Ferill 384. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 384 . mál.


618. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992.

(Lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994–95.)



1. gr.


    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi:
    Á árunum 1995–99 skal innheimta 10% álag á iðgjöld skv. 11. gr. Tekjur af þessu álagi á iðgjöld skulu renna í ofanflóðasjóð, sbr. 10. gr. laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 28/1985. Um innheimtu þessa gjalds fer skv. 11. gr.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Nýlega skilaði áliti nefnd sem félagsmálaráðherra skipaði til að endurskoða lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 28/1985. Í áliti nefndarinnar kemur fram að nauðsynlegt er að veita frekari fjármunum til snjóflóðavarna. Nefndin gerði tillögu um að á árunum 1995–99 yrði innheimt 10% álag á iðgjöld vegna viðlagatryggingar. Tekjur af þessu álagi á iðgjöld rynnu til ofanflóðasjóðs. Samkvæmt lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum hefur ofan flóðasjóður nú til ráðstöfunar 5% af tekjum af iðgjöldum viðlagatryggingar auk beinna framlaga á fjárlögum. Framlag frá Viðlagatryggingu Íslands hefur verið liðlega 20 m.kr. á ári. Beint framlag á fjárlögum hefur verið liðlega 6 m.kr.
    Með þeirri breytingu sem hér er lögð til mundu ráðstöfunartekjur ofanflóðasjóðs vegna tekna af viðlagatryggingariðgjöldum u.þ.b. þrefaldast og hækka úr liðlega 20 m.kr. í tæplega 80 m.kr. Til viðbótar kæmu bein framlög á fjárlögum til sjóðsins.
    Þegar höfð eru í huga snjóflóðin í Súðavík þarf vart að hafa mörg orð um nauðsyn þess að endurskoða allt áhættumat vegna snjóflóðahættu og gera átak í snjóflóðavörnum á Íslandi. Með því viðbótarfjármagni sem fengist með þessari lagabreytingu yrði unnt að gera nauðsynlegt átak í þessum efnum.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum


nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands.


    Samkvæmt frumvarpinu er lagt á tímabundið 10% álag á iðgjöld viðlagatryggingar og skal því ráðstafað í ofanflóðasjóð, sbr. lög nr. 28/1985. Samkvæmt upplýsingum frá Viðlagatrygg ingu Íslands mun álagið skila um 50 m.kr. tekjuauka miðað við tekjur af iðgjöldum árið 1994. Framangreind tímabundin hækkun á iðgjöldum mun ekki hafa bein áhrif á útgjöld ríkissjóðs umfram það sem ríkissjóður greiðir í iðgjöld sem vátryggingar taki. Ekki reyndist auðvelt að nálgast iðgjaldagreiðslur A-hluta ríkissjóðs vegna viðlaga tryggingar, en þar er um óverulegan kostnaðarauka að ræða.