Ferill 146. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 146 . mál.


271. Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Sigbjarnar Gunnarssonar um samskipti Lánasjóðs íslenskra námsmanna og stúdenta í Þýskalandi.

    Er vitað til þess að íslenskir stúdentar í Þýskalandi hafi horfið frá námi vegna strangra krafna Lánasjóðs íslenskra námsmanna um námsframvindu?
    Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna er ekki vitað til þess að íslenskir námsmenn hafi horfið frá námi í Þýskalandi vegna reglna Lánasjóðsins um námsframvindu.
    Tekið skal fram að reglur LÍN um námsframvindu byggjast á opinberum upplýsingum um skipulag skóla á sama hátt og verið hefur um árabil. Þetta gildir um nám í Þýskalandi eins og alls staðar annars staðar. Lágmarksreglur um námsframvindu eru óbreyttar eins og þær hafa verið í meira en áratug, þ.e. að menn skili a.m.k. 75% árangri. Skólaárið 1992–93 breyttust reglur þannig að menn fá 100% lán einungis fyrir 100% námsframvindu samkvæmt skipulagi skóla en geta ekki fengið 100% lán fyrir 75–100% námsframvindu eins og áður. Eins og áður sagði er almenna lágmarkskrafan hin sama og fyrr, þ.e. menn þurfa að skila 75% af fullu námi hverju sinni til að teljast lánshæfir. Sú regla hefur verið tekin upp í tíð núverandi stjórnar sjóðsins að gefa mönnum, sem ljúka framhaldsskólanámi með viðamiklu verkefni, kost á aðstoð í eitt missiri umfram það sem fyrri reglur heimiluðu. Þessi regla nær til flestra íslenskra námsmanna í Þýskalandi og hefur aukið svigrúm þeirra.

    Hafa viðræður farið fram milli stjórnenda Lánasjóðsins og íslenskra stúdenta í Þýskalandi og ef svo er hafa þær leitt til niðurstöðu?
    Stjórn sjóðsins hafa í gegnum árin borist erindi frá einstaka námsmönnum í Þýskalandi, eða einstaka hópum námsmanna, og hefur hverju erindi verið svarað fyrir sig. Að öðru leyti hafa engar viðræður farið fram milli stjórnenda Lánasjóðsins og fulltrúa íslenskra námsmanna í Þýskalandi.