Boðað verkfall á fiskiskipum

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 13:58:22 (233)


[13:58]
     Ágúst Einarsson :
    Herra forseti. Boðað hefur verið verkfall á fiskiskipaflotanum sem hefst á miðnætti í kvöld. Hér er mjög alvarlegt mál á ferðinni ekki síst í ljósi þess að ekki virðist horfa vel í samningaviðræðum milli aðila. Áhrifa verkfallsins mun gæta nær samstundis. Fiskvinnsla leggst m.a. af og hafa fiskverkendur þegar boðað að starfsfólk verði tekið af launaskrá innan nokkurra daga. Íslenski flotinn stundar nú arðbærar veiðar á fjarlægum miðum. Það er talið að íslenski úthafsveiðiflotinn afli fyrir um 160 millj. kr. á degi hverjum og þau verðmæti tapast einfaldlega vegna verkfallsins.
    Meginágreiningsefni samningsaðila er verðmyndun á hráefni. Nú er fiskverð með ýmsum hætti, fast fiskverð hjá einstöku útgerðum, afli seldur á fiskmörkuðum eða hluti fiskverðs tengdur verði á mörkuðum. Ljóst er að verulegur ágreiningur er um þetta form en víst er að fæstir vilja hverfa til hins miðstýrða og staðnaða verðlagsráðskerfis. Ég vil í þessu sambandi benda á stefnumál Þjóðvaka að allur afli fari um innlenda fiskmarkaði en þess má geta að nú þegar fer um 30% af botnfiskaflanum yfir fiskmarkaði. Verðmyndun á fiskmörkuðum er fyrir opnum tjöldum, stuðlar að bættum gæðum, eykur sérhæfingu, veitir aðgang að sameiginlegri auðlind og er viðurkennt form erlendis við fiskverðsákvörðun.
    Það er margt sem bendir til þess að þetta form verðmyndunar geti bæði leyst yfirstandandi kjaradeilu og stuðlað að hagkvæmni í veiðum og vinnslu þótt vitaskuld yrði að taka slíkt kerfi upp í áföngum.
    Annað atriði í sambandi við vinnustöðvunina er að ýmsir útgerðarmenn ætla að leigja skip til útlanda til að veiða utan landhelginnar. Jafnframt ætla enn aðrir útgerðarmenn að skrá skip sín á Vestfjörðum þar sem ekki var boðað verkfall. Þetta er alvarleg atlaga að verkfallsréttinum og lögbundnum starfsvettvangi verkalýðsfélaga. Þarna virðist vera um lögbrot að ræða og það er með ólíkindum að slík viðbrögð við löglega boðaðri vinnustöðvun skuli eiga sér stað.
    Hér er verið að takast á um grundvallaratriði í kjarabaráttu hérlendis. Það er lögbundinn rammi um vinnudeilur og menn verða að halda sig innan hans, bæði launþegar og vinnuveitendur. Þess er að vænta að viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar við þessu verði mjög harkaleg og það að vonum. Þannig er þessi vinnudeila komin á mjög alvarlegt stig. Ríkisstjórn landsins verður að hafa afstöðu í þessu máli sem snertir grundvallarrétt í samfélaginu.
    Fréttir berast af öðrum fyrirhuguðum verkföllum og óskað er svara frá ríkisstjórninni um stefnu í þessum málum, en ástæða er til að spyrja hvort kröfur sjómanna samrýmist launastefnu stjórnarinnar. Ef breyta á launastefnunni þegar mörg verkalýðsfélög hafa þegar gert samninga, þá er mikilvægt að sú afstaða liggi skýrt fyrir.
    Ríkisstjórnin boðaði einnig fjálglega fyrir upphaf þessa þings að eitt aðalmál þingsins yrðu væntanlegar breytingar á fiskveiðistjórnuninni. Fiskveiðistjórnun er kjaraatriði að nokkrum hluta. Vegna innbyrðis ágreinings innan stjórnarflokkanna hafa frumvörpin ekki enn séð dagsins ljós. Það er mjög ámælisvert að þingheimur er dreginn á stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Það er því nauðsynlegt að fá upplýst um þau atriði væntanlegra frumvarpa sem gætu orðið efnisatriði í þessari kjaradeilu. Það gengur ekki að óvissa ríki um þetta og tefji samningaviðræður.
    Herra forseti. Í ljósi þess sem áður hefur verið sagt vil ég spyrja hæstv. sjútvrh. eftirfarandi fimm spurninga:
    1. Hyggst ríkisstjórnin grípa inn í þessa kjaradeilu, og ef já, með hvaða hætti?
    2. Hvaða skoðun hefur ráðherra á því að ýmsir útgerðarmenn skrái skip sín á Vestfjörðum eða leigi þau til útlanda til þess að komast hjá verkfalli?
    3. Vill ráðherra stuðla að því með löggjöf að allur afli fari um fiskmarkaði til að greiða fyrir lausn

deilunnar?
    4. Telur ráðherra að kröfugerð sjómanna sé í samræmi við niðurstöður í kjarasamningum á almennum og opinberum vinnumarkaði?
    5. Hvaða efnisatriði eru í boðuðum frumvörpum ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum sem gætu tengst þessari kjaradeilu?