Ferill 240. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 240 . mál.


281. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994.

(Lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994.)



1. gr.


    Eftirtaldar breytingar skal gera á 2. gr. laganna:
    Á eftir 2. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður svohljóðandi: Þó skal Fasteignamat ríkisins að jafnaði annast fyrstu virðingu.
    Á eftir lokamálslið 2. mgr. kemur nýr málsliður svohljóðandi: Sjái Fasteignamat ríkisins ástæðu til getur það framkvæmt endurmat, húseiganda og vátryggingafélagi að kostnaðarlausu.
    3. mgr. verður svohljóðandi:
                  Breyta skal vátryggingarverði húsa til samræmis við vísitölu byggingarkostnaðar hinna ýmsu tegunda húseigna.
    Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, sem verður 4. mgr., svohljóðandi:
                  Með reglugerð er heimilt að ákveða að húseigendur greiði árlegt umsýslugjald af brunabótamati húseignar til Fasteignamats ríkisins. Viðkomandi vátryggingafélag innheimtir þetta gjald og skilar til Fasteignamatsins. Umsýslugjald þetta skal aldrei vera hærra en 0,03‰ (prómill) af brunabótamati húseignar.
    

2. gr.


    2. mgr. 3. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Vátryggjanda er heimilt að veita undanþágu frá byggingarskyldu að höfðu samráði við skipulagsyfirvöld gegn því skilyrði að 15% dragist frá bótafjárhæðinni. Frádrætti þessum skal þó ekki beitt ef endurbygging er eigi heimil af skipulagsástæðum eða öðrum ástæðum sem tjónþola er ekki sjálfrátt um. Hafi ákvörðun verið tekin um að veita undanþágu frá byggingarskyldu og telji vátryggjandi brunabótamat húseignar greinilega hærra en markaðsverð húseignar þá er vátryggjanda heimilt að miða bótafjárhæð við markaðsverð viðkomandi húseignar.
    

3. gr.


    4. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Öll iðgjöld og matskostnaður af húseignum í skyldutryggingu hvíla sem lögveð á eignunum sjálfum og ganga í tvö ár fyrir öllum öðrum skuldbindingum sem á þeim hvíla nema sköttum til ríkissjóðs.
    Séu iðgjöld eigi greidd innan sex mánaða frá gjalddaga er heimilt að láta selja hina vátryggðu eign á uppboði samkvæmt ákvæðum laga um nauðungarsölu.
    

4. gr.


    Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, sem verður 4. gr. a, svohljóðandi:
    Hafi brunatrygging húss, sem tekin hefur verið, fallið niður af ástæðum sem húseiganda verður ekki um kennt ber Sambandi íslenskra tryggingafélaga að bæta honum tjón á húseign hans af völdum eldsvoða.
    Samband íslenskra tryggingafélaga skal endurkrefja vátryggingafélög, sem hafa með höndum brunatryggingar húsa, um kostnað vegna slíkra bótagreiðslna nema í ljós verði leitt hver ber ábyrgð á að vátrygging féll niður og skal sambandið þá endurkrefja þann aðila. Kostnaði skal skipt á félögin í hlutfalli við bókfærð iðgjöld þeirra í lögboðnum brunatryggingum húsa hér á landi. Skal í því efni miðað við nýjustu upplýsingar um markaðshlutdeild félaganna við uppgjörsdag tjóns.
    Skilyrði starfsleyfis lögboðinna brunatrygginga húseigna er að félag skuldbindi sig til að taka þátt í þessari tilhögun um greiðslu bóta vegna óvátryggðra húseigna.
    

5. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Síðastliðið vor voru samþykkt á Alþingi ný lög um brunatryggingar. Með þessum lögum voru felld saman lagaákvæði sem áður höfðu verið í tvennum lögum, lögum um brunatryggingar í Reykjavík og lögum um brunatryggingar utan Reykjavíkur.
    Í lögum þessum voru þau helst nýmæli að afskipti sveitarstjórna af brunatryggingum utan Reykjavíkur voru felld niður, svo og einkaréttur Húsatrygginga Reykjavíkurborgar á brunatryggingum húseigna í Reykjavík. Jafnframt var í lögunum það nýmæli að Fasteignamat ríkisins gæti annast virðingu skylduvátryggðra húsa og skyldi halda utan um skráningu brunatryggðra húseigna í landinu. Þessi breyting tengdist skipulagsbreytingum sem verið er að gera á Fasteignamati ríkisins og uppsetningu svokallaðrar landskrár fasteigna. Fyrirhugað er að flytja vátryggingastarfsemi til viðskiptaráðuneytisins. Frumvarp þar að lútandi er í undirbúningi í forsætisráðuneytinu. Með því frumvarpi mun 5. gr. laga um brunatryggingar breytt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér eru gerðar nokkrar breytingar á 2. gr. laganna. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að Fasteignamat ríkisins annist að jafnaði fyrstu virðingu til brunabótamats. Fasteignamat ríkisins annast samkvæmt lögum fasteignamat allra húsa. Þegar hús er tekið í notkun ber stofnuninni því að meta húseign til fasteignamats. Það er til hagræðingarauka fyrir húseigendur að Fasteignamatið að jafnaði annist jafnframt virðingu húseignarinnar til brunabótamats. Rétt þykir að hafa þetta atriði skýrt í lagatextanum. Eðlilegt er að í þeim tilvikum þegar Fasteignamatið annast fyrstu virðingu til brunabótamats sé sú virðing án endurgjalds fyrir húseiganda.
    Nauðsynlegt þykir að hafa það skýrt í lögunum að Fasteignamat ríkisins megi, sjái það ástæðu til, framkvæma endurmat, húseiganda og vátryggingafélagi að kostnaðarlausu. Eins og áður hefur verið vikið að er verið að gera veigamiklar breytingar á starfsemi Fasteignamatsins og tengja uppbyggingu landskrár fasteigna við starfsemi stofnunarinnar. Nauðsynlegt er að stofnunin geti framkvæmt endurmat á brunabótamati fasteignar. Slíkt endurmat yrði gert t.d. í tengslum við ákvörðun um endurskoðun fasteignamats í heilu sveitarfélagi. Eins og nú horfir við þá getur verið mikill munur á brunabótamati og fasteignamati húseigna þar sem endurskoðun helst ekki í hendur.
    Þá er nauðsynlegt að umorða 3. mgr. þannig að unnt verði að breyta vátryggingarverði húsa til samræmis við vísitölu byggingarkostnaðar hinna ýmsu tegunda húseigna.
    Loks er skýrt kveðið á um það í lögunum að Fasteignamati ríkisins sé heimilt að innheimta umsýslugjald vegna verkefna sinna í tengslum við brunatryggingar í þágu húseigenda. Gjald þetta er smávægileg þóknun, aldrei hærra en 30 kr. miðað við hverja milljón í brunabótamati, þ.e. 0,03‰ (prómill) fyrir þá þjónustu sem Fasteignamatið veitir húseigendum með því að halda landskrá yfir brunabótamat húseigna í landinu og fylgjast með að brunabótamat húseigna sé á hverjum tíma rétt. Gjaldið skiptir á hinn bóginn sköpum varðandi þá uppbyggingu sem verið er að hrinda af stað hjá Fasteignamatinu í tengslum við landskrá fasteigna og er nauðsynleg eftir að einkaréttur tiltekinna aðila til brunatrygginga hefur verið afnuminn. Viðkomandi vátryggingafélag innheimtir þetta gjald og skilar til Fasteignamatsins. Í reglugerð um lögboðna brunatryggingu húseigna nr. 484/1994 er mælt fyrir um þetta gjald með stoð í 5. gr. laganna þar sem ráðherra hefur skýra heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna, m.a. um kostnað vegna virðingar. Þrátt fyrir þessa ótvíræðu lagaheimild þykir rétt að með skýrum hætti sé fjallað um umsýslugjaldið og þak sett um fjárhæð þess.
    

Um 2. gr.


    Hér er 2. mgr. 3. gr. laganna breytt til samræmis við heimild sem var í lögum um Brunabótafélag Íslands og verið hefur í skilmálum Húsatrygginga Reykjavíkur um að vátryggjanda sé heimilt að veita undanþágu frá byggingarskyldu að höfðu samráði við skipulagsyfirvöld og þá dragist 15% frá bótafjárhæðinni. Frádrættinum skal þó ekki beitt ef endurbygging er ekki heimil af skipulagsástæðum eða öðrum ástæðum sem tjónþola er ekki sjálfrátt um. Ef ákveðið hefur verið að veita undanþágu frá byggingarskyldu og telji vátryggjandi brunabótamat húseignar greinilega hærra en markaðsverð er heimilt að miða við markaðsverðið.
    

Um 3. gr.


    Nauðsynlegt er að gera breytingu á 4. gr. til samræmis við breytingar sem gerðar voru með lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991. Þessa var ekki nægilega vel gætt við setningu laganna í vor.
    

Um 4. gr.


    Utan Reykjavíkur hafa sveitarfélög borið ábyrgð á að húseignir væru brunatryggðar. Engin sambærileg ákvæði hafa verið í gildi í Reykjavík. Þegar einkaréttur sveitarfélaga til brunatrygginga fellur niður getur skapast hætta á því að eignir falli úr brunatryggingu. Þess hefur verið gætt að lágmarka líkur á því að svo gerist, m.a. með því að fela Fasteignamatinu að hafa umsjón og eftirlit með skráningu brunatryggðra eigna. Ef slíkt tilvik kæmi þó upp þykir nauðsynlegt að tryggja það að tjón verði engu að síður bætt enda verði húseiganda ekki kennt um brottfall tryggingar. Hér eru því sett ákvæði um þetta efni þar sem Sambandi íslenskra tryggingafélaga er falið að hafa milligöngu um bótagreiðslur og endurkrefja annaðhvort þann sem sök átti á því að húseign féll úr tryggingu eða deila kostnaði á vátryggingafélög sem selja brunatryggingar. Áþekkar reglur hafa gilt síðan 1970 varðandi lögboðnar ábyrgðartryggingar ökutækja.
    

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 48/1994,


um brunatryggingar.


    Með frumvarpinu eru gerðar breytingar á lögum um brunatryggingar sem taldar eru nauðsynlegar til að treysta framkvæmd laganna. Helstu breytingarnar eru að Fasteignamat ríkisins annast að jafnaði fyrstu virðingu til brunabótamats og gefin er heimild til að innheimta sérstakt árlegt umsýslugjald af brunabótamati húseigna. Frumvarpið hefur ekki í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð enda var gert ráð fyrir í lögum nr. 48/1994 að matsgjöld stæðu undir matskostnaði. Samkvæmt þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að heimilað verði að innheimta að hámarki 0,03‰ (prómill) í umsýslugjald, eða um 40 m.kr. á ári. Í reglugerð er áætlað að innheimta 0,025‰ (prómill) sem áætlað er að skili Fasteignamati ríkisins 35 m.kr. tekjum á ári.