Ferill 266. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 266 . mál.


798. Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Einars Más Sigurðarsonar um stefnumótun á sviði fullorð insfræðslu.

     1 .     Hvernig miðar vinnu við stefnumótun á sviði fullorðinsfræðslu?
    Unnið er að stefnumótun á sviði fullorðinsfræðslu í menntamálaráðuneytinu.
    
     2 .     Hverjir vinna að stefnumótuninni og hver eru helstu markmið hennar?
    Á síðasta ári hófst í ráðuneytinu undirbúningur að stefnumótun á sviði fullorðinsfræðslu. Var félagsmálaráðuneytinu sent bréf 6. júní 1994 þar sem þess var getið að æskilegt væri að ráðuneytin hefðu samstarf sín á milli um endurskoðun laga um almenna fullorðinsfræðslu, nr. 47/1992, og laga um starfsmenntun í atvinnulífinu, nr. 17/1992, og að í því starfi yrði hugað að heildarskipulagningu á menntunarframboði fullorðinna sem fjármagnað er af opinberu fé. Var óskað eftir viðræðum ráðuneytanna um það hvernig farsælast væri að standa að verkinu.
    Ekkert formlegt svar barst frá félagsmálaráðuneytinu, en í október 1994 skipaði félagsmála ráðherra endurskoðunarnefnd vegna laga um starfsmenntun í atvinnulífinu. Menntamálaráðu neytið átti fulltrúa í þeirri nefnd. Það varð niðurstaða þess hóps að ekki væri að svo komnu máli tímabært að ganga frá endurskoðun þeirra laga. Var talið nauðsynlegt að fá frekari reynslu af lögunum áður en slík endurskoðun yrði gerð.
    Síðasta sumar skilaði nefnd um mótun menntastefnu álitsgerð sinni. Í henni er m.a. fjallað um fullorðinsfræðslu í framhaldsskólum. Í ljósi hennar og þeirra ákvæða um fullorðinsfræðslu, sem eru í frumvarpi til laga um framhaldsskóla sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, er það mat ráðuneytisins að leggja beri megináherslu á að efla fullorðinsfræðslu innan framhaldsskólanna í stað þess að fara á þessu stigi málsins út í endurskoðun á gildandi lögum um almenna fullorð insfræðslu.
    Helstu áhersluþættir yrðu m.a.:
     1 .     Endurskoðun á námi, kennsluháttum og námsefni í öldungadeildum.
     2 .     Tilraunastarf á sviði fjarkennslu.
     3 .     Skipulagning á hagnýtu starfsnámi fyrir fullorðna.
     4 .     Mat á starfsreynslu inn í starfsnám til styttingar á náminu.
     5 .     Aukinn hlutur framhaldsskóla í endurmenntun.
    Ráðuneytið mun í ár halda áfram að styðja tilraunastarf á sviði fjarkennslu þar sem nýjasta upplýsingatækni er notuð. Má þar m.a. nefna hugmyndir um samstarf skóla á Austurlandi um tilraunastarf á þessu sviði, svo og fjarkennslu Verkmenntaskólans á Akureyri þar sem kennsla fer fram í gegnum íslenska menntanetið. Ráðuneytið hefur þegar veitt styrki til að þróa aðferðir við námskeiðahald fyrir atvinnulausa og haldið verður áfram að vinna að málefnum nýbúa og mæta þörfum þeirra fyrir menntun.
    Áður en ráðist yrði í frekari stefnumótun telur ráðuneytið rétt að gera einstakar úttektir og tilraunir á útvöldum sviðum. Verður í því skyni leitað eftir samstarfi við skólana.