Ferill 214. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 214 . mál.


242. Tillaga til þingsályktunar



um að styrkja rekstur minni sjúkrahúsa í dreifbýli.

Flm.: Guðmundur Bjarnason, Jón Kristjánsson, Stefán Guðmundsson.



    Alþingi ályktar að fela heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að láta nú þegar gera úttekt á því með hvaða hætti hægt sé að styrkja rekstur minni sjúkrahúsa í dreifbýlinu og nýta sem best þá fjárfestingu, tækjabúnað og sérhæfðan mannafla sem þar er til staðar.
    Tillögur um hlutverk og verkefni þessara sjúkrahúsa verði unnar í samráði við for svarsmenn þeirra á grundvelli úttektarinnar og staðfestar af heilbrigðis- og trygginga málaráðuneytinu.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á lokadögum 117. löggjafarþings en fékkst ekki rædd. Er hún því lögð fram að nýju óbreytt.
    Í nóvembermánuði 1993 skilaði vinnuhópur um málefni sjúkrahúsa tillögum sínum til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um skipan sjúkrahúsmála. Vinnuhópur þessi var skipaður af Sighvati Björgvinssyni heilbrigðisráðherra í apríl 1992 og var verkefni hans að „greina störf og rekstur sjúkrahúsa og gera tillögur um skipan sjúkrahúsmála“, eins og segir í skýrslu hópsins. Þar er einnig greint frá því að ráðherra hafi skipað sérstakan hóp til að gera tillögur um samvinnu Landspítala og Borgarspítala og því hafi „vinnuhópur um sjúkrahúsmál“ einkum lagt áherslu á greiningu sjúkrahúsþjónustu dreifbýlisins.
    Skemmst er frá því að segja að tillögur þessar hlutu í upphafi óblíðar viðtökur hjá ýmsum þeim sem málið varðaði og hefur ráðherra lítið veifað skýrslunni síðan, sbr. fskj. I–IX. Sumir telja sjálfsagt að það geri ekki mikið til og að skýrslan sé best geymd á skúffubotni í heilbrigðisráðuneytinu. Flutningsmenn þingsályktunartillögu þessarar telja hins vegar ekki að svo sé. Kemur þar einkum tvennt til.
    Í fyrsta lagi munu tillögur af því tagi sem settar eru fram í skýrslunni hafa óbein áhrif á þróun mála á næstu árum ef ekki er tekin ákveðin afstaða til tillagnanna, með eða á móti. Þegar forsvarsmenn stofnana þeirra, þar sem draga á úr rekstri og/eða breyta hlut verki, sækja á stjórnvöld og fjárveitingavald um fé til að fjárfesta eða viðhalda húsnæði, tækjum og búnaði má búast við að svör yfirvalda verði þau að uppi séu hugmyndir um breytingar á rekstri viðkomandi stofnana og því ekki tímabært að ráðast í framkvæmdir. Það mun síðan smátt og smátt leiða til þess að stofnanirnar og búnaður þeirra úreldist og þjónusta dregst saman á óskipulegan hátt. Fyrir þessu má finna dæmi nú þegar við af greiðslu erinda frá sjúkrahúsum á landsbyggðinni við afgreiðslu fjárlaga yfirstandandi árs. Það er með öllu óviðunandi að þróunin verði með þessum hætti og því mjög brýnt að hraða þeirri úttekt og tillögugerð sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir.
    Hin ástæðan fyrir því að skýrsluna verður að skoða og taka til hennar afstöðu er sú að í henni eru vissulega margvíslegar og mikilvægar upplýsingar sem nýta má til að fylgja eftir þeirri hugsun sem sett er fram í þingsályktunartillögu þeirri sem hér er flutt.
    Á undanförnum árum og allt fram til þessa dags hafa stjórnvöld verið að byggja upp betri og fjölþættari heilbrigðisþjónustu um allt land. Utan höfuðborgarsvæðisins hefur megináherslan verið á uppbyggingu fullkominna heilsugæslustöðva en auk þess hafa ver ið byggð og endurbætt nokkur minni sjúkrahús með röntgenbúnaði og rannsóknaaðstöðu, fæðingardeildum og nokkuð vel búnum skurðstofum. Að þessum heilbrigðisstofnunum hefur verið ráðið vel menntað og sérhæft starfsfólk sem hefur lagt metnað sinn í að byggja upp og treysta þjónustu þessara stofnana eftir því sem aðstæður og aðbúnaður hefur frekast gert kleift. Þá komu skyndilega og óvænt fram í dagsljósið í umræddri skýrslu hugmyndir stjórnvalda um að snúa nú algjörlega við blaðinu og gjörbreyta rekstr arverkefnum og hlutverki þessara stofnana. Ekkert samráð var haft við forsvarsmenn minni sjúkrahúsanna eða byggðarlaganna þar sem þau eru starfrækt, svo vitað sé, og áttu þau ekki fulltrúa í nefndinni. Af slíkri byltingu í þjónustu, sem hér er boðuð, hlýtur að leiða umtalsverða röskun á högum íbúa á viðkomandi svæðum með óþægindi, fyrirhöfn og ómældan kostnað í för með sér og auk þess tilflutning á sérmenntuðu starfsfólki stofn ananna af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins sem af þessum tillögum mundi leiða.
    Í skýrslu sinni telur nefndin að með breyttu hlutverki sjúkrahúsanna, eins og lagt er til, megi í tímans rás spara allt að 800 millj. kr. Að vísu gæti kostnaður aukist við frekari þörf á dvalarrými, aukið vaktaálag heilsugæslulækna og ferðir og farþjónustu sérfræð inga. Þennan kostnaðarauka telur nefndin þó vart verða yfir 100 millj. kr. og „þess þannig vænst að spara megi allt að 700 millj. kr. þegar tillögurnar eru komnar að fullu til framkvæmda“, svo að vitnað sé orðrétt í skýrsluna.
    Ekki skal farið ítarlega í kostnaðarútreikninga en fullyrða má að kostnaðaraukinn sé vanáætlaður auk þess sem margvíslegur annar kostnaður hlýst af tillögum nefndarinnar. Má þar t.d. nefna fyrirhöfn, ferðakostnað og vinnutap, ekki aðeins sjúklinga heldur og oft einnig aðstandenda sem fylgja þurfa sjúklingum um langan veg til að leita þeirrar þjón ustu sem áður var veitt í heimabyggð. Auk þess er ekki ólíklegt að í einhverjum tilvikum þurfi viðkomandi að flytja búferlum til að vera nær nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, að ógleymdri þeirri röskun og kostnaði sem fylgir búferlaflutningi starfsfólks. Einnig hlýtur það að liggja fyrir og vera öllum ljóst að kostnaður við aðgerð, sem á annað borð er hægt að framkvæma á þessum sjúkrahúsum, er minni þar en á stóru sjúkrahúsunum, auk þess sem hver legudagur þar er miklu ódýrari. Er ekki hægt að sjá að tillit sé tekið til þessa í skýrslunni. Því miður virðist svo sem hér sé, eins og svo oft áður, aðeins horft á einn þátt málsins í stað þess að reyna að gera sér grein fyrir heildaráhrifunum þegar leitað er leiða til hagræðingar, aðhalds og sparnaðar sem mjög er í tísku um þessar mundir og ekki skal gera lítið úr. Stjórn og stjórnendur Sjúkrahúss Skagfirðinga hafa sent frá sér ítarlega út tekt um málið sem þeir kalla „Gagnrýni á tillögur um skipan sjúkrahúsmála“, sjá fskj. X.
    Flutningsmönnum er vel ljóst að tækninni fleygir hratt fram á sviði heilbrigðismála og kröfur um að eiga völ á bestu þjónustu við bestu aðstæður, bæði af hálfu starfsfólks og notenda heilbrigðisþjónustunnar, eru eðlilegar og skiljanlegar. Sérhæfðasta þjónustan er mjög kostnaðarsöm og bæði er vitað og viðurkennt að hún verður ekki veitt nema á stærstu og fullkomnustu sjúkrahúsunum.
    Tillagan gengur hins vegar út á það að í ljósi þeirra upplýsinga sem fyrir liggja og með það í huga að nýta sem best þá uppbyggingu sem þegar hefur átt sér stað verði gerð ítarleg úttekt á því hvaða þjónustu hægt sé að veita áfram á minni sjúkrahúsunum í dreif býlinu. Taka skal tillit til þess að fyllsta öryggis sé gætt og að þjónustan sem veitt er sé eins góð og eðlilegt er að gera kröfu um. Í stað þess að flytja nánast alla sérhæfða sjúkrahúsþjónustu til Reykjavíkur og Akureyrar verði stefnt að því að viðhalda þessum stofnunum, húsnæði og tækjabúnaði, til að veita skilgreinda þjónustu með vel menntuðu og hæfu starfsfólki sem þar er til staðar. Síðan verði gerðir samningar við stærri og fjölhæfari sjúkrahúsin, svo og sérfræðinga og annað sérhæft starfsfólk, um að veita viðkomandi sjúkrahúsum viðbótarþjónustu og framkvæma þar ýmsar aðgerðir sem t.d. gætu flokkast sem biðlistaaðgerðir og ekki þarfnast mjög flókins eða sérhæfðs búnaðar. Samninga yrði að gera við sérfræðinga um að fara á viðkomandi staði með reglulegu millibili, greina sjúkdóma og ákveða meðhöndlun. Í einhverjum tilvikum þyrfti ef til vill hóp fólks („teymi“) öðru hvoru, jafnvel með sérhæfðan búnað, til að framkvæma aðgerðir sem ekki flokkast sem bráðaaðgerðir.
    Minnt skal á hlutverk þessara sjúkrahúsa sem bráðasjúkrahús, t.d. þegar slys ber að höndum, hvort heldur er á sjó eða landi, en þau hafa þá oft reynst nauðsynlegur hlekkur í öryggis- og heilbrigðisþjónustu landsmanna.
    Pétur Heimisson, yfirlæknir sjúkrahúss og heilsugæslustöðvarinnar á Egilsstöðum, hefur tekið saman „Greinargerð um sérfræðilega heilbrigðisþjónustu í Egilsstaðalæknis héraði og á Austurlandi almennt“ þar sem fram koma ýmis sjónarmið er flutningsmenn geta tekið undir og telja í samræmi við þá stefnumörkun sem hér er boðuð. Greinargerð Péturs Heimissonar er birt sem fylgiskjal með leyfi höfundar, sjá fskj. XI.
    Eðlilegt má telja að fela Ríkisspítölum sem sjúkrahúsi allra landsmanna að ríða á vað ið með gerð samstarfssamninga. Má benda á að þegar hafa Ríkisspítalar/Landspítali og St. Jósefsspítali í Hafnarfirði gert með sér rammasamning um samstarf af svipuðu tagi og hér eru settar fram hugmyndir um, sjá fskj. XII. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, sem er sjúkrahús með fjölbreytta sérfræðiþjónustu, gæti verið samstarfsaðili við minni sjúkrahús í næsta nágrenni og hefur nú þegar komið til tals að FSA og Sjúkrahúsið á Húsavík hefji viðræður um samstarfssamning.
    Alþingi samþykkti þingsályktun 19. mars 1991 um íslenska heilbrigðisáætlun og segir í inngangi hennar:
    „Alþingi ályktar að stefna í heilbrigðismálum á Íslandi fram til ársins 2000 skuli taka mið af heilbrigðisáætlun þeirri sem hér er sett fram í 32 liðum og hefur það að markmiði að bæta heilsufar þjóðarinnar.“
    Í 4. lið segir svo:
    „Setja skal reglur um flokkun sjúkrastofnana, verkaskiptingu og starfssvið og gera þar skýran greinarmun á sérhæfðu sjúkrahúsi, almennu sjúkrahúsi og hjúkrunarheimili.
    Setja skal reglur um þjónustusvæði og hlutverk einstakra sjúkrahúsa og um mönnun þeirra.“
    Í 24. lið er einnig fjallað um hlutverk sjúkrahúsa og tengsl sérfræðiþjónustu, sjúkra húsa og heilsugæslustöðva. Þar segir m.a.:
    „Gæðum sérfræðiþjónustu sjúkrahúsa skal haldið og þau aukin eftir því sem kostur er.
    Tengsl milli sérfræðiþjónustu sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva skulu aukin og bein tengsl tekin upp milli heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa að þessu leyti.
    Tengslum verði komið á milli sérfræðinga sem starfa á sjúkrahúsum og heilsugæslu umdæma þannig að ákveðið sjúkrahús hafi umsjón með sérfræðiþjónustu á ákveðnu heilsugæslusvæði.“
    Að endingu segir í 33. lið: „Áætlun þessa skal endurskoða að þremur árum liðnum.“
    Auk þess sem hér er nefnt eru fjölmörg önnur atriði í Íslenskri heilbrigðisáætlun sem rétt er að hafa í huga verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt og eðlilegt er að hafa til hliðsjónar við úttektina og tillögugerðina.
    Að lokum má minna á að nú liggur fyrir Alþingi til umfjöllunar og afgreiðslu tillaga að stefnumótandi byggðaáætlun 1994–1997. Með tillögunni var dreift riti Byggða stofnunar „Breyttar áherslur í byggðamálum“. Tillagan er borin fram af forsætisráðherra. Í riti Byggðastofnunar er m.a. lagt til að reynt verði að meta hvaða svæði landsbyggðar innar geti talist til vaxtarsvæða og með hvaða hætti ríkisvaldinu eða einstökum stofnun um þess verði gert kleift að efla þau sérstaklega. Forsenda fyrir eflingu vaxtarsvæðanna er talin vera aukin áhersla á samræmda uppbyggingu opinberrar þjónustu á landsbyggð inni og markviss fyrirgreiðsla við uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni. Þá er og rætt um tilflutning stofnana og verkefna hins opinbera til vaxtarsvæðanna. Í sjálfri tillög unni að ályktun Alþingis segir m.a. svo: „Stefnt er að því að draga ekki úr þeirri opinberu þjónustu á vegum ríkisins sem nú er veitt á landsbyggðinni“, og síðar: „Opinber þjónusta og starfsemi opinberra stofnana verði aukin á landsbyggðinni en dregin saman á höfuð borgarsvæðinu að sama skapi.“
    Með hliðsjón af framansögðu er þess vænst að tillaga þessi fái skjóta og farsæla af greiðslu og vart verður öðru trúað en að heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn leiti allra leiða til að framfylgja þeirri stefnu sem sett er fram í tillögu forsætisráðherra um áherslur í byggðamálum. Ætti framkvæmd þeirrar þingsályktunar sem hér er gerð tillaga um að vera lóð á þá vogarskál.


Fylgiskjal I.

Ályktun Læknafélags Norðausturlands.


(10. janúar 1994.)



    Stjórn Læknafélags Norðausturlands mótmælir harðlega þeim niðurskurðar- og sam dráttartillögum sem fram komu í áliti vinnuhóps um sjúkrahúsmál í nóvember sl. þar sem lagður er til stórfelldur verkefnaflutningur til stærri sjúkrahúsa undir yfirskyni sparnaðar sem teljast verður illa rökstuddur í meira lagi. Í skýrslunni er lítið gert úr öryggissjónar miðum sem hingað til hafa vegið þungt í uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á Íslandi og ráða miklu varðandi búsetuskilyrði á landsbyggðinni. Einnig er rétt að benda á þá þjóð hagslegu óhagkvæmni sem hlytist af stórauknu atvinnuleysi, ferðalögum og sjúkraflutn ingum sem niðurskurðurinn óhjákvæmilega hefði í för með sér. Um leið og við viljum lýsa yfir eindregnum stuðningi við að myndarlega verði staðið að uppbyggingu Fjórð ungssjúkrahússins á Akureyri sem tæknivædds sérgreinasjúkrahúss þá skal á það bent að einfaldari skurðaðgerðir eiga sem fyrr heima á minni sjúkrahúsum sem hentugur og hag kvæmur kostur, enda hefur ekki verið sýnt fram á að ódýrara sé að framkvæma slíkar að gerðir á hátæknisjúkrahúsum.

F.h. stjórnar Læknafélags Norðausturlands,



Sigurður V. Guðjónsson, formaður.



Fylgiskjal II.


Bréf Læknafélags Norðvesturlands.


    Fundur haldinn í Læknafélagi Norðvesturlands á Sauðárkróki 25. nóvember 1993 hef ur fjallað um nýútkomnar tillögur til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um skipan sjúkrahúsmála.
    Fundurinn lýsir vanþóknun á þeim niðurskurði sem lagður er til á svæðinu og leggur áherslu á að góð og ódýr þjónusta er rekin hér bæði í heilsugæslu og á sjúkrahúsum.
    Engin haldbær rök eru í skýrslunni færð fyrir því að sá sparnaður, sem reiknaður er út, standi. Ranglega er farið með tölur um ferðakostnað sem af hlytist og aukin ferliþjón ustuna sérfræðinga sem um er talað er óþekkt stærð kostnaðarlega.
    Niðurskurður á Sjúkrahúsi Skagfirðinga er áætlaður 140 millj. kr. eða 20% af heildar sparnaði sem talinn er verða. Með öllu er óskiljanlegt að slíkt sé lagt til þar sem stofnun in er sannanlega rekin með lágum tilkostnaði miðað við samanburðartölur annars staðar frá þrátt fyrir miklu víðtækari starfsemi.
    Fundurinn bendir á sérstöðu Sjúkrahússins á Siglufirði í samgöngulegu tilliti og legg ur áherslu á að sú skurðstofuþjónusta sem þar er leggist ekki niður.
    Í Húnavatnssýslum þjóna sjúkrahúsin og heilsugæsla löngu þjóðveganeti og vítavert er að leggja til skerðingu á þessari starfsemi.
    Fundurinn fagnar frjórri umræðu um heilbrigðismál sem er þörf, en fordæmir slíkt hnefahögg í andlit heilbrigðisstarfsfólks og íbúa á svæðinu sem samkvæmt þessum tillög um yrðu að leita heilbrigðisþjónustu meira eða minna utan svæðisins með ærnum til kostnaði og umfram allt óvissu og óöryggi um heilsufar sitt og sinna.
    Fundurinn krefst þess að umræddar niðurskurðartilllögur verði dregnar til baka en tæki fagnandi við óháðum aðila sem kanna mundi starfsemi og kostnað sjúkrahúsanna á svæðinu til samanburðar við þá staði sem lagt er til að taki við starfsemi þeirra fyrir ekki neitt eins og skilja má á skýrslunni.

Með kveðju,



Ólafur R. Ingimarsson, formaður LFNV.





Fylgiskjal III.


Ályktun heilbrigðismálaráðs Norðurlands vestra.


    Fundur í heilbrigðismálaráði Norðurlands vestra, haldinn á Sauðárkróki 15. desember 1993, hefur fjallað um nýbirta skýrslu nefndar eða vinnuhóps um sjúkrahúsmál og tillög ur nefndarinnar til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um skipan sjúkrahúsmála í landinu.
    Telur fundurinn að nefndin hafi unnið mikið starf sem kveikt hafi umræðu um sjúkra húsmál í landinu. Er það af hinu góða. Fundurinn hafnar þeim ályktunum sem nefndin dregur af skýrslunni.
    Fundurinn mótmælir þeim niðurskurði sem nefndin leggur til í kjördæminu og tekur undir með Læknafélagi Norðvesturlands að góð og ódýr þjónusta sé rekin bæði í heilsu gæslu og á sjúkrahúsum kjördæmisins og nær væri að auka héraðshlutdeild sjúkrahúsa á landsbyggðinni.
    Engin haldbær rök finnst fundinum vera færð fyrir því að sá sparnaður náist sem reiknað er með í áliti nefndarinnar. Ekki er tekið tillit til þess að ýmissi heilbrigðisþjón ustu, svo sem öldrunarþjónusta, er sinnt á sjúkrahúsum í umdæminu. Efast fundurinn um að tölur, t.d. um ferðakostnað og ferilþjónustu sérfræðinga, hafi við rök að styðjast, svo og að sú aukna þjónusta, sem á sjúkrahúsin í Reykjavík og á Akureyri, yrði lögð kosti nánast ekki neitt.
    Ráðið bendir á að skurðstofukostnaður svæðisins sé aðeins brot af þeim heildarniður skurði sem nefndin leggur til í umdæminu. Heilbrigðisráðinu finnst með öllu óskiljanlegt að lagt sé til að niðurskurður á Sjúkrahúsi Skagfirðinga verði 140 millj. kr. þegar stofn unin er rekin með sannanlega lágum tilkostnaði miðað við samanburðartölur annars stað ar frá þrátt fyrir víðtækari starfsemi.
    Þá vill fundurinn benda á sérstöðu Sjúkrahúss Siglufjarðar hvað samgöngur snertir og leggur áherslu á að skurðstofuþjónusta sem þar er leggist ekki niður.
    Þá vill fundurinn benda á að í Húnavatnssýslunum þjóna sjúkrahúsin og heilsugæslan löngu þjóðveganeti og því varhugavert að skerða þá starfsemi sem þar fer fram meir en gert hefur verið á síðustu árum.
    Heilbrigðismálaráð Norðurlandsumdæmis vestra beinir þeim tilmælum til heilbrigðis ráðherra að taka ekki til greina tillögur nefndarinnar. Ráðið vill benda á hinn mannlega þátt sem oft gleymist enda erfitt að meta hann í tölum. Maður spyr sig hvers konar sið ferði það sé að ætlast til að sjúklingar séu sendir eins og kvikfénaður suður eða norður þurfi þeir á sjúkrahúsvist að halda sem hægt væri að veita í heimahéraði. Óttast ráðið að allur samdráttur í heilbrigðisþjónustu dreifbýlisins auki á flutning fólks þaðan.



Fylgiskjal IV.


Ályktun heilbrigðismálaráðs Austurlands.


    Fundur í heilbrigðismálaráði Austurlands, haldinn í Hótel Egilsbúð, Neskaupstað, fimmtudaginn 3. mars 1994, skorar á heilbrigðismálaráðherra að efla Fjórðungssjúkra húsið í Neskaupstað og staðfesta að það sé svæðissjúkrahús Austurlands sem tryggi íbú um svæðisins og sjómönnum fyrir austurströnd landsins bráðaþjónustu.

Greinargerð.
    Á þeim tæplega 40 árum, sem Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað hefur starfað, hef ur það margsinnis sannað gildi sitt sem bráðasjúkrahús. Það getur ekki verið alvara hjá ráðamönnum þjóðarinnar að hafa stóran hluta landsins án þeirrar bráðaþjónustu sem þó er til staðar í dag. Flutningur sjúkra og slasaðra í aðra landshluta í tíma og ótíma árið um kring er ekki eitthvað sem íbúar vilja. Það hefur margsinnis sannast á undanförnum
vikum hversu ótryggt flug getur verið milli Austurlands og annarra landshluta. Nýlegur atburður, er skipstrand varð í Vöðlavík, staðfestir enn frekar nauðsyn þess að hafa bráða sjúkrahús staðsett við sjávarsíðuna.
    Tillaga starfshóps um skipan sjúkrahúsmála og umræðan um hana hefur skaðað Fjórð ungssjúkrahúsið í Neskaupstað og torveldað störf þess.
    Það er þess vegna brýn þörf á því að ráðuneytið geri opinberan vilja sinn varðandi sjúkrahúsið og framtíð þess.



Fylgiskjal V.

Bréf frá bæjarráði Siglufjarðar til heilbrigðisráðherra.


(31. desember 1993.)



    Á fundi bæjarráðs Siglufjarðar í gær var fjallað um hugmyndir vinnuhóps um sjúkra húsmál og eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða:
    „Bæjarráð Siglufjarðar mótmælir hugmyndum vinnuhóps um sjúkrahúsmál um niður skurð á þjónustu Sjúkrahúss Siglufjarðar. Sú stefna sem þar er sett fram stangast að miklu leyti á við hugmyndir um tilflutning á verkefnum og þjónustu til landsbyggðarinnar sem settar hafa verið fram af ríkisvaldinu í tengslum við umræður um sameiningu sveitar félaga og aukin verkefni þeirra.
    Bæjarráð efast um raunverulegan sparnað af þessum aðgerðum, t.d. er ekki reiknað með stórauknum ferðakostnaði og vinnutapi íbúa landsbyggðarinnar við þessar aðgerðir og auk þess telur bæjarráð ólíklegt að viðbótarþjónusta sjúkrahúsanna í Reykjavík og á Akureyri kosti nánast ekki neitt. Einnig vill bæjarráð benda á að á Siglufirði er ýmissi heilbrigðisþjónustu, svo sem öldrunarþjónustu, sinnt á sjúkrahúsinu og það ber að hafa í huga við lestur skýrslunnar og úrvinnslu hennar. Á Siglufirði er hlutfall aldraðra 50% yfir landsmeðaltali. Bæjarráð vill og benda á að vegna erfiðra vetrarsamgangna er góð heilbrigðisþjónusta, þar með talinn rekstur skurðstofu og ýmis meðferðarþjónusta ein af forsendum áframhaldandi búsetu í bænum.
    Einnig leyfum við okkur að nefna að útflutningsverðmæti á íbúa hér eru fimmfalt meiri en á aðra íbúa landsins á þessu ári og hafa framleiðsluverðmæti hér farið vaxandi síðustu árin. Á þessu ári fjölgaði íbúum um 2,3% sem er t.d. meiri fjölgun en á höfuð borgarsvæðinu. Við sjáum því ekki forsendur fyrir því að skerða þjónustu á stað sem veg ur jafnþungt í þjóðarframleiðslunni og raun ber vitni. Með því værum við að veikja þær undirstöður sem þjóðfélagið byggir á, nú þegar síst skyldi. Því skorum við á heilbrigðis ráðherra að taka tillögur um skerðingu þjónustu á Sjúkrahúsi Siglufjarðar ekki til greina. Að öðrum kosti verði á sama tíma tekin upp tvö skattþrep hér á landi, annað fyrir þá sem hafa jafnsjálfsagða þjónustu og nauðsynlegustu heilbrigðisþjónustu við bæjardyrnar og hitt (lægra) fyrir þá sem þurfa vegna ímyndaðrar hagkvæmni að sækja hana um langa leið með ærnum tilkostnaði.“
    Þetta tilkynnist hér með.

Virðingarfyllst,



Björn Valdimarsson, bæjarstjóri.





Fylgiskjal VI.


Bréf stjórnar Sjúkrahússins í Húsavík sf. til vinnuhóps um sjúkrahúsmál.


(30. desember 1993.)



    Stjórn Sjúkrahússins í Húsavík mótmælir harðlega þeim áformum sem fram koma í til lögum til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um skipan sjúkrahúsmála í landinu sem vinnuhópur um sjúkrahúsmál sendi frá sér í nóvember 1993.
    Stjórnin telur að um verulega afturför sé að ræða ef farið yrði að tillögum vinnuhóps ins. Undanfarin 20–30 ár hefur verið unnið að uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar um allt land. Úti á landsbyggðinni hafa þróast nokkur vel búin sjúkrahús. Þar vinnur vel menntað sérhæft starfsfólk sem á ekki hvað síst heiðurinn af því hvað Íslendingar búa við góða heilbrigðisþjónustu. Vinnuhópurinn leggur til að þessi sjúkrahús verði lögð niður en í staðinn komi hjúkrunarheimili, rekin í tengslum við heilsugæslustöðvar. Með þessu fyr irkomulagi telur vinnuhópurinn að spara megi hundruð milljóna króna á ári.
    Það má eflaust spara meira í heilbrigðisþjónustunni en nú er gert en undanfarin ár hef ur verið sparað mikið og dregið úr kostnaði án þess að það komi niður á gæðum þjónust unnar.
    Mikil breyting hefur orðið á starfsemi sjúkrahúsa á landinu undanfarin ár. Hátækni sjúkrahús í Reykjavík hafa yfir að ráða sérfræðiþjónustu á svo til öllum sviðum og stefnt er að því að svo verði einnig með FSA en minni sjúkrahúsin hafa flest haldið í horfinu, þ.e. hafa sérfræðinga í almennum skurðlækningum, og reka því skurðstofu og fæðingar deild. Þessi þróun hefur orðið til þess að sjúklingar leita meira en áður á tæknivæddu sjúkrahúsin sem er eðlilegt. Við þessum breytingum má ekki bregðast þannig að lands byggðarsjúkrahúsin verði lögð niður heldur skal nýta þá aðstöðu og þekkingu sem vel menntað starfsfólk býr yfir í þágu heilbrigðisþjónustunnar í samvinnu við stærri sjúkra húsin sem hafa sérfræðingum á að skipa.
    Stjórn Sjúkrahússins í Húsavík hefur látið gera skýrslu um starfsemi sjúkrahússins sem dreift verður á næstunni og geta menn áttað sig betur á þeirri starfsemi sem hér fer fram. Í skýrslunni koma einnig fram áform stjórnarinnar um rekstur sjúkrahússins í fram tíðinni.
    Sveitarfélögin, sem standa að sjúkrahúsinu, lögðu mikið á sig til að koma þessu sjúkrahúsi upp og það kostaði mikið fé á mælikvarða smárra sveitarfélaga. Við þessa uppbyggingu nutu þau góðrar samvinnu við heilbrigðisráðuneytið og aðra opinbera aðila.
    Því er ekki að neita að hér er um tilfinningamál að ræða hjá heimamönnum, ekki hvað síst velunnurum sjúkrahússins, svo sem kvenfélögum og öðrum líknarfélögum sem gefið hafa sjúkrahúsinu margar milljónir króna í gegnum árin og hafa sérstaklega borið fæðing ardeildina fyrir brjósti.
    Stjórnin vill ekki trúa því að þessum rekstri verði hætt samkvæmt einhliða ákvörðun heilbrigðisyfirvalda en telur eðlilegt að ef óskað er einhverra breytinga á starfsemi sjúkrahússins verði það gert í samráði og í samvinnu við heimaaðila.

F.h. stjórnar Sjúkrahússins í Húsavík,



Ólafur Erlendsson, frkvstj.



Fylgiskjal VII.

Ályktun Verkalýðsfélags Húsavíkur.


(20. janúar 1994.)



    Stjórn Verkalýðsfélags Húsavíkur mótmælir harðlega framkomnum hugmyndum vinnuhóps heilbrigðisráðherra um sjúkrahúsmál. Tillögur nefndarinnar ganga þvert á þá uppbyggingu sem heilbrigðisyfirvöld hafa áður markað. Nái tillögur nefndarinnar fram að ganga munu þær leiða til verulegrar fækkunar starfsfólks á sjúkrahúsinu í Húsavík og auka enn á það mikla atvinnuleysi sem nú er á félagssvæði Verkalýðsfélags Húsavíkur.
    Stjórn Verkalýðsfélags Húsavíkur leggur til að starfsemi sjúkrahússins og heilsu gæslustöðvarinnar verði efld og umsvif stofnunarinnar aukin með því m.a. að færa minni háttar aðgerðir frá höfuðborgarsvæðinu út á land og létta þar með á því mikla álagi sem er á sjúkrastofnunum í Reykjavík. Leiðir liggja jú til beggja átta.
    Jafnframt skorar fundurinn á stjórnvöld að koma í veg fyrir að umboðsskrifstofa skatt stjóra á Húsavík verði lögð niður.
    Verkalýðsfélag Húsavíkur lýsir yfir furðu sinni á að á sama tíma og stjórnvöld hvetja sveitarfélög til að sameinast og taka við auknum verkefnum frá ríkinu skuli vera uppi hugmyndir um að draga allverulega úr umsvifum ríkisins.

Með kveðju,



f.h. Verkalýðsfélags Húsavíkur,


Aðalsteinn Baldursson.




Fylgiskjal VIII.

Bréf stjórnar sjúkrahúss og heilsugæslustöðvar


á Egilsstöðum til heilbrigðisráðherra.


(21. desember 1993.)



    Varðandi skýrslu þá um sjúkrahúsmál, sem nefnd á vegum ráðuneytisins hefur nýlega skilað og kynnt, vill stjórn sjúkrahúss og heilsugæslustöðvar á Egilsstöðum taka fram eftir farandi:
    Það er skynsamlegt og þarft að afla sem flestra tölulegra upplýsinga um jafnviðamikinn og mikilvægan málaflokk og heilbrigðismál eru. Áðurnefnd skýrsla er þarft framtak og þær upplýsingar, sem þar er að finna, mikilvægur grundvöllur þess að hægt sé að gera raunhæfa áætlun um uppbyggingu hins íslenska heilbrigðiskerfis, enda lítur stjórnin svo á að sá sé til gangurinn með skýrslunni og annarri þeirri gagnaöflun sem undanfarið hefur farið fram á vegum ráðuneytisins.
    Vegna tillagna skýrsluhöfunda um fyrirkomulag sjúkrahússþjónustu á Austurlandi þykir stjórninni nauðsynlegt að koma því að framfæri við yður að mjög mikilvægt er að sú sér fræðiþjónusta, sem til staðar er á Austurlandi, haldist þar. Hér er átt við sérfræðinga í skurð lækningum, lyflækningum og svæfingarlækningum á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað. Jafnframt er afar nauðsynlegt að ráðið verði í samþykkta stöðu sérfræðings í fæðingar- og kvensjúkdómafræði. Efla þarf farandþjónustu sérfræðinga í fjórðungnum og auka hana í samræmi við tillögur nefndar um sjúkrahúsmál en augljóst er að léttara verður að fá sérfræðinga til að sinna henni og efalítið ódýrara ef fagfólk og kunnátta er til staðar þar sem aðgerð ir fara fram en ef gera þarf út sveit aðstoðarliðs með sérfræðingunum í hverja ferð.
    Sjúkrahús með sérfræðiþjónustu er mikilvægur grundvöllur kennslu heilbrigðisstétta og hætt er við að sjúkraliðanám á Austurlandi legðist af ef slík stofnun er ekki til staðar.
    Stjórn sjúkrahúss og heilsugæslustöðvar á Egilsstöðum biður yður að sjá til þess að áfram starfi fjórðungssjúkrahús með sérfræðiþjónustu á Austurlandi og lýsir sig fúsa til þess að taka þátt í skipulagsstarfi og tillögugerð um framtíðarskipan heilbrigðismála í fjórðungnum.

F.h. stjórnar sjúkrahúss og heilsugæslustöðvar á Egilsstöðum,


virðingarfyllst,



Pétur Heimisson, yfirlæknir.


Einar Rafn Haraldsson, frkvstj.


Kristín Albertsdóttir, hjúkrunarforstjóri.




Fylgiskjal IX.

Bréf stjórnar heilsugæslustöðvar Eskifjarðar


og Reyðarfjarðar til heilbrigðisráðherra.


(18. janúar 1994.)



    Stjórn heilsugæslustöðvar Eskifjarðar og Reyðarfjarðar lýsir sig algerlega andsnúna þeim tillögum vinnuhóps um sjúkrahúsmál á vegum heilbrigðisráðuneytisins um að leggja niður fjórðungssjúkrahúsið á Austurlandi. Öryggi íbúanna og sjómanna á hafi úti fyrir Austurlandi er teflt í tvísýnu sé ekki skurðlæknir né svæfingalæknir á svæðinu.
    Síðastliðin þrjú ár hafa sjúklingar okkar notið þjónustu fjórðungssjúkrahússins í tals verðum mæli, innlagnir á FSN voru 1992 116, 1991 110 og 1990 voru þær 66 samkvæmt tölvuskráningu okkar. Þessum innlögnum hefði þurft að sinna á Akureyri eða í Reykjavík ef ekkert sjúkrahús með sérfræðiþekkingu hefði verið hér í fjórðungnum. Af því hefði orðið heilmikið óhagræði og aukakostnaður fyrir íbúana. Vegakerfið til Neskaupstaðar hefur verið að batna mikið á síðustu árum og er orðið mjög sjaldgæft að þangað verði ófært og færðin á eftir að verða enn þá öruggari með þeim vegabótum sem unnið er að nú norðanmegin í Oddsskarði. Þess vegna skorar stjórn heilsugæslustöðvar Eskifjarðar og Reyðarfjarðar á heilbrigðisyfirvöld að halda áfram með fjórðungssjúkrahús hér á Austurlandi sem á starfi a.m.k. skurð- og svæfingalæknar. Það verði síðan eflt eftir efnum og aðstæðum í framtíðinni Austfirðingum og þjóðinni til heilla og hagsbóta.

F.h. stjórnar,



Björn Gunnlaugsson, yfirlæknir,


Sigurborg Einarsdóttir, hjúkrunarforstjóri.



Fylgiskjal X.


Gagnrýni á tillögur um skipan sjúkrahúsmála frá Sjúkrahúsi Skagfirðinga.


(10. janúar 1994.)



1. Inngangur.
    Stjórn og stjórnendur Sjúkrahúss Skagfirðinga vilja með eftirfarandi greinargerð koma á framfæri skoðunum sínum á tillögum þeim sem fram koma í skýrslu til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um skipan sjúkrahúsmála.
    Í sjálfu sér er gagnlegt að fá úrvinnslu á tölulegum upplýsingum yfir starfsemi sjúkrahús anna á landsbyggðinni en sparnaðartillögur nefndarinnar virðast hins vegar ekki vera í nein um tengslum við þær upplýsingar.
    Inntakið í þeim sparnaðartillögum, sem fram koma í skýrslunni, er lækkun héraðshlut deildar flestra sjúkrahúsa á landsbyggðinni. Þannig er lagt til að héraðshlutdeild Sjúkrahúss Skagfirðinga lækki um helming, eða úr 60% í 30%. Það er hins vegar ekkert rökstutt hvers vegna er miðað við 30% héraðshlutdeild. Reyndar ganga tillögur þessar þvert á þær stað reyndir að starfsemi Sjúkrahúss Skagfirðinga er stöðugt að aukast á öllum sviðum með stöðugt minni tilkostnaði.
    Það er einkennandi fyrir tillögur skýrsluhöfunda að öll röksemdafærsla er í formi ágisk ana og fullyrðinga sem lítið eða ekkert eru rökstuddar. Þannig er lagt til að starfsemi sé flutt í stórum stíl frá sjúkrahúsum á landbyggðinni ýmist til Akureyrar eða Reykjavíkur. Það er hins vegar ekki gert ráð fyrir neinum kostnaðarauka samhliða því á þessum stöðum. Sömu sögu má segja varðandi kostnaðaraukann sem yrði samhliða breytingunum að öðru leyti, svo sem ferðakostnaður með sjúklinga og farandþjónusta sérfræðinga en þessir liðir eru stórlega vanáætlaðir í skýrslunni að okkar mati.
    Við teljum að sá sparnaður, sem nefndin telur að megi ná með þessum breytingum, rétt læti ekki þá kúvendingu sem yrði í rekstri Sjúkrahúss Skagfirðinga. Reyndar teljum við það fullvíst að fyrirhugaður sparnaður mundi aldrei nánst heldur mundi kostnaðurinn þvert á móti stóraukast nái þessar tillögur fram að ganga.

2. Gagnrýni á tillögur um skipan sjúkrahúsmála.
2.1 Tillögur nefndarinnar um niðurskurð á Sjúkrahúsi Skagfirðinga.
    Héraðshlutdeild Sjúkrahúss Skagfirðinga var rúmlega 60% á árunum 1990 og 1991 sam kvæmt útreikningum í skýrslunni og verður það að teljast hátt hlutfall miðað við önnur lands byggðarsjúkrahús. Tillögur nefndarinnar ganga út á að lækka héraðshlutdeildina í 30% og spara með því 140 millj. kr. eða sem samsvarar 50% af núverandi fjárveitingu til stofnunar innar. Þess má geta að kostnaður við skurðstofu sjúkrahússins er ekki nema u.þ.b. 10% af þessum 140 millj. kr. þannig að það er verið að tala um að leggja niður eitthvað allt annað og miklu meira en eingöngu bráðaþjónustu.
    Á Sjúkrahúsi Skagfirðinga hefur verið byggð upp mjög öflug starfsemi og hefur stofnunin á að skipa vel menntuðu og hæfu starfsfólki, enda hefur starfsemin stöðugt verið að aukast á öllum sviðum. Þessar tillögur ganga því algjörlega þvert á þær staðreyndir.
    Það er ýmislegt sem stangast á í skýrslunni og mun augljóslega ekki ganga upp, t.d. er lagt til að sjúkrahúsið á Akureyri yfirtaki starfsemi frá Sauðárkróki, Húsavík og að hluta frá Siglufirði. Þessi starfsemi kostar í dag u.þ.b. 300 millj. kr. en Akureyringar eiga að fá 8 millj. kr. til að sinna þessari starfsemi. Forsvarsmenn Fjórðugssjúkrahússins á Akureyri lýstu því yfir á fundi með skýrsluhöfundum, sem haldinn var á Akureyri, að þetta gengi ekki upp og einnig viðurkenndu skýrsluhöfundar að kostnaður muni aukast mun meira á Akureyri er gert er ráð fyrir í skýrslunni.
    Á einum stað í skýrslunni segir: „Verulegur hluti af þjónustu við Sauðkræklinga verður líklega í Reykjavík þótt hér sé reiknað með Akureyri sem aðalsjúkrahúsi“ (bls. 33). Þetta er í raun ekki annað en staðfesting nefndarinnar á því að það sem hún er að leggja til sé ekki raunhæft.

2.2 Röksemdafærslan í skýrslunni.
    Eins og segir í inngangi er röksemdafærslan í skýrslunni aðallega í formi ágiskana og fullyrðinga sem eru lítið eða ekkert rökstuddar. Þessu til stuðnings má nefna fjölmörg dæmi hvernig skýrsluhöfundar afgreiða ýmsa hluti á vægast sagt „ódýran“ hátt. Þar sem fjallað er um kostnaðaraukann samfara tillögunum, þ.e. ferðakostnað, kostnað vegna farandþjónustu o.fl., segir í skýrslunni að „þessi kostnaðarauki yrði þó vart yfir 100 millj. kr.“ (bls. IX). Þannig er það mál afgreitt án nokkurs rökstuðnings eða nánari útlistunar á kostnaðinum.
    Á öðrum stað í skýrslunni segir: „Engin tilraun verður gerð hér til að skipuleggja farand þjónustu sérfræðinga í dreifbýli eða reikna kostnað við þá starfsemi. Með t.d. 20 millj. kr. framlagi ætti að vera unnt að hleypa lífi í slíka þjónustu“ (bls. 64). Engin rökstuðningur eða útfærsla er á þessari þjónustu, einungis tilhæfulaus ágiskun.
    Það er heldur ekkert rökstudd af hverju Sjúkrahús Skagfirðinga á einungis að sinna 30% af sjúkralegum Skagfirðinga í stað 60% sem sinnt er í dag. Með þessari minnkun á héraðs hlutdeild er sjúkrahúsið sett í flokk með sjúkrahúsum sem sinna mun minni þjónustu í dag. Þannig verður skerðingin hlutfallslega mest á Sjúkrahúsi Skagfirðinga eða með öðrum orðum á að hegna þeim mest sem eru með hæstu héraðshlutdeildina.
    Í skýrslunni er talsvert „hamrað“ á stórfelldri vöntun á rúmum í Reykjavík. Þrátt fyrir þá staðreynd ganga tillögurnar út á að flytja þangað starfsemi í stórum stíl. Það hlýtur að leiða af sér að fjölga þarf rúmum og þá væntanlega stofnunum í Reykjavík en ekki er reiknað með neinum viðbótarkostnaði vegna þessa.

2.3 Kostnaðarauki samfara breytingunum.
    Kostnaðartölur, sem gengið er út frá varðandi ferðakostnað sjúklinga og farandþjónustu sérfræðinga, eru greinilega stórlega vanáætlaðar. Þannig er gengið út frá því að 90% af þeim sjúklingum, sem senda þarf á önnur sjúkrahús, geti farið með venjulegri áætlunarferð og er reiknað með 10 þús. kr. í kostnað á einstakling. Staðreyndin er hins vegar sú að þessi kostn aður yrði miklu meiri. Í dag kostar u.þ.b. 50 þús. kr. að senda sjúkling með sjúkrabíl til Ak ureyrar og kostnaður er svipaður ef sjúklingur er sendur í körfu með áætlunarflugi til Reykja víkur. Ef sjúklingur er sendur með sjúkraflugi til Reykjavíkur kostar það u.þ.b. 100 þús. kr. Framangreindur kostnaður er fyrir utan kostnað vegna fylgdarmanna o.fl.
    Varðandi kostnað vegna farandþjónustu sérfræðinga er ljóst að þegar verður búið að breyta þessari stofnun í elliheimili, eins og lagt er til í skýrslunni, verður ekkert sérhæft starfsfólk á skurðstofu lengur til staðar. Það verður því ekki nóg að senda einn sérfræðing á staðinn heldur hlýtur að þurfa að senda með honum sérhæft aðstoðarfólk sem þýddi óhjá kvæmilega enn meiri kostnað.

2.4 Hvað er dýrt? — Hvað er ódýrt?
    Í skýrslunni er fullyrt að rekstur „litlu“ sjúkrahúsanna úti á landi sé dýr. Það er hins veg ar ekkert talað um við hvað sé miðað. Í þessu sambandi er oft talað um kostnað á legudag og á bls. 85 í skýrslunni er yfirlit yfir kostnað á legudag á einstökum deildum Landspítalans á árinu 1990. Þar kemur í ljós að á öldrunardeild kostar dagurinn 10 þús. kr. en öldrunar deildir eru, eða eiga að vera, mjög ódýrar deildir þar sem t.d. vaktkostnaður er lítill. Kostn aður á legudag á Sjúkrahúsi Skagfirðinga er 11 þús. kr. og hefur verið það sl. þrjú ár sem er mjög lítið samanborið við framangreinda tölu þar sem hér er rekin blönduð starfsemi með tilheyrandi viðbótarkosnaði við vaktir o.fl.
    Í skýrslunni er eingöngu talað um sjúkrahúsrekstur og bendir nefndin á hver sé kostnaður inn vegna sjúkrahúsþjónustu á hvern íbúa á viðkomandi stöðum. Þetta er hins vegar ekki sanngjarn samanburður þar sem við erum t.d. að reka sjúkrahús, elliheimili og heilsugæslu í sama húsnæði, en á stærri stöðunum er þetta allt rekið hvort í sínu lagi. Þannig er ekki raun hæft að bera saman kostnað á íbúa nema taka kostnað við allar heilbriðgðisstofnanir á við komandi svæði með í reikninginn og síðan að deila í þá tölu með íbúafjölda.

2.5 Hliðaráhrif breytinganna.
    Hliðaráhrif, sem óneitanlega mundu fylgja þessum stórfelldu breytingum, eru ekkert met in í skýrslunni. Í fyrsta lagi þýddi þetta fækkun á störfum við sjúkrahúsið sem nemur 70–80 stöðugildum með tilheyrandi margfeldisáhrifum. Í öðru lagi mundi þetta gjörbreyta forsend um fyrir búsetu á svæðinu því að nálægð við góða og öfluga sjúkrahúsþjónustu er veigamik ill þáttur í ákvörðunum fólks varðandi búsetu. Í þriðja lagi hefði þetta í för með sér umtals verðan viðbótarkostnað og óþægindi fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra en það atriði er afgreitt á eftirfarandi hátt í skýrslunni: „Oft er reynt að leggja mat á tímatap sjúklinga vegna ferðalaga. Það verður ekki reynt hér enda kostnaður oft óljós. Verulegur hluti sjúklinga er aldraður og þess vegna ekki í starfi“ (bls. 63).

2.6 Öryggisþátturinn.
    Í skýrslunni er lítið gert úr öryggisþættinum en öryggi íbúa Skagafjarðar varðandi sjúkra húsþjónustu mundi stórminnka næðu þessar tillögur fram að ganga. Þannig er augljóst að vaktþjónusta mun stórminnka og sérfræðiþekking verður ekki lengur til staðar á svæðinu.
    Í skýrslunni kemur fram að vel sé hugsanlegt vegna samgangna að sjúkrahúsþjónusta flytjist úr Skagafirði til Akureyrar og er þá miðað við vegalengdir. Aftast í skýrslunni er hins vegar tafla yfir ófærð á vegum sl. sex ár en þar kemur fram að Öxnadalsheiði hefur verið ófær að meðaltali tíu daga á ári. Hún hefur verið mokuð 51 dag að meðaltali og erfiðir dagar hafa verið 73 að meðaltali á ári. Af þessum tölum er ljóst að öryggi íbúa Skagafjarðar yrði telft í mikla tvísýnu næðu þessar tillögur fram að ganga.

3. Niðurstöður.
    Niðurstaða okkar er að fyrirhugaður sparnaður upp á rúmlega 700 millj. kr. er fjarri því að vera raunhæfur og þegar upp verður staðið teljum við að tillögurnar muni ekki leiða af sér neinn sparnað heldur þvert á móti muni kostnaður stóraukast. Eins og bent hefur verið á að framan er t.d. ekki gert ráð fyrir neinum viðbótarkostnaði vegna aukins rekstrarumfangs á Akureyri og í Reykjavík þrátt fyrir að þessir staðir eigi að taka við stóraukinni starfsemi og þrátt fyrir þá staðreynd sem „hamrað“ er á í skýrslunni að stórfelld vöntun er á rúmum í Reykjavík.
    Minnkun héraðshlutdeildar sjúkrahússins um helming eða úr 60% í 30% er heldur ekkert rökstudd og gengur raunar í berhögg við þær staðreyndir að starfsemi stofnunarinnar er stöðugt að aukast og verða öflugri á öllum sviðum og reksturinn hagkvæmari.
    Við lestur skýrslunnar kemur einnig berlega í ljós að þær forsendur, sem nefndin gengur út frá varðandi kostnaðaraukann sem af tillögunum hlýst, svo sem vegna flutnings á sjúkling um og farandþjónustu sérfræðinga, eru alls ekki raunhæfar.
    Ekkert mat er lagt á hliðaráhrifin sem breytingarnar mundu óneitanlega hafa í för með sér, þ.e. fækkun starfa á sjúkrahúsinu, breyttar forsendur fyrir búsetu og aukinn kostnað og óþægindi fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra. Sömu sögur er að segja með öryggi íbúanna sem mun stórminnka.
    Við teljum því réttast að stjórnvöld striki yfir þessar tillögur sem allra fyrst og reyni frek ar að stuðla að eflingu þjónustunnar úti á landi en falli ekki í sömu gryfju og skýrsluhöfundar að hugsa alla heilbrigisþjónustu í landinu út frá einum punkti.

F.h. Sjúkrahúss Skagfirðinga,



Birgir Gunnarsson, framkvæmdastjóri.




Fylgiskjal XI.


Pétur Heimisson:

Greinargerð um sérfræðilega heilbrigðisþjónustu í Egilsstaða-


læknishéraði og á Austurlandi.


(Júní 1993.)




REPRÓ 6 síður.





Fylgiskjal XII.

Rammasamningur um samstarf Ríkisspítala/Landspítala og


St. Jósefsspítala í Hafnarfirði.


(7. janúar 1994.)






REPRÓ 1 síða.