það ekki að njóta lífeyrisgreiðslna, jafnvel ekki heldur erfingjar þeirra. Enn aðrir fá aðeins lítinn hluta.
     b. Verða lífeyrissjóðirnir til eftir nokkra áratugi? Nokkur ótti er meðal fólks um það að eftir nokkra áratugi muni einhverjir lífeyrissjóðanna ekki hafa bolmagn til að standa undir skuldbindingum sínum. Allir vona að svo verði ekki, en fari svo munu aðeins þeir sem fá greiðslur úr sjóðunum greiða skatt af þeim. Hinir, sem mynduðu sjóðinn en fengu lítið eða ekkert, þyrftu a.m.k. ekki að greiða skatt af framlaginu ef þetta frumvarp verður samþykkt.
     c. Betri nýting persónuafsláttar á efri árum vegna nokkru lægri tekna. Þorri fólks hefur lægri tekjur á eftirlaunum en það hafði í fullu starfi eða það mundi hafa í sams konar starfi nú. Það eru því meiri líkur til þess að nýting persónuafsláttar á lífeyrisgreiðslur verði betri hjá eftirlaunaþeganum en þegar launþegi er að afla tekna til að skapa framlag sitt í sjóðinn.
     d. Hvetja þarf fólk til að mynda lífeyrissjóði. Langtímasparnaður og fyrirhyggja varðandi afkomu fólks eftir starfslok eru nauðsynleg ef hægt á að vera að lifa mannsæmandi lífi. Hvetja þarf til fyrirhyggju með skattfrelsi við myndun slíkra varasjóða. Það er full ástæða til að hvetja til að jafnvel enn stærri hluti verði lagður fyrir en nú er gert. Skattfrelsi er hluti af slíkri hvatningu. Það er ljóst að ríkissjóður mun ekki geta staðið undir mannsæmandi eftirlaunagreiðslum til fólks ef lífeyrissjóðirnir bregðast.
     e. Skattfrelsi á lífeyrisgreiðslur við útborgun getur falið í sér mismunun. Einstaklingar fá greiðslur úr mismunandi sterkum lífeyrissjóðum og framlag vinnuveitenda er mishátt. Ef lög væru þannig að allar lífeyrissjóðsgreiðslur til eftirlaunaþega væru skattfrjálsar hefði það í för með sér mikla mismunun því að endurgreiðslur eru mjög mismunandi. Allar tilraunir til að hafa skattfrelsið innan skynsamlegra marka kalla á mjög flóknar reglur. Einfaldasta leiðin og sú réttlátasta er því að hafa skattfrelsi við myndun sjóðsins.
    Mikil umræða hefur verið um þessi mál í þjóðfélaginu. Á 113. löggjafarþingi var samþykkt ályktun að frumkvæði Guðmundar H. Garðarssonar, svohljóðandi:
    „Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að gera könnun á skattalegri meðferð lífeyrissparnaðar og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar til að slíkur sparnaður njóti ekki lakari kjara en annar sparnaður í landinu.“
    Nýlega var lögð fram tillaga til þingsályktunar um afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum. Flutningsmenn eru þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins.
    Það er skoðun flutningsmanna þessa frumvarps að sú leið, sem hér er lögð til, sé einföld og sú réttlátasta sem kostur er á.