Ferill 378. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 378 . mál.


677. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhanns Ársælssonar um kostnað af ráðherraskiptum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver hefur kostnaðarauki ríkissjóðs orðið af ráðherraskiptum á valdatíma ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar?
    Óskað er eftir að biðlaun verði sundurliðuð á einstaka ráðherra.


    Fjórir ráðherrar hafa látið af störfum á valdatíma ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Þeir eru: Eiður Guðnason, Jón Sigurðsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Guðmundur Árni Stefánsson.
    Við starfslok njóta ráðherrar greiðslu biðlauna skv. 29. gr. laga nr. 92/1955, um laun starfs manna ríkisins, en þar segir:
    „Nú hefur maður gegnt ráðherraembætti í 2 ár samfleytt eða lengur, og á hann þá rétt á biðlaunum, er hann lætur af því starfi.
    Biðlaun skal greiða í sex mánuði, talið frá 1. degi næsta mánaðar eftir að hlutaðeiganda var veitt lausn frá ráðherraembætti. Biðlaun skulu vera 70% af launum ráðherra, eins og þau eru á biðlaunatímanum. Nú tekur sá, er biðlauna nýtur, stöðu í þjónustu ríkisins, og fellur þá niður greiðsla biðlauna, ef stöðunni fylgja jafnhá eða hærri laun, ella greiðist launamismunurinn til loka 6 mánaða tímans.“
    Biðlaunagreiðslur hafa verið sem hér segir:
    Eiður Guðnason, kt. 071139-4339, lét af störfum sem ráðherra 30. júní 1993. Hann fékk greidd biðlaun tímabilið 1. júlí 1993 til 31. ágúst 1993. Eiður tók við embætti sendiherra 1. sept ember 1993 og féll þá niður greiðsla biðlauna samkvæmt áður tilvitnaðri lagagrein. Biðlaun til hans námu samtals 162.030 kr.
    Jón Sigurðsson, kt. 170441-4949, lét af störfum sem ráðherra 30. júní 1993. Hann afsalaði sér rétti til biðlauna.
    Jóhanna Sigurðardóttir, kt. 041042-4869, lét af störfum sem ráðherra 24. júní 1994. Hún fékk greidd biðlaun tímabilið 1. júlí 1994 til 31. desember 1994. Biðlaun til hennar námu sam tals 486.090 kr.
    Guðmundur Árni Stefánsson, kt. 311055-2599, lét af störfum sem ráðherra 12. nóvember 1994. Hann hafði ekki áunnið sér rétt til biðlauna samkvæmt áður tilvitnaðri lagagrein.
    Samkvæmt gögnum starfsmannaskrifstofu nemur kostnaður vegna ráðherraskiptanna því samtals 648.120 kr.