Ferill 202. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 202 . mál.


340. Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um framkvæmd þingsályktunar um fræðslu í fjármálaumsýslu í skólum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig miðar framkvæmd ályktunar Alþingis um að útbúin verði námsgögn um almenna fjármálaumsýslu fyrir efsta bekk grunnskólans, sem og framhaldsskólann, og að fræðsla um almenna fjármálaumsýslu verði skyldunámsefni er verði fyrir komið í þeim námsgreinum er ráðuneytið ákveður?

Grunnskólastig.
    Samning námsgagna. Þingsályktun um fræðslu í fjármálaumsýslu, sem samþykkt var Alþingi 12. mars 1991, var kynnt Námsgagnastofnun það sama vor. Bankar og sparisjóðir höfðu þegar sýnt þessu máli áhuga og má nefna að Íslandsbanki hefur látið semja sérstakt námsefni sem notað hefur verið í starfsfræðslunámi í Reykjavík. Sparisjóður Hafnarfjarðar hefur einnig látið semja hliðstætt námsefni sem öllum nemendum í 10. bekk í Hafnarfirði stendur til boða.
    Í kjölfar fyrrnefndrar þingsályktunar fóru af stað viðræður milli Námsgagnastofnunar og fulltrúa banka og sparisjóða um útgáfu á námsefni um fjármálaumsýslu.
    Námsefnið Fjármál mín og framtíð, sem er samvinnuverkefni Námsgagnastofnunar og samstarfsnefndar banka og sparisjóða, er nú í lokavinnslu. Höfundur hefur skilað af sér handriti sem á næstu dögum verður sent til samstarfsnefndarinnar til yfirlestrar. Þegar athugasemdir og ábendingar hafa borist Námsgagnastofnun verður námsefnið gefið út og verður það væntanlega á vormánuðum. Námsefni þetta er fyrst og fremst ætlað 10. bekk grunnskólans. Höfundur, sem er kennari og viðskiptafræðingur, hefur tilraunakennt námsefnið í tvö ár hjá mismunandi námshópum svo að þegar er komin nokkur reynsla á það.
    Skyldunámsefni. Í gildandi aðalnámskrá er fjármálaumsýsla ekki afmörkuð skyldunámsgrein heldur eru þessum þætti gerð skil í nokkrum námsgreinum og má þar nefna heimilisfræði, samfélagsfræði og stærðfræði. Í aðalnámskrá grunnskóla frá 1989 er víða að finna markmið sem tengjast beint fjármálaumsýslu og er óhætt að fullyrða að þessum þætti séu þegar gerð nokkur skil í grunnskólum.
    Í menntamálaráðuneytinu er nú verið að undirbúa endurskoðun aðalnámskrár grunnskóla og samfara þeirri endurskoðun verður ákveðið hvernig tekið verður frekar á þessum þætti. Nefnd um mótun menntastefnu leggur til að námsgreinin heimilisfræði verði skilgreind að nýju og taki þá m.a. til þátta sem hverjum einstaklingi er nauðsynlegt að hafa á valdi sínu til að geta lifað sjálfstæðu lífi og tekið ábyrgan þátt í samfélagslegum skyldum hvers og eins, m.a. með tilliti til fjölskyldu- og atvinnulífs. Í því samhengi eru tiltekin „undirstöðuatriði fjárhagslegs sjálfstæðis og fjárhagslegrar ábyrgðar, m.a. gerð atvinnuumsókna og skattskýrslna, notkun ávísanahefta og greiðslukorta“ (skýrsla nefndar um mótun menntastefnu, bls. 37).

Framhaldsskólastig.
    Þegar er nokkur kennsla í fjármálaumsýslu á ýmsum brautum framhaldsskólans. Má þar nefna verslunarbrautir og hagfræðibrautir þar sem fjallað er um bókfærslu, skattarétt, rekstrarhagfræði og þjóðhagfræði. Í svokölluðum samskiptaáfanga, sem kenndur er í flestum framhaldsskólum, er fjallað um fjármál einstaklinga.
    Þá er á öllum iðnbrautum áfangi í bókfærslu þannig að allir verðandi iðnaðarmenn fá nokkra kennslu í fjármálaumsýslu.
    Verið er að hefja endurskoðun á námskrá framhaldsskóla. Nefnd um mótun menntastefnu leggur til að á öllum námsbrautum framhaldsskóla verði skilgreindur svokallaður ratvísikjarni. Þar er um að ræða námsþætti sem eiga að stuðla að almennri menntun nemenda og undirbúningi þeirra undir þátttöku í samfélagi og þjóðlífi. Meðal fjölmargra námsþátta í ratvísikjarna er samkvæmt tillögum nefndarinnar fjármálaumsýsla og fjármál einstaklinga og heimila.