Ferill 462. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 462 . mál.


900. Skýrsla



um athugun á einstökum ákvæðum skaðabótalaga, nr. 50/1993.

Frá allsherjarnefnd.



    Allsherjarnefnd hefur fjallað um einstök ákvæði skaðabótalaga, nr. 50/1993, sbr. 26. gr. þingskapa.
    Nefndin hafði frumvarp til skaðabótalaga til meðferðar á 116. löggjafarþingi og var það samþykkt vorið 1993. Málið var tekið aftur til umfjöllunar á 117. löggjafarþingi en borist höfðu allnokkur erindi þar sem fram komu m.a. ýmis sjónarmið um margföldunarstuðul 1. mgr. 6. gr. laganna.
    Allsherjarnefnd fór þess á leit við dómsmálaráðherra 27. janúar 1994 að hann skipaði nefnd þriggja manna til þess að taka afstöðu til þess hvort efni væru til að breyta skaðabótalögum. Nefndin var skipuð 18. febrúar 1994 og í henni áttu sæti Gestur Jónsson hrl., Guðmundur Skaftason, fyrrverandi hæstaréttardómari, og Gunnlaugur Claessen ríkislögmaður.
    Nefnd þessi skilaði áliti 23. júní 1994. Klofnaði hún í afstöðu sinni og lagði meiri hlutinn annars vegar til breytingar á 1. mgr. 6. gr. laganna um að hækkaður yrði margföldunarstuðull ákvæðisins úr 7,5 í 10. Hins vegar var lagt til að mörk miskastigs í 1. málsl. 2. mgr. 8. gr. lag anna yrðu lækkuð úr 15% í 10% þannig að reyndist miskastig innan þeirra marka væru ekki greiddar örorkubætar. Minni hluti nefndarinnar taldi ekki efni til breytinga á 1. mgr. 6. gr. en lýsti sig sammála síðari breytingartillögunni.
    Allsherjarnefnd fékk álit þetta í hendur með bréfi dómsmálaráðuneytisins 18. nóvember sl. og tók hún málið enn til umfjöllunar. Í bréfinu kemur fram að ráðuneytið sendi álitið til umsagn ar Lögmannafélags Íslands, Sambands íslenskra tryggingafélaga og Tryggingaeftirlitsins.
    Umsagnir þessara aðila bárust allsherjarnefnd nokkru síðar. Í umsögnum Vátrygginga eftirlitsins frá 10. og 24. janúar sl. segir m.a. að ekki séu efni til endurskoðunar skaðabótalaga hvað umrætt ákvæði 1. mgr. 6. gr. varðar vegna þess að lítil reynsla sé komin á framkvæmd lag anna. Enn fremur var mælt með að 1. málsl. 2. mgr. 8. gr. yrði breytt í samræmi við niðurstöður nefndar dómsmálaráðherra. Þá var það álit Sambands íslenskra tryggingafélaga, sbr. bréf frá 27. janúar sl., að ekkert hefði enn komið fram sem kallaði á endurskoðun margföldunarstuðuls 1. mgr. 6. gr. og auk þess var lagst eindregið gegn því að 8. gr. yrði breytt á þann hátt sem að framan greinir. Segir m.a. í umsögninni að verði einstökum ákvæðum breytt sé hætt við að fjár hagslegar heildarforsendur reglnanna séu brostnar og samhengið í þeim rofið. Laganefnd Lög mannafélags Íslands lýsti sig hins vegar samþykka áliti meiri hluta framangreindrar nefndar.
    Allsherjarnefnd ræddi þessar umsagnir og í tengslum við það komu fram fleiri sjónarmið um málið, m.a. að mismunur ríkti um fjárhæð bóta með tilliti til kynferðis.
    Í tilefni þessa máls sendi allsherjanefnd svohljóðandi bréf til dómsmálaráðuneytisins 25. febrúar 1995:
    „Allsherjarnefnd hafði á 116. löggjafarþingi til umfjöllunar frumvarp til skaðabótalaga sem vorið 1993 var samþykkt sem lög nr. 50/1993.
    Málið var aftur rætt í nefndinni á 117. löggjafarþingi, m.a. vegna gagnrýni sem borist hafði um margföldunarstuðul 1. mgr. 6. gr. laganna, en hann þótti ekki nægilega hár til að veita tjón þola fullar bætur. Vegna þess að skiptar skoðanir voru um þetta ákvæði, auk fleiri atriða, skipaði dómsmálaráðherra að beiðni allsherjarnefndar nefnd þriggja manna til þess að taka afstöðu til hvort efni væru til að breyta skaðabótalögum.
    Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til ákvæða 1. mgr. 6. gr. laganna og lagði meiri hlut inn til að margföldunarstuðull 1. mgr. 6. gr. yrði hækkaður úr 7,5 í 10. Minni hluti nefnd arinnar taldi ekki efni til breytinga á þessu ákvæði.
    Allsherjarnefnd fékk álit þetta í hendur með bréfi dómsmálaráðuneytisins 18. nóv ember sl. þar sem fram kom að ráðuneytið hafði leitað umsagnar þriggja aðila um álit ið. Umsagnirnar bárust allsherjarnefnd nokkru síðar. Í umsögnum Vátryggingaeftirlits ins og Sambands íslenskra tryggingafélaga er lagst gegn breytingum á 1. mgr. 6. gr. lag anna. Hins vegar lýsir laganefnd Lögmannafélags Íslands sig samþykka áliti meiri hluta framangreindrar nefndar.
    Ekki er komin sú reynsla á ákvæði skaðabótalaga að unnt sé að skera úr um hvort þau veiti tjónþola í raun fullar bætur, hvort sem það er með tilliti til eldra bótakerfis eða ein hverra annarra þátta.
    Allsherjarnefnd telur í ljósi framangreinds að nauðsynlegt sé að fylgst sé náið með framkvæmd skaðabótalaga, ekki síst ákvæði 1. mgr. 6. gr. þeirra. Á grundvelli slíkrar at hugunar verði hugað að því hvort breyta beri nefndu ákvæði með það fyrir augum að hækka margfeldisstuðul þess.
    Beinir nefndin því til dómsmálaráðherra að hlutast verði til um að birta skýrslu um framkvæmd og reynslu af ákvæðum skaðabótalaga, nr. 50/1993, fyrir árslok 1996 en þá má vænta að nægilegar upplýsingar liggi fyrir.“

Alþingi, 25. febr. 1995.



    Sólveig Pétursdóttir,     Kristinn H. Gunnarsson.     Ingi Björn Albertsson.
    form., frsm.          

    Anna Ólafsdóttir Björnsson.     Björn Bjarnason.     Ólafur Þ. Þórðarson.

    Jón Helgason.     Guðmundur Árni Stefánsson.     Ey. Kon. Jónsson.