Ástand á geðdeildum og sumarlokun sjúkrahúsa

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 18:13:47 (202)


[18:13]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram var vakin athygli á því nú um helgina í fjölmiðlum að til stæði að loka fjórum af átta geðdeildum Landspítalans í sumar vegna sparnaðar á sjúkrahúsunum. Morgunblaðið tók málið fyrir í Reykjavíkurbréfi og fór mjög hörðum orðum um þessa fyrirhuguðu aðgerð með þeirri niðurstöðu að svona geri maður ekki. Það má öllum ljóst vera að hér er um sparnaðaraðgerð að ræða sem haft getur mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þá sjúklinga sem í hlut eiga og ekki síður fyrir aðstandendur þeirra. Hlé á meðferð geðsjúkra getur valdið óbætanlegu tjóni.
    Það er staðreynd að stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík hefur verið gert að spara svo mikið að þjónustan er sums staðar komin að öryggismörkum. Fyrrv. ríkisstjórn beitti vægast sagt handahófskenndum niðurskurðaraðgerðum í heilbrigðiskerfinu en slíkum vinnubrögðum verður að linna. Það þarf að marka stefnu og breyta áherslum þannig að hægt sé að halda uppi nauðsynlegri þjónustu. Og ég spyr: Skilar lokun af því tagi sem þarna er fyrirhuguð einhverjum sparnaði í raun þegar til lengri tíma er litið? Ég vil skora á hæstv. heilbrrh. að sjá til þess að ekki komi til lokunar geðdeildar Landspítalans og mér heyrist að hún sé að kanna málið og ég vil vissulega gefa henni tíma til þess að vinna að þessu máli. Það verður einfaldlega að útvega það fjármagn sem til þarf. Ef efnahagsbatinn á einhvers staðar að skila sér er það meðal þeirra sem verst standa að vígi í samfélaginu og geðsjúkir eru vissulega í þeirra hópi.
    Það verður að breyta um stefnu varðandi sjúkrahúsin hérna í Reykjavík. Þau sinna mjög mikilvægu hlutverki og við verðum að breyta áherslum til lengri tíma litið í heilbrigðiskerfinu og spara fjármagn á öðrum stöðum þannig að það sé hægt að veita þá þjónustu sem nauðsynleg er og við þurfum að vinna sameiginlega að því hér á hinu háa Alþingi að taka á okkar heilbrigðismálum og það er mjög brýnt að breyta þar um áherslur.