Ferill 192. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 192 . mál.


215. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um fæðingarorlof, nr. 57/1987, með síðari breytingum.

Flm.: Kristín Einarsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Ágústa Gísladóttir,


Kristín Ástgeirsdóttir, Guðrún J. Halldórsdóttir.



1. gr.


    1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Foreldrar, sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi, eiga rétt á níu mánaða fæðingarorlofi frá fæðingu barns.

2. gr.


    3. gr. laganna orðast svo:
    Barnshafandi kona á rétt á fæðingarorlofi einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag fram að fæðingardegi. Staðfesta skal áætlaðan fæðingardag með læknisvottorði. Fæðingarorlof samkvæmt þessari grein er óháð fæðingarorlofi sem tekið er eftir fæðingu barns skv. 2. gr.

3. gr.


    1. málsl. 5. gr. laganna orðast svo: Ættleiðandi foreldrar, uppeldis- eða fósturforeldrar eiga rétt til níu mánaða fæðingarorlofs vegna töku barns að fimm ára aldri þess.

4. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Fæðingarorlof skal vera sjö mánuðir frá gildistöku þessara laga til 1. janúar 1995. Fæðingarorlof skal vera átta mánuðir frá þeim tíma til 1. janúar 1996.
    Fæðingarorlof ættleiðandi foreldra, uppeldis- eða fósturforeldra skal vera sjö mánuðir frá gildistöku þessara laga til 1. janúar 1995, en átta mánuðir frá þeim tíma til 1. janúar 1996.

Greinargerð.


Tilgangur þessa lagafrumvarps er að lengja fæðingarorlof eftir fæðingu úr sex mánuðum í níu og að tryggja öllum barnshafandi konum einn mánuð sem hvíldartíma fyrir fæðingu.
Það er enginn vafi á því að bættar aðstæður foreldra ungbarna skila sér margfalt til baka til þjóðfélagsins í formi betra mannlífs, betri heilsu og færri félagslegra vandamála. Að öðru leyti vísast til greinargerðar með frumvarpi til breytingar á lögum um almannatryggingar sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Fæðingarorlof eftir fæðingu skal verða níu mánuðir. Í bráðabirgðaákvæði segir að orlofið skuli lengjast í þrepum, þ.e. nú þegar í sjö mánuði, frá 1. janúar 1995 í átta mánuði og frá 1. janúar 1996 í níu mánuði.

Um 2. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um þá nýbreytni að barnshafandi kona eigi rétt á fæðingarorlofi mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Kona, sem tekur fæðingarorlof einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag en á barn sitt fyrir tímann, fær fæðingarorlof samkvæmt þessari grein fram að fæðingunni, en eftir fæðinguna tekur við fæðingarorlof skv. 2. gr. laganna. Ef kona gengur með barn fram yfir áætlaðan fæðingardag er hún í orlofi samkvæmt þessari grein fram að fæðingardegi, en eftir það tekur hún fullt orlof skv. 2. gr. laganna. Þessi mánuður fyrir fæðingu er ætlaður sem hvíldartími fyrir barnshafandi konur og óheimilt er að bæta honum við fæðingarorlof eftir fæðingu.
    Beri fæðingu að meira en einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag hefst þegar fæðingarorlof skv. 2. gr. laganna og konan getur ekki nýtt fæðingarorlof samkvæmt þessari grein.

Um 3. gr.


    Í þessari grein er verið að samræma lengd fæðingarorlofs ættleiðandi foreldra, uppeldis- og fósturforeldra lengd fæðingarorlofs annarra foreldra. Við gildistöku þessara laga yrði það sjö mánuðir til 1. janúar 1995 en þá yrði það átta mánuðir og 1. janúar 1996 yrði það níu mánuðir.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.