Ferill 26. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 26 . mál.


218. Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Sigurðar Hlöðvessonar um átak í fráveitumálum sveitarfélaga.

    Má vænta þess að stjórnvöld standi við það markmið sitt, sem sett er fram í ritinu „Á leið til sjálfbærrar þróunar“, að framkvæmdir í fráveitumálum verði hafnar um land allt eigi síðar en árið 1995?
    Samkvæmt 6. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, eru hreinlætismál, þar á meðal skolpeyðing, meðal verkefna sveitarfélaganna. Það er því ekki hlutverk ríkisvaldsins að annast framkvæmdir í fráveitumálum. Stefna ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum er sett fram í ritinu „Á leið til sjálfbærrar þróunar“ frá í mars 1993 og í 110. tölul. á bls. 30 segir:
    „Verið er að ljúka úttekt á fráveitum í sveitarfélögum landsins og unnið er að stefnumörkun um úrbætur.
    Stuðlað verður að því að framkvæmdir í frárennslismálum verði hafnar um land allt ekki síðar en árið 1995.“
    Í nóvember 1993 skilaði fráveitunefnd umhverfisráðuneytisins, sem skipuð var 12. febrúar 1992, greinargerð og skýrslu til umhverfisráðherra. Í nefndinni áttu sæti auk fulltrúa ráðuneytisins fulltrúi tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Siglingamálastofnun ríkisins, Hollustuvernd ríkisins og Samtökum tæknimanna sveitarfélaga. Varðandi störf og tillögur nefndarinnar vísast í skýrslu umhverfisráðuneytisins frá nóvember 1993.
    Samkvæmt framangreindu er þegar lokið úttekt á fráveitum í sveitarfélögunum og hafa mörg þeirra þegar hafið undirbúning beinna framkvæmda. Á vegum umhverfisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis er unnið að tillögum um með hvaða hætti ríkisvaldið geti stutt sveitarfélögin með fjárstyrkjum til framkvæmda. Er að vænta tillagna þar að lútandi á næstu dögum sem umhverfisráðherra mun ræða í ríkisstjórn.

    Mun ráðherra fylgja málinu eftir, eins og lagt er til í skýrslu fráveitunefndar umhverfisráðuneytisins, með því að fara fram á að ríkið veiti sveitarstjórnum styrk til framkvæmda í fráveitumálum?
    Umhverfisráðherra hefur þegar lýst yfir stuðningi við tillögur fráveitunefndar.

    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1995 er gert ráð fyrir 5 millj. kr. til átaks í fráveitumálum. Hvernig hyggst ráðherra ráðstafa þeim 5 millj. kr.? Telur hann að þar með sé hafið raunverulegt átak í fráveitumálum?
    Umhverfisráðherra hyggst ráðstafa hluta þessara fjármuna til þróunarvinnu sem miðar að því að leysa vanda minni sveitarfélaga við sjávarsíðuna, enn fremur láta vinna nánari leiðbeiningar um framkvæmd umhverfisvöktunar á vegum sveitarfélaganna og hefja grunnvöktun sem síðar tengist vöktun einstakra sveitarfélaga í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Þótt með þessu verði ekki varið fé til beinna framkvæmda er hér um nauðsynlegan aðdraganda að ræða. Það er mjög mikilvægt fyrir sveitarfélög að þessi grunnvinna, sem telst til raunverulegs átaks í fráveitumálum, verði vel af hendi leyst þannig að auðvelda megi leit að hentugustu og hagkvæmustu lausnum við úrbætur í fráveitumálum einstakra sveitarfélaga og spara þannig verulegar fjárhæðir vegna beinna framkvæmda síðar meir.