Ferill 265. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 265 . mál.


314. Frumvarp til laga



um flutningsráð ríkisstofnana.

Flm.: Einar Már Sigurðarson.



1. gr.


    Eftir hverjar alþingiskosningar kýs Alþingi sjö menn í flutningsráð ríkisstofnana. Varamenn skulu kjörnir með sama hætti.
    Forsætisráðherra skipar formann og varaformann flutningsráðs ríkisstofnana úr hópi ráðsmanna.

2. gr.


    Hlutverk flutningsráðs ríkisstofnana er:
    að vera Alþingi, ríkisstjórn, ráðuneytum og einstökum ríkisstofnunum til ráðuneytis um staðarval og flutning ríkisstofnana, þar með taldar deildir og útibú slíkra stofnana,
    að gera tillögur um staðarval nýrra ríkisstofnana og breytingar á staðarvali eldri stofnana,
    að annast a.m.k. einu sinni á áratug heildarendurskoðun á staðsetningu ríkisstofnana og gera á grundvelli þeirrar endurskoðunar tillögur um breytingar, sbr. b-lið,
    að fylgjast með framkvæmd ákvarðana um flutning ríkisstofnana og staðsetningu nýrra stofnana og stuðla að því að auðvelda aðgerðir á þessu sviði.

3. gr.


    Alþingi og einstök ráðuneyti skulu leita umsagnar flutningsráðs ríkisstofnana áður en ákvarðanir eru teknar um staðarval nýrra ríkisstofnana eða breytingar á staðsetningu eldri stofnana, aðalstöðvum þeirra, deildum eða útibúum.

4. gr.


    Flutningsráð ríkisstofnana skal við tillögugerð leita samráðs við hlutaðeigandi ráðuneyti og ríkisstofnanir, Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga, samtök opinberra starfsmanna og aðra aðila sem hlut eiga að máli.

5. gr.


    Flutningsráði ríkisstofnana er heimilt að setja á stofn samstarfsnefndir þeirra aðila sem tillögugerð ráðsins snertir eða annast eiga framkvæmd á ákvörðunum um flutning ríkisstofnana.

6. gr.


    Flutningsráði ríkisstofnana er heimilt að ráða sérstaka starfskrafta til að annast tiltekin verkefni.

7. gr.


    Flutningsráð ríkisstofnana heyrir undir forsætisráðuneytið og skal kostnaður við störf þess greiðast úr ríkissjóði.

8. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var flutt á 117. löggjafarþingi og fylgdi því þá eftirfarandi greinargerð:
    Flutningur ríkisstofnana frá höfuðborgarsvæði til landsbyggðar hefur verið á dagskrá áratugum saman og hefur stuðningur við slíkan flutning verið mikill í orði en því miður hefur minna orðið úr framkvæmdum. Nefndir hafa starfað og skilað tillögum um flutning ákveðinna stofnana og er nýjasta nefndarálitið frá því í júlí 1993. Þannig liggja fyrir margar tillögur um flutning einstakra stofnana, en hér er gerð tillaga um ákveðið form á framkvæmd slíkra flutninga og á hvern hátt megi tryggja að þetta mikilvæga mál verði í heild stöðugt í skoðun.
    Í stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar segir m.a.: „Ríkisstjórnin mun á kjörtímabilinu beita sér fyrir því að stofnunum og þjónustu á vegum ríkisins verði komið fyrir utan höfuðborgarsvæðisins.“ Í samræmi við þessa stefnu ríkisstjórnarinnar skipaði forsætisráðherra nefnd um flutning ríkisstofnana 9. júní 1992. Nefndin skilaði áliti 15. júlí 1993, en ekki sjást nein teikn á lofti um framkvæmdir á tillögum nefndarinnar. Afar brýnt er að vandað verði til verka þegar unnið er að jafnmikilvægum málum og flutningi ríkisstofnana. Í þessu lagafrumvarpi er mörkuð leið sem tryggir annars vegar að horft sé yfir allt sviðið þegar ákvarðanir eru teknar og unnið er út frá ákveðinni áætlun og hins vegar að allar framkvæmdir séu vandlega undirbúnar.
    Þróun í byggðamálum og sérstaklega hin mikla fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu er í raun nægjanleg rök fyrir nauðsyn á flutningi ríkisstofnana. Þegar við bætist sú staðreynd að störfum í opinberri þjónustu hefur fjölgað hvað mest á höfuðborgarsvæðinu á síðustu árum má ljóst vera hvaða áhrif er hægt að hafa á byggðaþróun með flutningi ríkisstofnana. Með þeirri stefnu að flestar ríkisstofnanir séu á höfuðborgarsvæðinu er stórlega dregið úr atvinnumöguleikum þeirra sem búa á landsbyggðinni. Þá hefur þessi stefna hamlað því mjög að ungt landsbyggðarfólk, sem leitað hefur sér menntunar, geti fengið atvinnu við hæfi í heimabyggð. Ekki þarf að tíunda fleiri rök fyrir nauðsyn þess að flytja ríkisstofnanir frá höfuðborgarsvæðinu en minnt á þátt valddreifingar í öllum hugmyndum um dreifingu ríkisstofnana um landið.
    Eins og áður segir hafa nokkrar nefndir skilað tillögum um flutning ríkisstofnana. Sú sem skilaði viðamestu tillögunum starfaði á árunum 1972–1975. Hún lagði m.a. til heildarflutning 25 stofnana, flutning deilda hjá 12 stofnunum og stofnun 36 útibúa frá ríkisstofnunum. Þá taldi nefndin nauðsynlegt að tryggja fagleg vinnubrögð við ákvarðanatöku og alla framkvæmd. Hjá henni kom fram sú hugmynd um flutningsráð ríkisstofnana sem frumvarpið byggir á. Tveir nefndarmanna, Helgi Seljan og Ólafur Ragnar Grímsson, lögðu fram nær samhljóða frumvarp á Alþingi á árunum 1979–1982 en það hlaut ekki afgreiðslu.
    Um verksvið flutningsráðs segir m.a. í nefndaráliti frá 1975:
    „Í fyrsta lagi gæti flutningsráðið annast heildarskipulagningu og yfirumsjón með flutningi ríkisstofnana. Á vegum ráðsins gætu starfað margvíslegar samstarfsnefndir, t.d. með fulltrúum stofnana sem flytja eiga til sama svæðis, með fulltrúum skyldra stofnana sem eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta o.s.frv. Auk þeirra samstarfsnefnda, sem tengdar eru einstökum stofnunum, sbr. 2.5.1 , gæti slíkt kerfi samstarfsnefnda fleiri stofnana á vegum ráðsins auðveldað heildarframkvæmd stofnanaflutnings. Flutningsráðið gæti á þennan hátt og með almennum umræðum á fundum sínum samhæft aðgerðir á þessu sviði, greitt úr erfiðleikum og auðveldað stofnanaflutning á margvíslegan hátt.
    Í öðru lagi mætti fela flutningsráði ríkisstofnana að veita umsögn eða gera tillögur um staðarval nýrra ríkisstofnana og taka staðsetningu alls ríkiskerfisins til endurskoðunar með reglulegu millibili, t.d. einu sinni á hverjum áratug. Þótt nefndin hafi leitast við að taka til meðferðar alla þætti ríkiskerfisins mun þróunin næstu áratugi örugglega knýja á um endurskoðun á einstökum atriðum. Einhliða staðarval nýrra stofnana getur einnig skekkt hlutföllin á ný. Nefndin er því þeirrar skoðunar að staðarval ríkisstofnana sé stöðugt verkefni og réttast að fela það ákveðnum aðila.“
    Frumvarpið er að mestu eins og það var sett fram í fylgiskjali með nefndarálitinu sem lagt var fram í október 1975.
    Frumvarpsgreinarnar þurfa ekki sérstakra skýringa við.


Neðanmálsgrein: 1
    Þar segir m.a.: „Til að undirbúa og samþætta framkvæmd flutnings viðkomandi stofnunar er hagkvæmt að skipa samstarfsnefnd. Í slíkri nefnd ættu sæti stjórnendur stofnunarinnar, fulltrúar starfsfólks, forsvarsmenn hinna nýju heimkynna og fulltrúar helstu samskiptaaðila stofnunarinnar ef um slíka formlega aðila er að ræða. Nefndin yrði vettvangur umræðna og ákvarðana um einstök framkvæmdaratriði flutnings.“