Ferill 298. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 298 . mál.


390. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



1. gr.


    Í stað dagsetningarinnar „1. júlí 1994“ í síðari málsgrein 100. gr. laganna kemur: 1. júlí 1995.

2. gr.


    Á eftir ártalinu „1994“ í 1. mgr. í ákvæði til bráðabirgða í lögunum kemur: og 1995.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, er gert ráð fyrir að ákvæði eldri laga um vátryggingastarfsemi og reglugerða á grundvelli þeirra skuli gilda um ársuppgjör vátryggingafélaga fyrir reikningsárið 1994. Nýjar reglur um reikningsskil og ársuppgjör skuli á hinn bóginn koma til framkvæmda fyrir reiknings árið 1995. Í 100. gr. laganna er enn fremur kveðið á um að 34. og 35. gr. laga nr. 60/1994, sem kveða á um nýjar reglur um eignir til jöfnunar vátryggingaskuld, skuli gilda frá 1. júlí 1994.
    Fyrir liggur að ekki reynist unnt að ljúka smíði reglugerða um reikningsskil vátrygg ingafélaga, þannig að þær öðlist gildi 1. janúar 1995 eins og stefnt var að, þar sem verkið hefur reynst umfangsmeira en í fyrstu var talið. Þá er óvíst hvenær sett verða ný lög um bókhald og ársreikninga fyrirtækja sem taka verður tillit til við samningu reglnanna. Auk þess má nefna að Samband íslenskra tryggingafélaga telur nauðsynlegt að vátryggingafé lög fái nokkurn aðlögunartíma áður en nýjar reglur ganga í gildi. Í ljósi þess hefur heil brigðis- og tryggingamálaráðuneytið farið þess á leit við heilbrigðis- og trygginganefnd að nefndin hafi forgöngu um gerð breytinga á lögum nr. 60/1994 í samræmi við breyttar forsendur og er það gert með frumvarpi þessu. Nefndin bendir á að Norðmenn og Svíar, sem þurfa að gera sambærilegar breytingar á sinni löggjöf, hafa ákveðið að fresta gildis töku þeirra til 1. janúar 1996.
     Breytingar þær, sem lagðar eru til í frumvarpinu, eru tvíþættar: Annars vegar er lagt til að nýjar reglur 34. og 35. gr., sem fjalla um eignir til jöfnunar vátryggingaskuld, öðlist ekki gildi fyrr en 1. júlí 1995. Hins vegar er lagt til að gerð verði breyting á 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða þannig að ákvæði laga um vátryggingastarfsemi, nr. 50/1978, og reglugerða á grundvelli þeirra skuli gilda eftir því sem við getur átt um reikningsskil og ársuppgjör vátryggingafélaga fyrir árið 1995, auk ársins 1994 eins og bráðabirgðaákvæð ið gerir ráð fyrir.