Ferill 29. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 29 . mál.


160. Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um álitsgerðir Háskóla Íslands um ESB-aðild.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig var orðuð beiðni ríkisstjórnarinnar til Háskóla Íslands um athugun á áhrifum aðildar Íslands að Evrópusambandinu (ESB).
    Hvernig var staðið að málinu innan Háskólans, m.a.:
         
    
    ákvörðun um það hvaða deildir eða stofnanir ynnu að málinu,
         
    
    ákvörðun um hvaða einstaklingar kæmu að málinu,
         
    
    samræmingu og mati á niðurstöðum?
    Hvaða einstaklingar unnu verkið á vegum einstakra stofnana Háskólans?
    Hvernig var staðið að og gengið frá lokaniðurstöðum stofnananna og hver ber ábyrgð á þeim?
    Hvað kostar umrædd verkbeiðni ríkisstjórnarinnar í heild og hvaða stofnanir og einstaklingar hafa hlotið greiðslur fyrir einstaka verkþætti og hversu háar?
    Hefur Háskóli Íslands mótað samræmdar reglur um hvernig sinnt skuli óskum um álit aðila utan skólans gegn gjaldi eða ókeypis og hvernig Háskólinn leggur nafn sitt við álitsgerðir, m.a. af pólitískum toga?

    Menntamálaráðuneyti svarar 1. spurningu og byggir á gögnum frá utanríkisráðuneyti.
Svör við 2.–5. spurningu koma frá þeim stofnunum Háskóla Íslands sem unnu að úttektinni. Rektor Háskóla Íslands svarar 6. spurningu.

Svar við 1. spurningu.
    Beiðni ríkisstjórnarinnar kom fram í tveimur bréfum frá viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytis til stofnana Háskóla Íslands. Hið fyrra var dags. 4. mars 1994, hið síðar 3. maí 1994. Bréfin hljóða svo:

Bréf utanríkisráðuneytis til stofnana Háskóla Íslands, dags. 4. mars 1994:
    Sent til:
    Alþjóðamálastofnun, b.t. Gunnars G. Schram.
    Félagsvísindastofnun, b.t. Stefáns Ólafssonar.
    Hagfræðistofnun, b.t. Guðmundar Magnússonar.
    Lagastofnun, b.t. Sigurðar Líndal.
    Sjávarútvegsstofnun, b.t. Arnar D. Jónssonar/Eyjólfs Guðmundssonar.

    Ríkisstjórnin ákvað í morgun að biðja ofangreindar stofnanir Háskóla Íslands að gera úttekt á því hvaða þýðingu það hefur fyrir Ísland:
    Að standa utan Evrópusambandsins (ESB) með hliðsjón að væntanlegri aðild annarra EFTA-ríkja og miðað við að viðskiptakjör samkvæmt EES-samningnum haldist óbreytt.
    Að gerast aðili að Evrópusambandinu.
    Alþjóðamálastofnun skoði áhrif á utanríkis- og varnarmál, Félagsvísindastofnun athugi áhrif á pólitíska ákvarðanatöku, Hagfræðistofnun kanni almenn efnahagsleg áhrif, m.a. á samkeppnisstöðu atvinnuveganna, Lagastofnun geri úttekt á áhrifum á fullveldishugtakið og stjórnskipan í landinu og Sjávarútvegsstofnun kortleggi afleiðingar sameiginlegrar fiskveiðistefnu ESB og áhrif á sjávarútveginn.
    Óskað er eftir niðurstöðum fyrir mitt ár. Geti ofangreindar stofnanir tekið þetta verkefni að sér eru þær beðnar að undirbúa drög að vinnuáætlun og kostnaðaráætlun. Boðað er til fundar í utanríkisráðuneytinu mánudaginn 14. mars nk., kl. 3, til þess að fara yfir tillögurnar.

    Undirritað f.h.r. af Pétri G. Thorsteinssyni, utanríkisráðuneyti, viðskiptaskrifstofu.

Bréf til stofnana Háskóla Íslands, dags. 3. maí 1994:

     Lagastofnun, b.t. Sigurðar Líndal, Háskóla Íslands, Lögbergi 101, Reykjavík.

    Vísað er í bréf ráðuneytisins, dags. 4. mars sl., svarbréf Lagastofnunar, dags. 30. mars, og frekari samtöl um gerð samanburðar á EES- og hugsanlegri ESB-aðild Íslands.
    Ráðuneytið hefur ákveðið að veita Lagastofnun styrk að upphæð 400.000 kr. í framangreint verkefni. Þess er óskað að stofnunin birti niðurstöður sínar 1. júlí nk. eða eins fljótt og unnt er eftir þann tíma. Stofnunin er beðin að leggja sérstaka áherslu á skoðun nauðsynlegra breytinga á stjórnarskrá ef til ESB-aðildar kæmi með tilliti til reynslu Dana, Norðmann og Svía.
    Ráðuneytið óskar eftir að fá afhent a.m.k. eitt pappírseintak af skýrslu stofnunarinnar og eitt eintak á tölvutæku formi. Ráðuneytinu verði heimilt að fjölfalda og dreifa skýrslunni (án endurgjalds vegna höfundaréttar stofnunarinnar).
    Vilji stofnunin þiggja framangreindan styrk í ofangreint verkefni er þess óskað að skrifleg staðfesting verði send ráðuneytinu (b.t. Benedikts Jónssonar) þar sem fram kemur bankareikningsnúmer og kennitala stofnunarinnar.

    Undirritað f.h.r. af Gunnari Snorra Gunnarssyni.

     Félagsvísindastofnun, b.t. Stefáns Ólafssonar, Háskóla Íslands, Odda, 101 Reykjavík.

    Vísað er í bréf ráðuneytisins, dags. 4. mars sl., svarbréf Félagsvísindastofnunar, dags. 21. mars, og frekari samtöl um gerð samanburðar á EES- og hugsanlegri ESB-aðild Íslands.
    Ráðuneytið hefur ákveðið að veita Félagsvísindastofnun styrk að upphæð 500.000 kr. í framangreint verkefni. Þess er óskað að stofnunin birti niðurstöður sínar 1. júlí nk. eða eins fljótt og unnt er eftir þann tíma. Stofnunin er beðin að leggja sérstaka áherslu á möguleika Íslands til þess að hafa áhrif á ákvarðanatöku í málefnum sem varða helstu hagsmunamál landsins sem aðili að EES annars vegar og ESB hins vegar. Æskilegt er að stofnunin hafi samráð við Alþjóðamálastofnun til þess að forðast skörun við verkefni hennar.
    Ráðuneytið óskar eftir að fá afhent a.m.k. eitt pappírseintak af skýrslu stofnunarinnr og eitt eintak á tölvutæku formi. Ráðuneytinu verði heimilt að fjölfalda og dreifa skýrslunni (án endurgjalds vegna höfundaréttar stofnunarinnar).
    Vilji stofnunin þiggja framangreindan styrk í ofangreint verkefni er þess óskað að skrifleg staðfesting verði send ráðuneytinu (b.t. Benedikts Jónssonar) þar sem fram kemur bankareikningsnúmer og kennitala stofnunarinnar.

    Undirritað f.h.r. af Gunnari Snorra Gunnarssyni.

     Sjávarútvegstofnun, b.t. Arnar D. Jónssonar, Háskóla Íslands, Tæknigarði, Dunhaga 5, 107 Reykjavík.

    Vísað er í bréf ráðuneytisins, dags. 4. mars sl., svarbréf Sjávarútvegsstofnunar, dags. 18. mars, og frekari samtöl um gerð samanburðar á EES- og hugsanlegri ESB-aðild Íslands.
    Ráðuneytið hefur ákveðið að veita Sjávarútvegsstofnun styrk að upphæð 500.000 kr. í framangreint verkefni. Þess er óskað að stofnunin birti niðurstöður sínar 1. júlí nk. eða eins fljótt og unnt er eftir þann tíma. Stofnunin er beðin að leggja sérstaka áherslu á styrkjakerfi ESB í sjávarútvegi og áhrif á samkeppnisstöðu Íslands gagnvart Noregi. Æskilegt er að stofnunin hafi samráð við Hagfræðistofnun til þess að forðast skörun við verkefni hennar.
    Ráðuneytið óskar eftir að fá afhent a.m.k. eitt pappírseintak af skýrslu stofnunarinnar og eitt eintak á tölvutæku formi. Ráðuneytinu verði heimilt að fjölfalda og dreifa skýrslunni (án endurgjalds vegna höfundaréttar stofnunarinnar).
    Vilji stofnunin þiggja framangreindan styrk í ofangreint verkefni er þess óskað að skrifleg staðfesting verði send ráðuneytinu (b.t. Benedikts Jónssonar) þar sem fram kemur bankareikningsnúmer og kennitala stofnunarinnar.

    Undirritað f.h.r. af Gunnari Snorra Gunnarssyni.

     Hagfræðistofnun, b.t. Guðmundar Magnússonar, Háskóla Íslands, Odda, 101 Reykjavík.

    Vísað er í bréf ráðuneytisins, dags. 4. mars sl., svarbréf Hagfræðistofnunar, dags. 29. mars, og frekari samtöl um gerð samanburðar á EES- og hugsanlegri ESB-aðild Íslands.
    Ráðuneytið hefur ákveðið að veita Hagfræðistofnun styrk að upphæð 1.400.000 kr. í framangreint verkefni. Þess er óskað að stofnunin birti niðurstöður sínar 1. júlí nk. eða eins fljótt og unnt er eftir þann tíma. Stofnunin er beðin að leggja sérstaka áherslu á styrkjakerfi ESB og áhrif landbúnaðarstefnu ESB á Íslandi. Æskilegt er að stofnunin hafi samráð við Sjávarútvegsstofnun til þess að forðast skörun við verkefni hennar.
    Ráðuneytið óskar eftir að fá afhent a.m.k. eitt pappírseintak af skýrslu stofnunarinnar og eitt eintak á tölvutæku formi. Ráðuneytinu verði heimilt að fjölfalda og dreifa skýrslunni (án endurgjalds vegna höfundaréttar stofnunarinnar).
    Vilji stofnunin þiggja framangreindan styrk í ofangreint verkefni er þess óskað að skrifleg staðfesting verði send ráðuneytinu (b.t. Benedikts Jónssonar) þar sem fram kemur bankareikningsnúmer og kennitala stofnunarinnar.

    Undirritað f.h.r. af Gunnari Snorra Gunnarssyni.

     Alþjóðamálastofnun, b.t. Gunnars G. Schram, Háskóla Íslands, Lögbergi, 101 Reykjavík.

    Vísað er í bréf ráðuneytisins, dags. 4. mars sl., svarbréf Alþjóðamálastofnunar, dags. 17. mars, og frekari samtöl um gerð samanburðar á EES- og hugsanlegri ESB-aðild Íslands.
    Ráðuneytið hefur ákveðið að veita Alþjóðamálastofnun styrk að upphæð 400.000 kr. í framangreint verkefni. Þess er óskað að stofnunin birti niðurstöður sínar 1. júlí nk. eða eins fljótt og unnt er eftir þann tíma. Stofnunin er beðin að leggja sérstaka áherslu á áhrif Íslands í alþjóðlegu samstarfi innan og utan ESB. Æskilegt er að stofnunin hafi samráð við Félagsvísindastofnun til þess að forðast skörun við verkefni hennar.
    Ráðuneytið óskar eftir að fá afhent a.m.k. eitt pappírseintak af skýrslu stofnunarinnar og eitt eintak á tölvutæku formi. Ráðuneytinu verði heimilt að fjölfalda og dreifa skýrslunni (án endurgjalds vegna höfundaréttar stofnunarinnar).
    Vilji stofnunin þiggja framangreindan styrk í ofangreint verkefni er þess óskað að skrifleg staðfesting verði send ráðuneytinu (b.t. Benedikts Jónssonar) þar sem fram kemur bankareikningsnúmer og kennitala stofnunarinnar.

    Undirritað f.h.r. af Gunnari Snorra Gunnarssyni.

Svar við 2. spurningu.
     Alþjóðamálastofnun:
    Sjá hjálagða verkbeiðni ráðuneytisins.
    Ákvörðun stjórnar stofnunarinnar.
    Sama og í b-lið.
     Félagsvísindastofnun:
    Erindið barst beint frá verkbeiðanda til Félagsvísindastofnunar.
    Forstöðumaður stofnunarinnar fól þremur aðilum umsjón með framkvæmd verksins og réð að auki sérfræðing í viðfangsefninu til að vinna og skrifa skýrsluna.
    Samræming og mat á niðurstöðum var einfaldlega hluti af gerð og frágangi skýrslunnar af hálfu höfundar og umsjónarmanna.
     Hagfræðistofnun:
    Verkbeiðni frá utanríkisráðherra var beint til ákveðinna stofnana Háskóla Íslands.
    Ákvörðun forstöðumanns og stjórnar Hagfræðistofnunar.
    Sama og í b-lið.
     Lagastofnun:
    Samkvæmt verkbeiðni frá utanríkisráðuneytinu.
    Enn er unnið að skýrslu Lagastofnunar og því er ekki unnt að svara b- og c-lið að svo stöddu.
     Sjávarútvegsstofnun:
    Beiðni utanríkisráðuneytisins var beint til ákveðinna stofnana. Samið var um verkþætti og greiðslur.
    Myndaður var vinnuhópur um verkefnið og verkum skipt milli manna í vinnuhópnum í samræmi við sérsvið þeirra.
    Óskað var eftir því að Hagfræðistofnun og Sjávarútvegsstofnun hefðu samráð sín á milli og var það gert.

Svar við 3. spurningu.
     Alþjóðamálastofnun:
    Gústaf Adolf Skúlason, stjórnmálafræðingur.
     Félagsvísindastofnun:
    Ragnar Kristjánsson skrifaði skýrsluna fyrir Félagsvísindastofnun. Hann hefur lokið BA-prófi í stjórnmálafræði frá HÍ og framhaldsnámi til MA-gráðu í Englandi þar sem hann sérhæfði sig í stjórnskipulagsmálum Evrópusambandsins. Umsjónarmenn af hálfu stofnunarinnar voru dr. Gunnar Helgi Kristinsson, dr. Ólafur Þ. Harðarson og dr. Stefán Ólafsson (í stafrófsröð).
     Hagfræðistofnun:
    Jón Þór Sturluson hagfræðingur, Ingólfur Bender hagfræðingur, dr. Jón Daníelsson lektor og Þórólfur Matthíasson lektor.
     Sjávarútvegsstofnun:
    Vinnuhópur á ábyrgð stjórnar.

Svar við 4. spurningu.
     Alþjóðamálastofnun:
    Skýrsluhöfundur safnaði gögnum og heimildum um viðfangsefnið og skrifaði skýrsluna um það. Stjórn stofnunarinnar hafði umsjón með samræmingu og frágangi skýrslu og samþykkti afhendingu hennar.
    Í stjórninni eru: Gunnar G. Schram prófessor, stjórnarformaður, Gunnar Helgi Kristinsson dósent, Guðmundur Magnússon prófessor, Gísli Ágúst Gunnlaugsson dósent og Róbert Trausti Árnason ráðuneytisstjóri.
     Félagsvísindastofnun:
    Skýrsluhöfundur safnaði gögnum um viðfangsefnið og skrifaði skýrsluna um það. Umsjónarmenn voru honum til aðstoðar við skipulagningu verksins og lásu yfir handritið af skýrslunni á ýmsum stigum og einnig í endanlegum búningi. Stofnunin ber að sjálfsögðu ábyrgð á skýrslunni.
     Hagfræðistofnun:
    Forstöðumaður, Guðmundur Magnússon, prófessor, hafði umsjón með samræmingu og frágangi skýrslu og tók ákvörðun um hvenær hún skyldi send til verkbeiðanda.
     Sjávarútvegsstofnun:
    Sjávarútvegsstofnun skilar niðurstöðum í sínu nafni og bera forstöðumaður, Örn D. Jónsson, og stjórn stofnunarinnar ábyrgð á þeim.
    Stjórn stofnunarinnar skipa: Ragnar Árnason prófessor, stjórnarformaður, Gísli Pálsson prófessor, Logi Jónsson dósent, Páll Jensson prófessor og Valdimar K. Jónsson prófessor.

Svar við 5. spurningu.
    Ríkisstjórnin veitti samtals 2,8 millj. kr. í styrki til stofnana Háskóla Íslands vegna úttektarinnar.
     Alþjóðamálastofnun:
    Fjárveiting til verksins var 400 þús. kr. og var hún öll greidd starfsmanni stofnunarinnar við verkið.
     Félagsvísindastofnun:
    Utanríkisráðuneytið veitti Félagsvísindastofnun 500 þús kr. til verksins og gekk upphæðin öll til greiðslu á launum fyrir vinnu Ragnars Kristjánssonar. Umsjónarmönnum var ekki greitt fyrir vinnu sína.
     Hagfræðistofnun:
    Uppgjör liggur ekki fyrir af hálfu Hagfræðistofnunar. Samið var um ákveðna greiðslu fyrir verkið, 1.400 þús. kr.
     Sjávarútvegsstofnun:
    Stofnuninni voru greiddar 500 þús. kr. fyrir sinn verkþátt í formi styrks.

Svar við 6. spurningu.
    Þegar stofnunum Háskóla Íslands berast beiðnir um álitsgerðir eða aðrar verkbeiðnir hefur reglan verið sú að þeim sé heimilt að nota nafn Háskólans í tengslum við útgáfur sínar, en forstöðumaður og stjórnir stofnananna beri jafnframt fulla ábyrgð á þeim. Háskóli Íslands hefur ekki mótað nánari reglur um hvernig samskiptum stofnana og verkbeiðenda skuli háttað.