Ferill 249. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 249 . mál.


510. Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Þuríðar Bernódusdóttur um veiðar umfram kvóta.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða skip hafa veitt umfram kvóta og hverjar hafa sektir þeirra verið frá árinu 1991? Hvernig eru viðurlögin reiknuð á einstakar tegundir?

    Ráðuneytið leitaði til embættis ríkislögmanns og óskaði eftir því að embættið léti ráðuneyt inu í té álit sitt á hvort því væri heimilt að birta opinberlega lista yfir þá aðila sem látnir hafa verið sæta upptöku samkvæmt ákvæðum laga nr. 32/1976, um upptöku ólöglegs sjávarafla, eða gjaldtöku samkvæmt ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.
    Ráðuneytinu hefur borist álit ríkislögmanns og er það birt sem fylgiskjal. Er það niðurstaða ríkislögmanns að birting þessara upplýsinga sé óheimil þar sem til þess skorti sérstaka laga heimild.
    Með vísan til álits ríkislögmanns telur ráðuneytið að því sé ekki fært að birta þær upplýsing ar sem fyrri hluti fyrirspurnarinnar lýtur að. Þar sem síðari hlutinn er svo tengdur þeim fyrri mun ráðuneytið ekki svara þeim þætti nema þess verði sérstaklega óskað.



Fylgiskjal.


Embætti ríkislögmanns:

Minnisblað um birtingu lista yfir aðila sem sætt hafa upptöku


samkvæmt lögum nr. 32/1976 eða gjaldtöku samkvæmt lögum nr. 37/1992.


(21. desember 1994.)



    Með bréfi ráðuneytisins dags. 13. þessa mánaðar er þess farið á leit að embætti ríkislög manns „láti ráðuneytinu í té álit sitt á því hvort birta megi opinberlega lista yfir þá aðila sem látnir hafa verið sæta upptöku samkvæmt lögum nr. 32/1976, um upptöku ólöglegs sjávarafla, eða gjaldtöku samkvæmt lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla“. Verði opinber birting slíkra upplýsinga talin óheimil óskar ráðuneytið eftir áliti á því hvort ann að gildi um fyrirspurnir sem komi frá Alþingi.
    Í bréfi ráðuneytisins er tekið fram að það hafi jafnan verið afstaða þess að veita ekki um ræddar upplýsingar og hafi ráðuneytið m.a. synjað Alþingi um slíkar upplýsingar vegna fyrir spurnar í nóvember 1985. Nú hafi nýverið verið borin fram fyrirspurn á Alþingi til sjávarútvegs ráðherra um veiðar umfram kvóta og sé ráðuneytið þeirrar skoðunar að birting umræddra upp lýsinga gætu haft mikil varnaðaráhrif og sé því vilji til að birta þær verði talið að lög leyfi.
    Tilgangur með setningu laga þeirra sem erindi ráðuneytisins fjallar um var öðru fremur að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu fiskstofna. Þetta kemur glöggt fram í athugasemdum með frumvörpunum þegar þau voru lögð fram á Alþingi. Þar kom jafn framt fram að mjög oft geti reynst erfitt eða jafnvel ógerlegt þegar landað er ólöglegum sjávarafla að sanna að um sök hafi verið að ræða eða um önnur þau atriði sem sönnun verður að liggja fyrir um til þess að sektir verði dæmdar. Því hafi ekki þótt rétt að gera upptöku ólöglegs afla eða greiðslu sérstaks gjalds vegna ólögmæts sjávarafla háða því að um refsiverðan verknað hafi verið að ræða.
    Samkvæmt 3. gr. laga nr. 32/1976 úrskurðaði sjávarútvegsráðuneytið hvort um ólög legan sjávarafla hefði verið að ræða og hvert skyldi vera andvirði hins ólöglega afla sem gera skyldi upptækan. Samkvæmt núgildandi lögum nr. 37/1992 leggur Fiskistofa á gjald vegna ólögmæts sjávarafla, en nefnd þriggja manna skipaðra af sjávarútvegsráðherra hef ur úrskurðarvald um álagningu gjaldsins. Úrskurð ráðuneytisins um upptöku afla sam kvæmt ákvæðum laga nr. 32/1976 mátti bera undir almenna dómstóla eða vísa til með ferðar sakadóms væri refsimál höfðað. Þau lög og stjórnvaldsfyrirmæli sett á grundvelli þeirra féllu úr gildi 1. september 1992. Ágreining um skyldu til greiðslu gjalds sam kvæmt ákvæðum laga nr. 37/1992 eða um ábyrgð á greiðslum má bera undir dómstóla.
    Stjórnsýsluákvarðanir þær sem teknar eru samkvæmt þessum lagaákvæðum eru íþyngj andi og fela í sér refsikennd viðurlög óháð því hvort um refsiverðan verknað hafi ver ið að ræða.
    Í lögum þeim sem ráðuneytið vísar til í erindi sínu eru ákvæði um að stjórnvalds ákvarðanir samkvæmt lögunum skuli teknar með skriflegum og rökstuddum úrskurðum og sendar þeim aðilum sem hagsmuna hafa að gæta, sbr. hér einnig 2. gr. reglugerðar nr. 249/1988 um upptöku ólöglegs sjávarafla. Í lögunum eru ekki ákvæði um opinbera birt ingu ákvarðana sem teknar eru á grundvelli þeirra og í gögnum við setningu laganna er ekki að finna vísbendingu um hver hafi verið vilji löggjafans í því efni. Verður því að leita svara til annarra réttarheimilda.
    Ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um skyldu stjórnvalda til þess að veita aðgang að skjölum og öðrum gögnum, svo og til birtingar á ákvörðunum sínum, lúta að rétti að ila máls hverju sinni og eru því ekki beint til leiðbeiningar hér.
    Skráðum réttarreglum um almenna upplýsingaskyldu stjórnvalda gagnvart almenn ingi er ekki til að dreifa. Á einstökum sviðum hafa aftur á móti verið sett lagaákvæði sem tryggja aðgang almennings að vissum tilgreindum upplýsingum, sbr. t.d. lög nr. 21/1993, um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál, svo og 2. mgr. 145. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, með síðari breytingum, varðandi aðgang að hluta félagaskrá og ársreikningum hlutafélaga. Á öðrum sviðum hafa verið sett ákvæði um skyldu stjórnvalda til birtingar á tilgreindum upplýsingum, sbr. hér t.d. 1. mgr 12. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, um útgáfu árlegrar skýrslu um starfsemi emb ættisins, sbr. einnig 2. mgr. 111. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum, um skyldu Ríkisendurskoðunar til að gefa Alþingi árlega skýrslu um samninga um skuldbreytingu vegna ógreidds tekjuskatts eða eignarskatts. Einnig má nefna ákvæði 12. gr. laga nr. 12/1986 um árlega heildarskýrslu um störf Ríkisendurskoðunar sem lögð skal fyrir Alþingi, sbr. enn 14. gr. laga nr. 30/1992 um útgáfu úrskurða yfir skattanefndar. Það er sammerkt þessum útgáfum eða birtingum að nafna einstaklinga eða lögaðila er ekki getið, jafnvel þó skýr lagaákvæði standi til að Alþingi sé gefin skýrsla um beitingu ívilnandi heimilda, sbr. ákvæði 2. mgr. 11l. gr. laga um tekjuskatt og eign arskatt.
    Á enn öðrum sviðum hefur löggjafinn sett ákvæði sem leggja bann við því að gefn ar verði tilteknar upplýsingar, sbr. hér ákvæði 32. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en þar er kveðið á um skyldur starfsmanna til að gæta þag mælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara að lögum, fyr irmælum yfirboðara eða eðli máls. Leiðbeiningar um þessa þagnarskyldu er ekki að finna í umfjöllun Alþingis þegar lögin voru sett. Þá má nefna ákvæði laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. er án sérstakrar laga heimildar lagt bann við því að skýrt sé frá tilgreindum upplýsingum nema með sam þykki hlutaðeigandi og er undanþága frá þessari reglu bundin heimild tölvunefndar og að brýnir almannahagsmunir krefji. Skal þá þörfin á að veita upplýsingarnar ótvírætt vega þyngra en tillitið til þess að þeim sé haldið leyndum. Öðrum upplýsingum, sem ekki eru eins persónulegar og fjallað er um í 1. mgr. 5. gr., er því aðeins heimilt að skýra frá án samþykkis hins skráða að slík upplýsingamiðlun sé eðlilegur þáttur í venjubundinni starf semi skráningaraðilans, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. Hins vegar er heimilt að skýra frá upplýsingum ef eigi er unnt að rekja þær til ákveðinna einstaklinga eða lögpersóna, sbr. lokamálsgrein 5. gr. Í 3. mgr. 1. gr. laganna eru persónuupplýsingar skilgreindar sem upp lýsingar sem varða einkamálefni, fjárhagsmálefni eða önnur málefni einstaklinga, stofn ana, fyrirtækja eða annarra lögpersóna sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Í at hugasemdum með frumvarpi til laganna var tekið fram að um sé að ræða matskennda við miðun og að fyrir fram verði ekki afmarkað hverjar upplýsingar sanngjarnt er og eðli legt að leynt fari. Loks skal nefnt að skv. 2. mgr. 19. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, setur dómsmálaráðherra í reglugerð ákvæði um sakaskrá og aðgang að henni. Ákvæði reglugerðar nr. 249/1992 um sakaskrá ríkisins takmarka aðgang að upplýsing um úr sakaskrá við tiltekna opinbera aðila og aðila sjálfan, sbr. 11. gr. Í 12. og 13. gr. er að finna heimildir fyrir ríkissaksóknara til að veita öðrum aðilum upplýsingar úr saka skrá enda séu þær nauðsynlegar til að gætt verði viðurkenndra lögmætra hagsmuna við meðferð einstakra mála.
    Þær réttarheimildir sem nú hafa verið raktar og venjur sem farið hefur verið eftir við birtingu stjórnvaldsákvarðana leiða í ljós að upplýsingar um hagi einstaklinga eða lög persóna eru almennt ekki birtar opinberlega nema fyrir því sé ótvíræð lagaheimild eða eðli máls leiði til þess. Er þetta í samræmi við grundvallarreglur um friðhelgi einkalífs.
    Ekki verður séð að beinir almannahagsmunir krefjist þess að vikið verði frá þessari meginreglu og birtar opinberlega upplýsingar um aðila sem látnir hafi verið sæta upp töku samkvæmt lögum nr. 32/1976, um upptöku ólöglegs sjávarafla, eða gjaldtöku sam kvæmt lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Er þá jafnframt haft í huga að um refsikennd viðurlög er að ræða án þess að fyrir liggi hvaða atferli hafi verið refsivert. Er það álit embættis ríkislögmanns að birting þessara upplýsinga sé óheimil án sérstakrar heimildar í lögum.
    Réttur alþingismanns til að óska upplýsinga frá ráðherra eða svars um opinbert mál efni eða einstakt atriði þess með fyrirspurn á Alþingi skv. 49. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp, takmarkast samkvæmt eðli máls við upplýsingar sem heimilt er að lögum að gera opinberar.